Fara í efni

Yfirlýsing 25. ágúst 2020

Yfirlýsing 25. ágúst 2020

Í yfirlýsingu sem Verðlagsstofa skiptaverðs (VSS) sendi frá sér þann 12. ágúst síðastliðinn var greint frá upplýsingum sem VSS tók saman í janúar 2012 um karfaútflutning áranna 2010 og 2011 og sendi úrskurðanefnd sjómanna og útvegsmanna í byrjun árs 2012.

Við áframhaldandi leit í gögnum VSS að upplýsingum sem varða útflutning á karfa á þessum árum hefur komið í leitirnar vinnuskjal með greiningu á sölu á óunnum karfa sem fluttur var til Þýskalands á árunum 2008 og 2009. Vinnuskjalið sem ber yfirskriftina: „Greining á sölu á óunnum karfa sem fluttur var til Þýskalands á árunum 2008 og 2009“ var tekið saman af þáverandi starfsmanni VSS og sent úrskurðarnefnd í apríl 2010. Viðkomandi starfsmaður lét af störfum hjá Verðlagsstofu vorið 2010.

Um er að ræða þriggja blaðsíðna ódagsett og óundirritað skjal með töflum og tölulegum upplýsingum um útflutning á óunnum karfa til Þýskalands árin 2008 og 2009, um meðalverð og magn í beinni sölu og á markaði innanlands þessi ár ásamt yfirliti um útgefin meðalviðmiðunarverð á karfa hjá VSS eftir mánuðum árin 2008 og 2009. Í lok skjalsins dregur þáverandi starfsmaður VSS ályktun af þessum gögnum í nokkrum línum. 

Yfirlýsing frá Verðlagsstofu skiptaverðs

Ástæða þess að ekki var getið um tilvist þessa skjals í fyrri yfirlýsingu VSS frá 12. ágúst er að það fannst ekki fyrr en nýlega þar sem það var vistað utan hefðbundins skjalakerfis VSS á aflögðu gagnadrifi sem núverandi starfsmenn hafa fæstir aðgang að.

Trúnaður

Þau gögn sem Verðlagsstofa safnar og/eða vinnur fyrir úrskurðarnefndina eru trúnaðargögn, sbr. 17. gr. laga nr. 13/1998, og eru starfsmenn Verðlagsstofu, sem og nefndarmenn úrskurðarnefndar, bundin þagnarskyldu. Starfsmenn Verðlagsstofu og nefndarmenn úrskurðarnefndar geta þar af leiðandi ekki tjáð sig efnislega um einstaka mál sem til umfjöllunar eru hverju sinni né þau gögn sem heyra þar undir.