Fara í efni

Úrskurður nr. 1/2001

Árið 2001, fimmtudaginn 4. október er haldinn fundur í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna í húsakynnum Farmanna-og fiskimannasambands Íslands að Borgartúni 18 í Reykjavík.

Mættir eru Benedikt Valsson, Helgi Laxdal og Hólmgeir Jónsson frá samtökum sjómanna og vélstjóra, en Friðrik J. Arngrímsson og Sveinn H. Hjartarson mæta af hálfu LÍÚ.

Fyrir er tekið mál nr. U-1/2001:

Farmanna-og fiskimannasamband Íslands
Sjómannasamband Íslands og
Vélstjórasamband Íslands
f.h. áhafnar Ásbjarnar RE-50
gegn
Granda hf.

Farmanna-og fiskimannasamband Íslands vísaði máli þessu til úrskurðarnefndar með bréfi til Verðlagsstofu skiptaverðs (VSS) dags. 15. ágúst sl. sem er svohljóðandi: ,,Efni: Úrskurðarbeiðni. Farmanna-og fiskimannasamband Íslands óskar hér með eftir því fyrir hönd áhafnar Ásbjarnar RE-50 að úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna taki til úrskurðar deilu milli áhafnarinnar og útgerðarfélagsins Granda hf. Ágreiningurinn er um verð á botnfiski. Áhöfnin lagði fyrir útgerðarfélagið skriflegt tilboð um nýtt fiskverð þann 7. mars 2001, sem fylgir þessari úrskurðarbeiðni. Þessu tilboði hefur Grandi hf. ekki svarað með neinum skýrum hætti. Með hliðsjón af þessari tillögu gerir áhöfnin jafnframt kröfu til þess að úrskurðarnefndin taki tillit til breytinga á gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum frá 7. mars 2001 til úrskurðardags."

Málið var fyrst tekið fyrir á fundi í úrskurðarnefnd mánudaginn 20. ágúst sl. Þar voru mættir fulltrúar hagsmunaaðila í nefndinni. Ekki náðist samkomulag og var málinu frestað til 22. sama mánaðar. Á þeim fundi þótti fullreynt, að fulltrúum hagsmunaaðila í nefndinni myndi takast að leiða málið til lykta og var því ákveðið að tilkveðja formann nefndarinnar og leggja málið fyrir fullskipaða nefnd til afgreiðslu með úrskurði. Jafnframt var upplýst á fundinum 22. ágúst sl. að Þjóðhagsstofnun skorti upplýsingar um þróun afurðaverðs. Ákveðið var að boða næst til fundar, þegar þær upplýsingar lægju fyrir. VSS fékk þau boð frá Þjóðhagsstofnun að bið gæti orðið á því, að stofnunin gæti veitt umbeðnar upplýsingar, þar sem veruleg seinkun hafi orðið á skilum söluaðila á verðskám. Því var boðað til fundar í fullskipaðri nefnd föstudaginn 24. ágúst sl. til að taka afstöðu til þess, hvernig bregaðst skyldi við þessum óvenjulegu aðstæðum. Á fundinum 24. ágúst sl. var einróma samþykkt að bíða með að leiða málið til lykta, þar til fyrir lægju fullnægjandi upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun um þróun afurðaverðs. Einnig var þar ákveðið að leita eftir því við VSS að hún beiti heimildum sínum skv. 5. gr. laga nr. 13/1998 til að afla upplýsinga um þróun afurðaverðs á fiskafurðum einkum þorski, karfa og ufsa á tímabilinu frá 1. janúar þessa árs og eins langt fram á árið og mögulegt væri, eða til ,,dagsins í dag", eins og segir í bókun fundarins. Einnig var VSS falið að sjá til þess, að upplýsingar um þróun afurðaverðs væru nefndinni ávallt tiltækar.

Fulltrúar sjómanna skiluðu greinargerð til VSS miðvikudaginn 19. september sl., eftir að upplýsingar höfðu borist frá Þjóðhagsstofnun, en fulltrúar LÍÚ afhentu VSS sína greinargerð 21. sama mánaðar og einnig hinn 23. sama mánaðar viðauka og frekari skýringar á fyrri greinargerð, að beiðni forstöðumanns VSS. Eftirleiðis verður vísað til fulltrúa sjómannasamtakanna, sem gæta hagsmuna áhafnar Ásbjarnar RE-50, sem sóknaraðila en til fulltrúa LÍU, sem gæta hagsmuna Granda hf., sem varnaraðila,

Málavextir eru þeir í stórum dráttum, að Grandi hf. gerði fiskverðssamning við áhöfn Ottós N. Þorlákssonar RE-203 hinn 16. febrúar sl. Samningurinn er svohljóðandi:

 
Tegund Stærð kr./kg.
Karfi yfir 700 gr. 45,50
  undir 700 gr. 38,00
Þorskur:    
Verð pr. kg. ef í 100 kg. eru 25 fiskar 89,00


Fyrir fisk sem ekki er með los og er blóðlaus, greiðist 15% gæðaálag.
Flokka skal fiskinn í tvo flokka , undir og yfir 4 kg. og við löndun er tekið úrtak og hlutfall aflans sem nýtur gæðaálags ákvarðað. Verð taki breytingum um 60 aura sem er umfram eða undir 20 stykkjum (á að vera 25 stk.) í 100 kg. Ef mat fer niður fyrir 90% í 1. flokk skal kalla stýrimann skipsins til.

 
Ufsi: yfir 4 kg. 64,00
  undir 4 kg. 52,00

Gildistími 15. febrúar 2001 til 15. febrúar 2002.
Uppsagnarfrestur er tveir mánuðir. Sé samningnum ekki sagt upp innan tiltekins frests framlengist hann um mánuð í senn. Öll gögn sem varða flokkun, vigtun og gæðamat aflans hefur áhöfnin ávallt aðgang að. Gert er ráð fyrir að aðrar fisktegundir fari á markað."

Gagntilboð áhafnar Ásbjarnar RE-50, sem fylgdi málskoti FFSÍ til úrskurðarnefndar er á þessa leið:

,,Karfi undir 700 gr. 45,00 kr. Karfi 700-1000 gr. 55,00 kr. Karfi yfir 1000 gr. 60,00 kr.
Ufsi undir 4,0 kg.57,00 kr. Ufsi yfir 4,0 kg. 72,00 kr.
Þorskur: Sömu reiknireglur og áður. 5,0 kg. 130,00 kr. pr. kg.

Áðurgreind verð á fiski miðast við að fiskurinn sé unninn í frystihúsi Granda Norðurgarði. Annars fari fiskurinn á fiskmarkaði.
Allur annar afli fari á fiskmarkaði.
Reykjavík 7. mars 2001.
Gildistími 7. mars 2001 til 20. desember 2001."

Útgerð Granda hf. hefur ekki svarað þessu gagntilboði og því vísaði sóknaraðili málinu til úrskurðarnefndar að beiðni áhafnar Ásbjörns RE-50.

Kröfur sóknaraðila:
Sóknaraðili gerir kröfu til þess að fiskverð til áhafnar Ásbjarnar RE-50 verði ákveðið sem hér segir:

Karfi undir 700 gr. 50,79 kr/kg. Karfi 700-1000 gr. 62,07 kr/kg. Karfi yfir 1000 gr. 67,72 kr/kg.
Ufsi undir 4 kg. 64,33 kr/kg. Ufsi yfir 4 kg. 81,26 kr/kg.
Þorskur 5 kg. 146,72 kr/kg. Einingaverð þorsks til hækkunar eða lækkunar miðað við fjölda fiska í 100 kg. hækkar hlutfallslega jafnt og 5 kg. fiskur. Aðrar viðmiðunarreglur verði óbreyttar.

Framangreind verð á fiski miðast við, að fiskurinn sé unninn í frystihúsi Granda hf. Allur annar afli verði seldur á uppboðsmörkuðum.

Sóknaraðili kveður kröfur sínar byggðar á gagntilboði áhafnar Ásbjarnar RE-50 að teknu tilliti til breytinga á gengi íslensku krónunnar í samræmi við vöruviðskiptavog útflutnings, eins og Seðlabanki Íslands mælir á tímabilinu frá 7. mars 2001 til 15. ágúst sl. Verð á erlendum gjaldeyri í íslenskum krónum hafi hækkað um 12,86% á viðmiðunartímabilinu, eins og framlagt yfirlit sýni. Því hafi skilaverð hækkað í sama mæli til vöruútflytjenda.

Sóknaraðili gerir þá kröfu, að úrskurðarnefnd hafi til hliðsjónar við ákvörðun sína þá hækkun, sem orðið hefur á skilaverði hlutaðeiganda fisktegunda í íslenskum krónum á undanförnum mánuðum. Hann vísar í þessu sambandi til 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998, sem hljóði svo: ,,Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Varði ákvörðun nefndarinnar fiskverð í skiptum óskyldra aðila skal og tekið tillit til heildarráðstöfunar á afla skips." Um orðalagið ,,Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs", sé það að segja, úrskurðarnefndin hafi í þessu samhengi horft til þróunar á afurðaverði undangenginna mánaða eða missera. Sóknaraðili vísar í þessu sambandi til samantektar Þjóðhagsstofnunar um þróun verðs landfrystra sjávarafurða í SDR og ísl. krónum, sem lagt hafi verið fyrir nefndina.

Sóknaraðili vísar einnig til ákvæðis í kjarasamningi samtaka sjómanna og útvegsmanna, þar sem skýrt komi fram, að útgerðarmaður hafi með höndum sölu aflans og skuli hann tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir aflann. Hæsta gangverð hérlendis sé það verð, sem hafi að jafnaði fengist fyrir afla á uppboðsmörkuðum.

Þessu til viðbótar vísar sóknaraðili til úrskurðarorðs gerðardóms, samkvæmt 2. gr. laga nr. 34/2001 sem snerti markmið um fiskverð. Vekja beri athygli á því, að um þessar mundir fjarlægist þessi markmið með hliðsjón af þróun meðalverðs á slægðum þorski og karfa, sbr. framlagt yfirlit. Þessi staðreynd ætti að hvetja útvegsmenn til þess að stuðla sérstaklega að hækkun á verði þessara tegunda í beinum viðskiptum.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða telur sóknaraðili kröfu sína sanngjarna og byggða á hlutlægum rökum, en áskilur sér allan rétt til frekari málsútlistunar á síðari stigum málsins, gerist þess þörf.

Kröfur varnaraðila:

Kröfur varnaraðila um fiskverð til handa áhöfn Ásbjarnar RE-50 eru í öllum atriðum samhljóða samningi þeim, sem Grandi hf. gerði við áhöfn Ottós N. Þorlákssonar RE-203 í febrúarmánuði sl., (sjá samning Granda hf. við áhöfn Ottós N. Þorlákssonar, sem rakinn er hér að framan á bls. 2).

Varnaraðili byggir á því, að fram komi á framlögðu yfirliti frá Þjóðhagsstofnun um verðvísitölur afurða í íslenskum krónum, að verð á landfrystum karfa hafi staðið í stað frá gildistíma síðasta úrskurðar 23.október 1998. Verðvísitala fyrir karfa hafi í október 1998 verið 99,2 stig, en sé 99,8 stig í ágúst 2001, sem sé 0,6% hækkun. Landfrystur ufsi hafi lækkað á sama tíma úr 99,7 stigum 1998 í 86,7 stig, sem sé 13,0% lækkun. Saltaður ufsi hafi lækkað á sama tíma úr 96,4 stigum í 81,6 stig, sem sé 15,4% lækkun. Afurðaverð landfrysts þorsks hafi að vísu hækkað á sama tíma úr 95,3 stigum í 134,8 stig sem sé um 41,0 % hækkun og saltaður þorskur hækkað úr 92,2 stigum í 129,7 stig sem sé um 40,7 % hækkun.

Karfi:
Krafa útvegsmanna um óbreytt karfaverð byggir á því, að meðalverð í samningi Ottó N. Þorlákssonar RE-203 sé 40,13 kr./kg. frá gildistöku núverandi fiskverðssamnings fyrir 7 mánuðum. Í þessu verði sé ekki reiknað með úthafskarfa, sem Ásbjörn RE sé ekki að fiska. Væri reiknað með úthafskarfanum í þessu verði myndi það nema 41,56 kr. kg. Þá sé rétt að benda á, að úthafskarfi sé meginuppistaða þess karfa, sem seldur er á fiskmarkaði yfir sumarmánuðina. Hann sé almennt stærri og verðmeiri, en sá karfi sem ísfisktogarar Granda hf. afli á heimamiðum. Meðalvigt á karfa, sem ísfisktogarar Granda hf. veiði, sé undir 600 grömmum. Aftur á móti, sé karfi, sem seldur sé á fiskmörkuðum yfir 800 gr. að meðaltali. Taka þurfi tillit til þessa, þegar tekin sé afstaða til þess, hvort Grandi hf. greiði í samræmi við samningsmarkmið úrskurðar gerðardómsins frá 30. júní sl. og kjarasamningsins við V.S.F.Í.

Samkvæmt 12 mánaða yfirliti um meðaltalsverð á karfa (júl. 2000 - jún 2001) sé verðið í beinum viðskiptum 39,50 kr. kg. Verð á fiskmarkaði 63,48 kr. kg. og vegið meðalverð 42,74 kr.kg. Hlutfall verðs í beinum viðskiptum er 92,4% af vegnu meðaltali, eins og sjá megi á vefsíðu Verðlagsstofu. Meðalverðið, sem Grandi hf. greiði sé 40,13 kr.kg. eða 93,89 % af vegnu meðalverði síðustu tólf mánaða, eins og áður segir. Miðað við að þetta hlutfall eigi að vera 95,5% þann 1. júní 2002, telur sóknaraðili, að það verð, sem Grandi hf. bjóði áhöfn Ásbjarnar RE - 50 sé í línu við þau samningsmarkmið, sem kveðið sé á um í úrskurði gerðardóms og kjarasamningi við V.S.F.Í. Sé dregin lína frá raunstöðu þ.e. 92,4% í 95,5% liggi meðalverð Granda hf. (þ.e. 40,13 kr.kg.) í 93,89 % af vegnu meðalverði í beinum viðskipum og markaða. Þar sem stefnt sé að því að ná samningsmarkmiðinu fyrir 1. júní 2002 sé eðlilegt að skipta þessu tímabili niður í áfanga frá upphafspunkti sem er 92,4%. Miðað við stöðuna í dag sé eðlilegt verð 40,15 kr. kg., þar sem verðhlutfallið er 93,95%.

Þorskur:
Sóknaraðili bendir á, að meðalverð á þorski í beinum viðskiptum nemi 97,54 kr/.kg., samkvæmt 12 mánaða yfirliti um (júl. 2000 - jún. 2001). Verð á fiskmarkaði sé 168,26 kr. kg. og vegið meðalverð 113,18 kr. kg. Hlutfall verðs í beinum viðskiptum sé 86,2 % af vegnu meðaltali, eins og sjá megi á vefsíðu Verðlagsstofu. Meðalverðið, sem Grandi hf. greiðir Ásbirni RE - 50 sé 86,7% af vegnu meðalverði síðustu tólf mánaða eða 98,13 kr. kg. Miðað við að þetta hlutfall eigi að vera 92,7% þann 1. júní 2002 og sömu aðferðafræði er beitt og í útreikningi á karfa hér að ofan, verði að telja, að það verð, sem Grandi hf. greiði, rúmist innan samningsmarkmiða miðað við 89,45% hlutfall af vegnu meðalverði sem er 101,24 kr. kg.

Ufsi:
Sóknaraðili byggir á því, að það verð fyrir ufsa, sem áhöfn Ásbjarnar RE - 50 sé greitt, sé langt yfir því verði sem almennt sé greitt fyrir ufsa veiddan í troll í beinum viðskiptum. Verðtilboð útgerðar á ufsa sé háð því, að tilboð um verð fyrir karfa og þorsk verði samþykkt. Verði það ekki gert, þá sé gerð krafa um að verð á ufsa verði úrskurðað það sama og algengast er miðað svæði, stærð og gæði.

Meðalverð fyrir ufsa hjá Ásbirni RE - 50 síðustu tólf mánuði sé 53, 81 kr. kg. Meðalverð í beinum viðskiptum sé 48,99 kr. kg. og meðalverð á mörkuðum er 52,02 kr. kg. og vegið meðalverð 49,68 kr. kg. á sama tíma.

Af öllu framangreindu virtu telur varnaraðili að ljóst megi vera að ekki séu efni til að verða við kröfum áhafnarinnar og að taka beri kröfur Granda hf. að fullu til greina.

Forsendur og niðurstaða:

Í 2. mgr. 11. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs o.fl. nr. 13/1998, sem sóknaraðili vísar til, er úrskurðarnefnd gefin fyrirmæli um það, hvaða aðferðum hún skuli beita við verðákvarðanir sínar. Miða skuli við það fiskverð, sem algengast sé við sambærilega ráðstöfun og taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Byggt skuli á upplýsingum frá VSS.

Lögum nr. 13/1998 var í nokkrum atriðum breytt með lögum nr. 34/2001. Þær breytingar, sem varða starfsvið úrskurðarnefndar er að finna í 7. gr. laganna nr. 34/2001. Greinin er svohljóðandi: ,,Á eftir 1. mgr. 1. gr. laganna (þ.e. laga nr. 13/1998) kemur ný málsgrein sem hljóðar svo: Hafi samtök útvegsmanna og sjómanna gert með sér samkomulag um tiltekin markmið um viðmið varðandi verðlagningu á fiski við uppgjör á aflahlut sjómanna á gildistíma kjarasamnings eða ákvarðanir um slíkt hafa verið teknar með öðrum skuldbindandi hætti skulu Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, sbr. II. kafla, stuðla að því með störfum sínum að þau markmið nái fram að ganga."

Í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands frá 9. maí sl. voru sett fram tiltekin markmið um verðlagningu þriggja fisktegunda, sem vikið verður að síðar.

Í úrskurði gerðardóms frá 30. júní sl. (eftirleiðis gerðardómur), sem skipaður var skv. 2. gr. laganna nr. 34/2001, (sjá bls. 15 og 16 í forsendum gerðardómsins), eru sett fram ákveðin markmið um verðlagningu á fiski, sem stefnt skuli að.

Í úrskurði gerðardómsins er þessum markmiðum svo lýst:

,,Skal vegið meðalverð í beinum viðskiptum á undangengnu 12 mánaða tímabili, sem hlutfall af vegnu meðalverði í beinum viðskiptum og verði á innlendum fiskmörkuðunum að frádregnum 5% sölukostnaði ekki vera lægri en að neðan greinir fyrir eftirtaldar fisktegundir:

 
Þorskur: Slægður Óslægður
Þann 1. júní 2002 92,7% 90,8%
Þann 1. júní 2003 93,5% 91,8%
Þann 1. desember 2003 94,0% 92,4%
Ýsa: Slægð Óslægð
Þann 1. júní 2002 73,9% 82,3%
Þann 1. júní 2003 75,1% 83,4%
Þann 1. desember 2002 75,9% 84%
Karfi: Óslægður  
Þann 1. júní 2002 95,5%  
Þann 1. júní 2003 95,7%  
Þann 31. desember 2003 95,9%."  

Síðan er nánar útlistað í úrskurði gerðardómsins, hvernig haga skuli útreikningi þessara hlutfallstalna. VSS er falið að annast alla nánari útreikninga og framsetningu þeirra og skal skera úr ágreiningi, sem upp kunni að koma um túlkun efnisatriða, eins og segir í úrskurðinum. Í lokaorðum þess kafla í úrskurðinum, sem fjallar um framangreind markmið, segir svo: ,,Landsamband íslenskra útvegsmanna skal með þátttöku sinni í úrskurðarnefnd skv. lögum nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs o.fl. beita sér fyrir því, ef á þarf að halda, að ofangreind markmið náist."

Í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands og LÍÚ eru sett fram sams konar markmið. Þar er gert ráð fyrir sömu hækkun hlutfallstölu til og með 1. júní 2003, en næsta hækkun hlutfallstalna skv. kjarasamningnum er 1. júní 2004 og síðan 1. júní 2005 og loks 31. desember s.á.

Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 34/2001 segir orðrétt svo: ,,Ákvarðanir gerðardómsins skv. 1. mgr. skulu vera bindandi frá gildistöku laga þessara og skal gerðardómurinn hafa lokið störfum fyrir 1. júlí 2001. Hann skal ákveða gildistíma ákvarðana sinna."

Úrskurðarnefnd ber samkvæmt framansögðu að sjá til þess, að þau markmið náist, sem sett eru fram í úrskurði gerðardómsins og í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands, sbr. og 7. gr. síðast nefndra laga.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs o.fl. nr. 13/1998, skal úrskurðarnefnd við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum, sem VSS hefur safnað, auk þess sem VSS skal, samkvæmt ákvörðun gerðardómsins, annast alla nánari útreikninga og framsetningu, svo að þau markmið náist, sem að skal stefnt við verðlagningu þriggja áðurnefndra fisktegunda, samkvæmt ákvörðun gerðardómsins, eins og áður er lýst.

Úrskurðarnefnd leitaði af þessu tilefni til VSS um upplýsingar um meðalverð þorsks og karfa í beinni sölu og einnig upplýsinga um það, hvaða breytingum verð það þyrfti að taka, sem Grandi hf. hefur boðið áhöfn Ásbjarnar RE-50, svo að þau markmið náist, sem gerðardómurinn hefur sett.

Samkvæmt upplýsingum VSS var meðalverð á þorski veiddum í botnvörpu á tímabilinu janúar til júní þessa árs í beinum viðskiptum miðað við landið allt 89,38 kr./kg.

Grunnverð það, sem áhöfn Ásbjarnar RE-50 stendur til boða nemur 89 kr./kg. sbr. kröfugerð sóknaraðila.

Að mati VSS þyrfti grunnverð til áhafnar Ásbjarnar RE-50 á 4 kg. þorski að hækka úr 89 kr./kg. í 102 kr./kg., að viðbættu 15% álagi, miðað við októbermánuð þessa árs, til að uppfylla skilyrði gerðardómsins.

Meðalverð á karfa í beinum viðskiptum nam, samkvæmt upplýsingum VSS, aftur á móti 39,86 kr./kg. á landsvísu á tímabilinu frá janúar til júlí þessa árs.
Meðalverð til áhafnar Ásbjarnar RE-50 nam kr. 40 kr./kg. á tímabilinu júlí-ágúst þessa árs.

Æskilegt viðmiðunarverð karfa í beinni sölu miðað við sett markmið ætti að vera 45 kr./kg. eftir reiknireglu VSS.

Úrskurðarnefnd telur rétt, að samningur áhafnar Ottós N. Þorlákssonar RE-203 við Granda hf. skuli hafður til hliðsjónar að formi til

Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar, að því er varðar verðákvörðun á þorski og karfa til áhafnar Ásbjarnar RE-50, að það skuli vera sem hér segir:

Karfi:  
Yfir 700 gr. kr. 51,2 kr./kg.
undir 700 gr. kr. 42,8 kr./kg.
   
Þorskur:  
Verð pr. kg. ef í 100 kg. eru 25 fiskar kr. 102,00

Fyrir fisk sem ekki er með los og er blóðlaus, greiðist 15% gæðaálag.

Flokka skal fiskinn í tvo flokka , undir og yfir 4 kg. og við löndun er tekið úrtak og hlutfall aflans sem nýtur gæðaálags ákvarðað. Verð taki breytingum um 70 aura sem er umfram eða undir 25 stykkjum í 100 kg. Ef mat fer niður fyrir 90% í 1. flokk skal kalla stýrimann skipsins til.
Varnaraðili hefur gert þá kröfu, að ufsaverð til áhafnar Ásbjarnar RE-50 verði lækkað til samræmis við meðalverð á ufsa í beinni sölu, ef verði ekki fallist á verðtilboð varnaraðila um verð á þorski og karfa.

Fyrir liggur, að niðurstaða úrskurðarnefndar felur í sér breytingar til hækkunar á verði þessara tveggja fisktegunda til áhafnar Ásbjarnar RE-50. Því er krafa varnaraðila orðin virk.

Ekki eru sett markmið um verðlagningu á ufsa í kjarasamningi Vélstjóra við LÍU frá 9. maí sl. eða í gerðardóminum frá 30. júní sl.
Því verður við ákvörðun á ufsaverði til áhafnar Ásbjarnar RE-50 að hafa til hliðsjónar það verð, sem algengast er, eins og segir í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998, og áður er lýst, (sjá skáletrun á bls. 3 neðst).

Upplýsingar VSS um verð á ufsa eru sem hér segir:

Meðalverð á ufsa til áhafnar Ásbjarnar RE-50 nam 54,34 kr./kg á tímabilinu frá janúar til júlí þessa árs. Á sama tímabili nam meðalverð fyrir ufsa í beinni sölu 48,64 kr./kg., en verð á ufsa á fiskmörkuðum nam 49,41 kr./kg. á sama tímabili.

Ljóst er að úrskurðarnefnd ber að leggja til grundvallar það verð sem algengast er, hvort sem það leiðir til hækkunar eða lækkunar fiskverðs.

Báðir hagsmunaaðilar í úrskurðarnefnd eiga þess kost að setja fram kröfur fyrir hönd umbjóðenda sinna, sem taka verður afstöðu til.

Óumdeilt er, að verð það, sem Grandi hf. hefur greitt áhöfn Ásbjarnar RE-50 er mun hærra en algengast er í beinum viðskiptum, sem rétt þykir að hafa hér hliðsjón af.

Það er því ákvörðun úrskurðarnefndar, að Grandi hf. skal miða uppgjör til áhafnar Ásbjarnar RE-50 fyrir ufsa, sem hér segir:

Ufsi yfir 4 kg. 61,00 kr./kg.
Ufsi undir 4 kg. 49,00 kr./kg.

Úrskurður þessi skal gilda til 15. nóvember 2001.

Það athugist í þessu sambandi að gildistími þessa úrskurðar er frá 15. ágúst sl., þegar VSS barst beiðni sóknaraðila um að taka málið til meðferðar í úrskurðarnefnd.

Afgreiðsla þessa máls hefur tafist langt umfram lögákveðin mörk. Gildar ástæður liggja til þess að mati úrskurðarnefndar. Fyrst má nefna að bíða þurfti fram yfir miðjan september sl. eftir upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun, en allir nefndarmenn voru sammála um, að upplýsingar um þróun afurðaverðs þyrftu að liggja fyrir, ekki síst vegna kröfugerðar sóknaraðila. Í öðru lagi má nefna, að úrskurður þessi er sá fyrsti, sem kveðinn er upp eftir lagabreytingar, sem snúa að störfum úrskurðarnefndar og einnig hefur niðurstaða gerðardómsins frá 30. júní sl. haft í för með sér breytingar á störfum nefndarinnar. Taka hefur þurft afstöðu til ýmissa atriða í tengslum við þessar breytingar og hefur vinna á því sambandi valdið seinkun. Sú vinna mun skila sér og verða þess valdandi, að síðari úrskurðir nefndarinnar eiga að geta náðst innan lögmæltra tímamarka.

Úrskurðarorð:

Grandi hf. skal við uppgjör til áhafnar Ásbjarnar RE-50 miða við eftirfarandi fiskverð:

Karfi:  
Yfir 700 gr. kr. 51,2 kr./kg.
undir 700 gr. kr. 42,8 kr./kg.
Þorskur:   
Verð pr. kg. ef í 100 kg. eru 25 fiskar kr. 102,00

Fyrir fisk sem ekki er með los og er blóðlaus, greiðist 15% gæðaálag.

Flokka skal fiskinn í tvo flokka , undir og yfir 4 kg. og við löndun er tekið úrtak og hlutfall aflans sem nýtur gæðaálags ákvarðað. Verð taki breytingum um 70 aura sem er umfram eða undir 25 stykkjum í 100 kg. Ef mat fer niður fyrir 90% í 1. flokk skal kalla stýrimann skipsins til.

Ufsi:
Ufsi yfir 4 kg. 61,00 kr./kg.
Ufsi undir 4 kg. 49,00 kr./kg.

Úrskurður þessi skal gilda frá 15. ágúst til 15. nóvember 2001.

Skúli J. Pálmason
Hólmgeir Jónsson
Benedikt Valsson
Helgi Laxdal
Friðrik J. Arngrímsson
Sveinn Hj. Hjartarson