Fara í efni

Úrskurður nr. 1/2000

Árið 2000, fimmtudaginn 20. janúar er fundur haldinn í Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Mættir eru: Helgi Laxdal, Hólmgeir Jónsson, Grétar Mar Jónsson, Friðrik J. Arngrímsson, Sveinn Hjörtur Hjartarson og Skúli J. Pálmason, formaður nefndarinnar.

Fyrir er tekið mál nr. U-1/2000

Landsamband ísl. útvegsmanna

Skinneyjar- Þinganess hf.

gegn

Sjómannasambandi Íslands,

Vélstjórafélagi Íslands og

Farmanna-og fiskimannasambandi Íslands

áhafnar

Skinneyjar SF-30

 

og kveðinn upp svohljóðandi

Úrskurður:

Landsamband ísl. útvegsmanna vísaði málinu til Úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna (eftirleiðis nefnd úrskurðarnefnd) með bréfi til Verðlagsstofu skiptaverðs (VSS), dags. 30. desember sl. Fundur var haldinn um málið í nefndinni 5. janúar sl. Þar náðist ekki samkomulag með fulltrúum hagsmunaaðila í nefndinni og því ákveðið að kalla til formann nefndarinnar á næsta fund nefndarinnar. Einnig var ákveðið, að fulltrúar útvegsmanna í nefndinni skiluðu greinargerð til formanns mánudaginn 10. janúar sl. en fulltrúar sjómanna þriðjudaginn 11. janúar sl. Fundur var síðan haldinn með formanni úrskurðarnefndar föstudaginn 14. janúar sl. Þar var farið yfir málið og reynt að ná fram lausn á ágreiningi málsaðila, en án árangurs. Því var ákveðið að fresta málinu til dagsins í dag í því skyni að gefa formanni ráðrúm til að leggja fram úrskurðardrög til lausnar deilu málsaðila.

Eftirleiðis verður vísað til fulltrúa útgerðarmanna í úrskurðarnefnd, sem sóknaraðila en til fulltrúa sjómanna sem varnaraðila.

Málsatvik eru í stórum dráttum þau, að áhöfn Skinneyjar SF-30 og útgerð skipsins, Skinney-Þinganes hf. gerðu með sér samkomulag um fiskverð hinn 26. febrúar 1999.

Samningurinn var á þessa leið:

Þorskur slægður 1. flokkur: 2. flokkur:
8,5 kg. 123 kr/kg. 90 kr/kg.
5,5-8,5 kg. 103 kr/kg. 85 kr/kg.
3,5-5,5 kg. 93 kr/kg. 75 kr/kg.
- 3,5 kg. 88 kr/kg. 75 kr/kg.
Þorskur í frost 100 kr/kg.  
ufsi slægður 62 kr/kg.  
ýsa slægð 90 kr/kg.  
þorskhrogn 170 kr/kg.  
Löndun í körum 1.090 kr/kg.  
----- laust 1.290 kr/kg.  

 

Aðrar tegundir skyldu seldar á markaði, eða annað sem hagstæðast þætti. Samningurinn skyldi gilda frá 28. febrúar 1999 og vera uppsegjanlegur af beggja hálfu með sólarhrings fyrirvara.

Með bréfi dagsettu 17. desember sl. sagði áhöfn Skinneyjar SF-30 upp fiskverðssamningnum. Viðræður milli útgerðar og áhafnar báru ekki árangur. Áhöfn gerði kröfu til hækkunar á verði þorsks og var krafa hennar svohljóðandi:

Tafla Gæðaflokkar kr. kg.
Stærðarflokkar: SPIG I&II PORT AB PORT CD & E
10,5kg+ 120 105 80
7,0-10,5 kg. 100 90 70
4,5-7,0 kg 95 85 65
3,0-4,5 kg. 85 75 55
-3,0 kg 75 65 50

 

Útgerðin bauð aftur á móti sama verð og sóknaraðili býður nú fram og síðar verður lýst.

Málinu var síðan vísað til úrskurðarnefndar af hálfu sóknaraðila eins og áður segir. Á fundinum 14. janúar sl. var því lýst yfir af hálfu fulltrúa beggja málsaðila, að ekki væri ágreiningur þeirra í milli um annað en verðlagningu á þorski. Þá var þar ennfremur samþykkt að ákvörðun úrskurðarnefndar skyldi miða við óslægðan þorsk.

Kröfur og sjónarmið sóknaraðila.

Sóknaraðili gerir kröfu til þess að úrskurðarnefndin ákveði, að núgildandi verð á þorski í beinum löndunum Skinneyjar SF-30 skuli vera óbreytt en síðastgildandi fiskverð komi fram í neðangreindri töflu nr. 1. Þar komi fram, að verðflokkunin miðist við stærð fisksins og hvernig honum sé skipt í gæðaflokka til verkunar í saltfisk.

Tafla nr. 1 Gæðaflokkar kr. kg.
Stærðarflokkar: SPIG I&II PORT AB PORT CD & E
10,5kg+ 110 100 70
7,0-10,5 kg. 90 85 65
4,5-7,0 kg 85 75 55
3,0-4,5 kg. 75 65 50
- 3,0 kg 70 60 45

 

Sóknaraðili gerir kröfu til þess, að verð á þorski verði óbreytt frá fyrri samningi og gildi verðákvörðun úrskurðarnefndar til 13. febrúar n.k. Umrætt fiskverð sé í gildi við sex aðra báta sem gerðir séu út af fyrirtækinu. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram, að kröfugerð hans f.h. útgerðarinnar sé óbreytt í raun en í annarri útfærslu, en í samningnum frá 26. febrúar 1999.

Sóknaraðili fullyrðir að sá fiskur, sem verði veiddur á úrskurðartímabilinu í net muni allur fara í saltfiskverkun. Frá því að samið hafi verið um ofangreint verð hafi engar forsendur í afurðaverði breyst, sem gefi tilefni til hækkunar. Í töflu nr. 2 komi fram vegið meðalverð fyrir óslægðan þorsk veiddan í net á Austfjörðum og fyrir landið allt umreiknað í óslægðan þorsk m.v. 16% slóghlutfall. Fram komi í töflunni að meðalverð til Skinneyjar SF 30 víki lítillega frá meðalverði á Austurlandi, en sé ofan við landsmeðaltal m.v. óslægðan þorsk umreiknaðan skv. framangreindu.

  Austurland, þorskur Landið, þorskur Skinney SF 20
  ósl.(net)   Ósl.(net)*   ósl.(net)  
  kr. kg. Tonn kr. kg. tonn kr. kg. ttonn
ág.´99 86,09 156 81,48 531    
sept.´99 83,04 75 87,89 741    
okt.´99 89,89 102 81,31 685 86,15 5,2
Vegið 86,57 333 83,85 957 86,15 2 5,2
meðaltal: Umreikað m.v. 16% slóghlutfall      

 

Sóknaraðili kveðst leggja á það ríka áherslu, að niðurstaða úrskurðarnefndar gildi ekki lengur en til 13. febrúar árið 2000. Ástæða þessa sé mikil óvissa um afurðaverð saltfisks á næstu mánuðum. Einnig sé mikilvægt að halda því verðflokkunarkerfi, sem notað sé og komi fram í töflunni hér að ofan. Það hafi verið notað frá því árið 1996 með góðum árangri og í sátt milli útgerðar og sjómanna.

Sóknaraðili ítrekar, að allir aðrir netabátar Skinneyjar-Þinganess hf. séu með sama samning um fiskverð og áhöfn Skinneyjar SF 30 hafi verið með og útgerðin vilji endurnýja óbreyttan.

Með hliðsjón af framansögðum forsendum um afurðaverð telur sóknaraðili engar forsendur vera fyrir því að hækka þorskverðið.

Kröfur og sjónarmið varnaraðila

Upphafleg krafa varnaraðili um fiskverð til áhafnar Skinneyjar SF-30 var eins og fram kemur að neðan.

Þorskur:

Óslægt: Slægt:
10,5 + kg 120 kr/kg 8,5 + kg 140 kr/kg
7,0 - 10,5 kg 100 kr/kg 5,5 - 8,5 kg 120 kr/kg
4,5 - 7,0 kg 95 kr/kg 3,5 - 5,5 kg 110 kr/kg
3,0 - 4,5 kg 85 kr/kg - 3,5 kg 100 kr/kg
- 3,0 kg 75 kr/kg    

 

Annar afli:

Ufsi, slægður 62 kr/kg
Ýsa, slægð 90 kr/kg
Þorskhrogn 170 kr/kg
Aðrar tegundir skuli seldar á fiskmarkaði.

Gildistími úrskurðar skuli vera frá 1. janúar til 31. mars 2000.


Á fundinum 14. janúar sl. féllst varnaraðili á það, að flokkun sú, sem krafa sóknaraðila byggir á, skyldi lögð til grundvallar með fyrirvara um að samkomulag næðist um fyrirkomulag flokkunar.

Varnaraðili styður kröfur sínar eftirfarandi rökum:

Í 11. grein laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, segir m. a.: „Úrskurðarnefnd skal við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa fiskverðs hefur safnað. Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum.……………“. Auk þess segi skýrt í kjarasamningum milli sjómanna og útvegsmanna, að útgerðarmaður hafi með höndum sölu aflans og skuli hann tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn.

Skinney SF-30 stundi netaveiðar og ætti því, skv. lagatextanum, að skoða meðalverð á netaþorski á Austfjörðum. Staðreyndin sé hins vegar sú, að skip í rekstri Skinneyjar-Þinganess hf, þar með talið Skinney SF-30, hafi landað um 80 - 90% af óslægðum netaafla á þessu svæði í ágúst til október 1999. Einnig sé hlutfall þeirra eigin skipa á landsvísu afar hátt. Samanburður við Austurland geti því ekki orðið sanngjarn, þar sem slíkur samanburður jafngildi því, að verð fyrir netafisk á Skinney SF-30 sé borið saman við verð, sem greitt sé til skipsins sjálfs og annarra netabáta, sem fyrirtækið geri út. Hins vegar sé raunhæft að skoða, hvað fyrirtækið greiði óskyldum aðilum fyrir óslægðan þorsk. Fram komi á fylgiskjali 1, að Skinney - Þinganes hf kaupi afla af nokkrum smábátum, sem stundi línu- og handfæraveiðar. Fyrirtækið greiði þessum smábátum fyrir óslægðan þorsk um 110 - 120 kr/kg að meðaltali á sama tíma og það greiðir eigin skipum 77 - 86 kr/kg að jafnaði. Í gildi sé fiskverðssamningur milli Skinneyjar-Þinganess hf og þeirra smábáta, sem landi þorski hjá fyrirtækinu. Samningurinn sé þannig fyrir óslægðan þorsk:

7,5 kg + 140 kr/kg

4,5 - 7,5 kg 125 kr/kg

- 4,5 kg 110 kr/kg

Enda þótt hér sé um línu- og handfærafisk að ræða verði að taka tillit til þess, að Skinney SF-30 dragi netin daglega og sé því um sambærilegt hráefni að ræða. Til að uppfylla ákvæði kjarasamninga um hæsta gangverð ætti því framangreindur fiskverðssamningur einnig að gilda fyrir skipverja á Skinney SF-30.

Sóknaraðili fari óvenjulega leið í talnaleikfimi sinni við samanburð á þorsverði til Skinneyjar SF-30. Færð hafi verið rök fyrir því hér að framan, að Austurland væri ekki marktæk viðmiðun um þorskverð fyrir Skinney SF-30. Þetta virðast fulltrúar útvegsmanna í nefndinni skynja, þar sem þeir noti upplýsingar um slægðan fisk fyrir landið allt og umreikna verðið í beinum viðskiptum til verðs á óslægðum fiski. Auk þess sé upplýsingum um þorskafla og meðalverð Skinneyjar SF-30 í september alveg sleppt, en skipið landaði tæpum 92 tonnum af óslægðum þorski í þeim mánuði fyrir 74,51 kr/kg. Nærtækara hefði verið að nota upplýsingar um verð á óslægðum fiski, en hvoru tveggja hafi þó verulegan annmarka, auk þess sem alrangt sé að nota eingöngu bein viðskipti sem viðmiðunargrunn. Í ársskýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs segir í kafla III.: „Verðlagsstofa hefur ákveðnar efasemdir um eigin fiskverðsupplýsingar.

Athuganir Verðlagsstofu benda sterklega til að það meðalverð einstakra fisktegunda sem birt er á vegum stofunnar endurspegli ekki það verð sem í raun er greitt fyrir aflann. Af þeim sökum verður að telja að viðmiðanir, frávikagreiningar og jafnvel niðurstöður úrskurða séu byggðar á frekar ótraustum grunni. Sjálfstæðar athuganir stofunnar hafa leitt í ljós að í flestum tilvikum eru lág fiskverð tengd kvótakaupum, afbrigðilegum uppgjörsmáta eða skyldum þáttum. Þetta þýðir m.ö.o. að verð það sem greitt er fyrir fiskinn er hærra en fram kemur í opinberum skýrslum. Stofan hefur í þessu sambandi til athugunar að gefa sérstaklega út leiðrétt fiskverð.“

Forstöðumaður Verðlagsstofu skiptaverðs hafi til viðbótar þessu kynnt fyrir nefndarmönnum í úrskurðarnefnd, að útgerðir hafi upplýst, að skiptaverð til sjómanna sé oft hærra en hinar opinberu upplýsingar um fiskverð gefi tilefni til. Þannig réttlæti útgerðarmenn fyrir Verðlagsstofu lágt fiskverð hjá sér. Fulltrúar sjómanna í úrskurðarnefnd telja afar hæpið að nota upplýsingarnar um bein viðskipti með fisk sem grunn að verðákvörðun, sbr. ábendingarnar í ársskýrslu Verðlagsstofu. Ef nota eigi slíkar upplýsingar sem grunn, verði áður að sía þær og taka út áhrif af kvótakaupum og þess háttar viðskiptum sem mengi uppgefið fiskverð. Auk þess geti nefndin ekki lengur horft fram hjá þeirri staðreynd, að viðskipti með fisk eigi sér einnig stað á fiskmörkuðum. Verð í beinum viðskiptum myndist að miklu leyti með einhliða tilskipunum útgerðarmanna um fiskverð samhliða kvótabraski og þess háttar óeðlilegum viðskiptamáta. Bein viðskipti með fisk gefi því ekki rétta mynd af eðlilegu viðskiptaverði fisksins. Varnaraðili telur því, að við verðákvarðanir eigi eingöngu að styðjast við upplýsingar um fiskverð á mörkuðunum, enda engin annar raunhæfur viðmiðunargrunnur fyrir hendi.

Eftirfarandi töflur um meðalverð á óslægðum netaþorski annars vegar og slægðum netaþorski hins vegar á landinu öllu í ágúst, september og október á síðasta ári séu fengnar af heimasíðu Verðlagsstofu skiptaverðs:

Meðalverð: Óslægður þorskur í ágúst til október 1999 (allt landið, net).

  Selt beint til Selt á innlendum Vegið
  Fiskverkenda mörkuðum meðalverð
  verð (kr) Tonn Verð (kr) tonn  
ág. 1999 86,58 163 125,50 39 94,05
sep. 1999 89,72 173 137,88 100 107,36
okt. 1999 92,63 173 145,54 141 116,37

Heimild: Fiskifélag Íslands

Meðalverð: Slægður þorskur m/haus í ágúst til október 1999 (allt landið, net).

  Selt beint til Seltá innlendum Vegið
  Fiskverkenda Mörkuðum meðalverð
  verð (kr) Tonn Verð (kr) tonn  
ág. 1999 97,00 531 157,38 227 115,10
sep. 1999 104,63 741 150,99 311 118,32
okt. 1999 96,80 685 154,34 300 114,34

Heimild: Fiskifélag Íslands

Eins og sjáist á ofangreindum töflum sé óeðlilega mikill munur á verði í beinni sölu annars vegar og á mörkuðunum hins vegar, sem bendi ótvírætt til þess, að verð í beinni sölu endurspegli engan veginn rétt viðskiptaverð á netaþorski. Hvort sem horft sé til markaðsverðsins eingöngu eða til samanvegins meðaltals úr beinum viðskiptum og viðskiptum á markaði liggi fyrir, að kröfur sjómanna í úrskurðarnefnd séu hógværar að vanda. Varnaraðili gerir þá kröfu, að í framtíðinni verði horft til markaðanna við ákvörðun fiskverðs, þannig að úrskurðir nefndarinnar verði framvegis byggðir á sanngjörnum forsendum. Varnaraðili telur, að lögin um úrskurðarnefndina segi beinlínis að taka eigi tillit til sölu fisks á fiskmörkuðum við úrlausn mála í nefndinni. Það sé því krafa varnaraðila, að eftir þeirri tilskipun laganna verð farið í framtíðinni.

 

Forsendur og niðurstaða:

Formaður úrskurðarnefndar leggur til að ágreiningi málsaðila verði leitt til lykta með eftirfarandi hætti á grundvelli þeirra sjónarmiða, sem nú verða rakin:

Í 11. gr. núgildandi laga um úrskurðarnefnd nr. 13/1998, sem varnaraðili vísar til, er úrskurðarnefnd gefin fyrirmæli um það, hvaða aðferðum hún skuli beita við verðákvarðanir sínar. Miða skuli við það fiskverð, sem algengast sé við sambærilega ráðstöfun og taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Byggt skuli á upplýsingum frá VSS. Lagaákvæði þetta er efnislega samhljóða ákvæði eldri laga um úrskurðarnefnd nr. 84/1995.

Nefndin hefur í störfum sínum að jafnaði túlkað lagaákvæði þetta svo, að nærtækast sé að miða við meðalverð, við túlkun hugtaksins “algengast fiskverð við sambærilega ráðstöfun afla” enda hljóti það að endurspegla algengasta verðið.

Þegar legið hefur fyrir að ákveða fiskverð, þar sem útgerð skips verkar eigin afla, svonefnd bein sala, hefur í flestum tilvikum verið litið til verðs í beinni sölu á viðkomandi landsvæði, en tekið tillit til þróun afurðaverðs frá síðasta fiskverðssamningi útgerðar og áhafnar.

Í máli því, sem hér er til úrlausnar, er verð það, sem útgerð Skinneyjar SF-30 hefur boðist til að greiða áhöfn skipsins í samræmi við það meðalverð í beinni sölu, sem greitt er fyrir netaþorsk á landsvæði því sem útgerð Skinneyjar SF-30 starfar, þ.e. á Austfjörðum. Þá liggur ennfremur fyrir, að afurðaverð hefur ekkert breyst á síðastliðnu ári, eða frá þeim tíma, sem samningur áhafnar og útgerðar var gerður í febrúarlok á síðasta ári, samkvæmt nýjustu upplýsingum frá VSS, sem fengnar eru frá Fiskifélagi Íslands.

Varnaraðili vísar til þess í greinargerð sinni, að VSS hafi upplýst, að meðalverð í beinni sölu markist að einhverju leyti af kvótakaupum. Af því tilefni beindi formaður nefndarinnar sérstakri fyrirspurn til forstöðumanns VSS um þessa fullyrðingu og fór þess á leit að kannað væri hvað hæft væri í þessari staðhæfingu og hvort unnt væri að upplýsa í hvaða mæli hugsanleg kvótakaup hefðu áhrif á meðalverð í beinni sölu. VSS hefur um nokkurt skeið unnið að könnun á þessu, en endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir. Í svari VSS til úrskurðarnefndar kemur fram, að fylgni sé milli þess verðs, sem nokkrar ótilgreindar útgerðir greiði áhöfnum sínum og kvótakaupa þeirra á þann veg að þar sem verðið er lægst sé um umtalsverð kvótakaup að ræða. Á móti kemur, að VSS hefur að lögum það hlutverk að fylgjast með því að fiskverðssamningar séu gerðir milli útgerða og áhafna fiskiskipa og hafa eftirlit með því, að fiskverðssamningar víki ekki í verulegum mæli frá því sem algengast er. VSS hefur sinnt þessu lögbundna hlutverki.

Varnaraðili bendir ennfremur á það, að útgerð Skinneyjar SF-30 hafi samið við smábáta um verulega hærra fiskverð en gildi gagnvart áhöfnum þeirra skipa, sem útgerðin geri út. Upplýsingar liggja fyrir úrskurðarnefnd, sem staðfesta að þetta eigi sér stað. Til hins ber að líta í þessu sambandi, að um er að ræða þorsk, sem veiddur er á handfæri eða línu og er verð fyrir þorsk þannig veiddan almennt hærra en fyrir netafisk, en Skinney SF-30 veiðir í net. Einnig er hér um að ræða mun minna magn en það, sem bátar útgerðarinnar afla.

Þegar litið er til alls þess sem að framan er rakið, þykir rétt, eins og hér stendur á, að taka tillit til verðs á fiskmörkuðum auk verðs, sem greitt er fyrir þorsk í beinni sölu á landsvæði því, þar sem útgerð Skinneyjar SF-30 starfar með eftirgreindum hætti.

Verð það, sem sóknaraðili býður fram skal gilda um 85 % meðalverði af afla hverrar veiðiferðar, en af 15 % aflans skal miðast við verð af fiskmörkuðum fyrir óslægðan þorsk, eins og tilgreint er vikulega á vefsíðu Verðlagsstofu undir liðnum ,,fiskverð/vikulegt, þorskur, allir flokkar öll veiðarfæri”. Miða skal við uppgefið verð í löndunarviku.

Úrskurður þessi skal gilda til 1. mars 2000.

 

Úrskurðarorð:

Skinney-Þinganes hf. skal við uppgjör til áhafnar Skinneyjar SF-30 miða við eftirfarandi verð fyrir óslægðan þorsk veiddan í net:

Gæðaflokkar:

Stærðarflokkar: SPIG I&II PORT AB PORT CD&E
10,5 kg. + 110 kr/kg. 100 kr/kg. 70 kr/kg.
7.0-10,5 kg. 90 kr/kg. 85 kr/kg. 65 kr/kg.
4,5-7,0 kg. 85 kr/kg. 75 kr/kg. 55 kr/kg.
3,0-4,5 kg. 75 kr/kg. 65 kr/kg. 50 kr/kg.
- 3,0 kg. 70 kr/kg. 60 kr/kg. 45 kr/kg.

 

Ofangreint verð skal gilda um 85% af afla hverrar veiðiferðar, en 15% hluti hans skal miðast við verð af fiskmörkuðum fyrir óslægðan þorsk, eins og tilgreint er vikulega á vefsíðu Verðlagsstofu undir liðnum ,,þorskur,allir flokkar öll veiðarfæri”. Miða skal við uppgefið verð í löndunarviku.

Úrskurður þessi skal gilda til 1. mars 2000.

Skúli J. Pálmason
Hólmgeir Jónsson
Helgi Laxdal
Grétar Mar Jónsson

Athugasemd

Fulltrúar útvegsmanna í úrskurðanefndinni gerðu eftirfarandi athugasemd. „Við fulltrúar útgerðarmanna í úrskurðarnefnd mótmælum harðlega að ekki sé lagt til grundvallar úrskurðarins fiskverð, sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla, sbr. ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998”

Friðrik J. Arngrímsson
Sveinn Hjörtur Hjartarson

Samkomulag

Fulltrúar hagsmunaaðila í úrskurðarnefnd gera með sér eftirfarandi samkomulag um gæðaflokkun þá, sem niðurstaða meiri hluta úrskurðarnefndar byggist á.

„Aðilar skulu koma sér saman um, hvernig mat á fiskinum skuli framkvæmt”

Sveinn Hjörtur Hjartarson
Friðrik J. Arngrímsson
Grétar Mar Jónsson
Hólmgeir Jónsson
Helgi Laxdal