Fara í efni

Úrskurður nr. 10/1998

Árið 1998, miðvikudaginn 30. desember er fundur haldinn í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Mættir eru: Guðjón A. Kristjánsson, Helgi Laxdal, Sævar Gunnarsson, Kristján Ragnarsson, Sveinn Hjörtur Hjartarson og Skúli J. Pálmason, formaður nefndarinnar.

Fyrir er tekið mál nr. 10/1998

Vélstjórafélag Íslands, Sjómannasamband Íslands
Farmanna- og fiskimannasamband Íslands
fh. áhafna
Sólbergs ÓF-12, Stálvíkur SI-1,
Sigluvíkur SI-2 og Múlabergs ÓF-32
gegn
Þormóði ramma- Sæbergi hf.

og kveðinn upp svohljóðandi

Úrskurður:

Verðlagsstofa skiptaverðs (VSS) skaut máli þessu til úrlausnar nefndarinnar með bréfi dagsettu 10. desember sl. með vísan til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 13/1998. Í bréfinu kom m.a. fram, að VSS hafi borist ósk um að kanna hvort samningar um verð á ísrækju milli áhafna á Sólbergi ÓF-12, Stálvík SI-1, Sigluvík SI-2 og Múlabergi ÓF- 32 sem Þormóður rammi- Sæberg hf. gerir út til ísrækjuveiða væri í samræmi við það, sem almennt gerist. Niðurstaða þeirrar könnunar hafi leitt í ljós, að verð til áhafna þessara skipa hafi verið lægra en almennt sé greitt til áhafna skipa sem stundi veiðar á ísaðri rækju.

Málið var fyrst tekið fyrir á fundi í úrskurðarnefnd 17. desember sl. og síðan var það aftur tekið fyrir á fundi í nefndinni hinn 18. sama mánaðar. Þar tóku fulltrúar sjómanna í nefndinni að sér að gæta hagsmuna áhafna framangreindra skipa Þormóðs ramma- Sæbergs hf. en fulltrúar útgerðarmanna kváðust myndu annast hagsmunagæslu fyrir útgerð þeirra. Jafnframt var ákveðið að kalla til formann úrskurðarnefndar á næsta fund hennar, sem boðaður var 22. desember sl.. Á þeim fundi með formanni nefndarinnar gerðu fulltrúar hagsmunaaðila í nefndinni grein fyrir sjónarmiðum sínum, sem lýst verður hér að neðan og var málinu síðan frestað til dagsins í dag til fullnaðarafgreiðslu. Eftirleiðis verður vísað til fulltrúa sjómanna í úrskurðarnefnd, sem sóknaraðila en til fulltrúa útgerðarmanna sem varnaraðila.

Kröfur og sjónarmið sóknaraðila.

Sóknaraðili gerir kröfu til þess, að verð á ísaðri rækju til áhafna framangreindra rækjuveiðiskipa verði sem hér segir:

Rækja 230 stk. og færri í kg. 104 kr/kg
Rækja 231 stk. til 290 stk. 92 kr/kg
Rækja 291 stk. til 350 stk. 80 kr/kg
Rækja 351 stk. og fleiri í kg. 50 kr/kg.

Krafa sóknaraðila er byggð á því, að gögn frá VSS sýni að áhafnir nokkurra ísrækjuskipa fái verulega hærra verð fyrir ísaða rækju en Þormóður rammi- Sæberg hf. greiði áhöfnum sínum. Kjarasamningar sjómanna og útvegsmanna kveði á um það, að útgerðarmenn skuli jafnan tryggja áhöfnum skipa sinna hæsta gangverð. Með hliðsjón af því hljóti krafa sóknaraðila að teljast í hóf stillt. Þá sé til þess að líta að hlutur skipa Þormóðs ramma- Sæbergs hf. hafi veruleg áhrif til lækkunar á því meðalverði, sem VSS hafi reiknað út, þar sem afli þeirra sé umtalsverður miðað við heildarafla á ísaðri rækju.

Kröfur og sjónarmið varnaraðila.

Krafa varnaraðila er á þá leið, að verð til áhafnar umræddra skipa skuli vera óbreytt. Í gildi séu fiskverðssamningar við áhafnir skipanna, sem feli ekki í sér veruleg frávik frá því meðalverði, sem VSS hafi fundið út. Þá verði einnig að hafa í huga að þrír þessara samninga séu gerðir til langs tíma eða til 1. september 1999, en samningur við Sólberg ÓF-12, sé ótímabundinn. Útgerðin taki þannig verulega áhættu, enda sé löng reynsla fyrir því, að rækjuverð taki ófyrirséðum breytingum og nú fari afurðaverð á pillaðri rækju lækkandi.

Forsendur og niðurstaða:

Eins og áður segir skaut Verðlagsstofa skiptaverðs máli þessu til úrskurðarnefndar með bréfi dags. 10. desember s.l. samkvæmt heimild í 2. mgr. 7. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd nr. 13/1998.

Ákvæði 7. gr. hljóðar svo: "Víki fiskverð við uppgjör á aflahlut áhafnar í verulegum atriðum frá því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða skal Verðlagsstofa skiptaverðs taka málið til sérstakrar athugunar. Skal stofan afla allra gagna um ráðstöfun afla viðkomandi skips og verðlagningu hans, upplýsinga um samninga útgerðar og áhafnar skips um fiskverð, umsagna útgerðar og áhafnar um málið og annarra gagna er máli skipta. Telji Verðlagsstofa ekki fram komnar fullnægjandi skýringar skal hún skjóta málinu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna skv. II. kafla laga þessara með kröfu um að úrskurðarnefnd ákveði fiskverð er nota skal við uppgjör á aflahlut áhafnar skips skv. 1. mgr. svo og nauðsynlegar upplýsingar um verðlagningu sambærilegs afla í hliðstæðum viðskiptum."

Í 9. gr. laganna eru þeir aðilar tilgreindir, sem geta skotið málum til úrskurðarnefndar. Þar kemur fram, að hagsmunasamtök sjómanna og vélstjóra annars vegar og hagsmunasamtök útvegsmanna hins vegar geti, hver um sig skotið málum til nefndarinnar í þeim tilvikum, þar sem samningar hafa ekki tekist um fiskverð milli áhafnar og útgerðar. Verðlagsstofa skiptaverðs getur aftur á móti ein vísað málum til ákvörðunar nefndarinnar, eftir að fiskverðssamningar hafa verið gerðir, sé þar hallað á sjómenn viðkomandi skips að hennar mati. Verkefni Verðlagsstofu felst í því að gæta þess, að fiskverðssamningar sem útgerð og áhöfn er skylt að gera, samkvæmt ákvæðum kjarasamninga þessara aðila, séu gerðir og rétt þar að verki staðið, þannig að ekki sé hallað á sjómenn. Stofunni ber að kalla eftir öllum fiskverðssamningum og leggja mat á efni þeirra.

Meirihluti úrskurðarnefndar lítur svo á, að túlka beri 7. gr. laganna með þeim hætti að það sé aðeins á valdi VSS að meta, hvort fiskverð samkvæmt gildandi samningi víki í verulegum atriðum frá því sem algengast sé og vísa málum til nefndarinnar, ef hallað er á áhöfn að mati VSS. Hlutverk úrskurðarnefndar sé það eitt að ákveða fiskverð, sem gilda skuli við uppgjör milli útgerðar og áhafnar í þeim málum, sem henni berast. Henni sé ekki ætlað að meta, hvort frávik samnings sé slíkt að réttlæti málskoti til nefndarinnar. Þegar mál hefur borist úrskurðarnefnd beri að fara eftir fyrirmælum 11. gr. tilvitnaðra laga óháð því, hver þeirra aðila, sem lögbundna heimild hefur til að leita úrlausna nefndarinnar, á aðild að málskoti til hennar.

Fyrirmæli 11. gr. eru svohljóðandi: "Úrskurðarnefnd skal við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa skiptaverðs hefur safnað. Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. …."

Fyrirmæli 2. mgr. 11 gr. núgildandi laga um úrskurðarnefnd er samhljóða 2. mgr. 5. gr. fyrri laga um úrskurðarnefnd nr. 84/1995. Nefndin hefur í störfum sínum að jafnaði túlkað lagaákvæði þetta svo, að nærtækast sé að miða við meðalverð, við túlkun hugtaksins "algengast fiskverð við sambærilega ráðstöfun afla" enda hlýtur það að endurspegla algengasta verðið.

Ekki þykir ástæða til að víkja frá þeirri starfsreglu í máli því sem hér er til úrlausnar.

Gögn þau, sem VSS hefur lagt fyrir úrskurðarnefnd, leiða í ljós að vegið meðalverð á ísaðri rækju til áhafna samkvæmt fyrirliggjandi fiskverðssamningum og öðrum upplýsingum nemi kr. 89,03.

Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar hefur afurðaverð á pillaðri rækju haldist nokkuð stöðugt síðastliðna 5 mánuði. Það var sem hér segir: júlí 125,9 kr/kg., ágúst 123,9 kr/kg., september 124,9 kr/kg., október 122,9 kr/kg. og nóvember 124,9 kr/kg.

Upplýsingar VSS um verð það, sem Þormóður rammi- Sæberg hf. hefur greitt áhöfnum skipa sinna er sem hér segir:

Rækja 230 stk. og færri í kg. 87 kr/kg
Rækja 231 stk. til 290 stk. 78 kr/kg
Rækja 291 stk. til 350 stk. 55 kr/kg
Rækja 351 stk. og fleiri í kg. 34 kr/kg

Verð áhafnar Sólbergs ÓF-12 er frábrugðið að því leyti að sama verð 55 kr/kg. er greitt fyrir alla rækju smærri en 291 stk/kg.

Samkvæmt upplýsingum Þormóðs ramma- Sæbergs hf. í bréfi félagsins til VSS dags. 4. desember sl. kemur fram, að meðalverð til áhafna allra umræddra skipa félagsins nam kr. 84,06.

Eins og áður segir nemur vegið meðalverð ísrækju samkvæmt upplýsingum VSS kr. 89,03 pr/kg. Frávik frá meðalverði er því 5,91%. Því þykir rétt að verð til áhafna Sólbergs ÓF-12, Stálvíkur SI-1, Sigluvíkur SI-2 og Múlabergs ÓF-32 verði sem hér segir.

Rækja 230 stk. og færri í kg. 94 kr/kg
Rækja 231 stk. til 290 stk. 84 kr/kg
Rækja 291 stk. til 350 stk. 58 kr/kg
Rækja 351 stk. og fleiri í kg. 36 kr/kg

Við verðlagningu þessa er lítillega tekið tillit til þeirra lækkunaráhrifa, sem rækjusamningar Þormóðs ramma- Sæbergs hf. við áhafnir skipa sinna hafa haft á vegið meðaltal ísaðrar rækju.

Úrskurður þessi skal gilda frá 17. desember 1998 til 1. mars 1999.

Úrskurðarorð:

Þormóður rammi- Sæberg hf. skal miða uppgjör sitt til áhafna Sólbergs ÓF-12, Stálvíkur SI-1, Sigluvíkur SI-2 og Múlabergs ÓF-32 við eftirfarandi verð:.

Rækja 230 stk. og færri í kg. 94 kr/kg
Rækja 231 stk. til 290 stk. 84 kr/kg
Rækja 291 stk. til 350 stk. 58 kr/kg
Rækja 351 stk. og fleiri í kg. 36 kr/kg

Gildistími úrskurðar þessa er frá 17. desember 1998 til 1. mars 1999.

Að úrskurði stóðu:

Skúli J. Pálmason
Guðjón A. Kristjánsson
Helgi Laxdal
Sævar Gunnarsson