Fara í efni

Úrskurður nr. 1/2014

Fimmtudaginn 23. október 2014 er kveðinn upp úrskurður í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna skv. lögum nr. 13/1998.

Fyrir er tekið mál nr. Ú1/2014:

Sjómannasamband Íslands
vegna áhafnar Sighvats Bjarnasonar VE 81 (2281), áhafnar Kaps VE 4 og áhafnar Ísleifs VE 63

gegn

Landssambandi íslenskra útvegsmanna
fh. Vinnslustöðvarinnar hf.

Atvik og sjónarmið aðila:

Mál þetta á rætur sínar að rekja til tölvupósts sem fulltrúi Sjómannasambands Íslands (SSÍ) sendi til starfsmanns Verðlagsstofu skiptaverðs þann 18. september 2014 þar sem því var lýst yfir að máli væri vísað til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna vegna ákvörðunar verðs á frystri síld. Í tölvupóstinum voru áhafnir og útgerðir ekki tilgreindar sérstaklega en vísað til númera útgerða í nýlegri samantekt Verðlagsstofu um verð á uppsjávarafla. Nefndin, þ.e. þeir nefndarmenn sem tilnefndir eru af heildarsamtökum sjómanna og útvegsmanna, komu saman á fundi 22. september 2014 vegna málsins og forstöðumaður Verðlagsstofu sendi upplýsingar um stöðu málsins til formanns úrskurðarnefndar með tölvupósti þann 23. september 2014. Eftir fund 22. september 2014 kom upp ágreiningur milli nefndarmanna um efni fundargerðar fundarins og framhald málsins. Formaður nefndarinnar boðaði því til sérstaks fundar þann 29. septmber 2014 í þeim tilgangi að fá frekari upplýsingar um stöðu málsins og til mats á því hvort skilyrðum laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna væri fullnægt þannig að nefndin gæti haldið áfram meðferð málsins.

Á umræddum fundi þann 29. september 2014 lágu fyrir skýringar á því hvaða útgerðir og áhafnir áttu í hlut. Það er, SSÍ skaut málinu til nefndarinnar þar sem það taldi að ekki hefðu náðst samningar um ákvörðun fiskverðs milli útgerðarinnar Loðnuvinnslunnar hf. vegna áhafnar Hoffells SU 80, útgerðarinnar Skinneyjar-Þinganess hf. vegna áhafnar Jónu Eðvalds SF 200 sem og útgerðarinnar Vinnslustöðvarinnar vegna áhafna skipanna Sighvats Bjarnasonar VE 81, Kaps VE 4 og Ísleifs VE 63. Á fundinum lágu fyrir upplýsingar um þá fiskverðssamninga sem Verðlagsstofa skiptaverðs hafði undir höndum varðandi umræddar útgerðir og áhafnir. Um varð að ræða samninga Vinnslustöðvarinnar hf. við áhafnir sínar dagsettir 18. júní 2012, samningar Skinneyjar-Þinganess við áhöfn Jónu Eðvalds SF 200 dags. 8. október 2012 og samningur Loðnuvinnslunnar hf. við áhöfn Hoffells SU 80 dags. 18. júlí 2013.

Á fundinum komu fram upplýsingar um að áhöfn Jónu Eðvalds SF 200 væri ekki á síldarveiðum og lýstu fulltrúar SSÍ því yfir á fundinum mál vegna þeirrar áhafnar væri dregið tilbaka. Ekki verður því frekar fjallað um málið varðandi þá áhöfn í þessum úrskurði og hún eða útgerðin ekki tilgreind í heiti málsins.

Eftir stóðu upplýsingar um skriflegan samning Loðnuvinnslunnar hf. frá 18. júlí 2013 þar sem ekki var kveðið sérstaklega á um verð fyrir frysta síld. Einnig samningar Vinnslustöðvarinnar hf. við áhafnir sínar frá árinu 2012. Fulltrúum beggja hagsmunasamtaka var boðið að leggja fram frekari gögn á fundinum en þau komu ekki fram. Því var ákveðið að formaður nefndarinnar tæki til skoðunar umrædd gögn m.t.t. skilyrða 2.mgr. 9.gr. laga nr. 13/1998 og að ákvörðun formannsins yrði send daginn eftir til nefndarmanna.

Með ákvörðun þann 30. september 2014 kom fram það álit formannsins að fullnægjandi upplýsingar hefðu ekki komið fram fyrr en 29. september 2014 til þess að geta metið hvort skilyrði laga nr. 13/1998 væru uppfyllt varðandi málskot SSÍ. Með hliðsjón af því að fyrirliggjandi samningur Loðnuvinnslunnar hf. við áhöfn Hoffells SU 80 dags. 18. júlí 2013 hafði ekki að geyma upplýsingar um verð á frystri síld var talið að ekki hefðu náðst samningar um verð á henni vegna veiða sem eiga sér stað haustið 2014. Einnig var talið að ekki væri sýnt fram á að samningar hefðu náðst milli Vinnslustöðvarinnar hf. og áhafna skipa þeirra vegna haustins 2014 þar sem fyrirliggjandi samningur væri frá 18. júní 2012 og síðan þá hefði úrskurðarnefndin einu sinni úrskurðað um fiskverð vegna þeirrar útgerðar, eða þann 11. desember 2013 vegna máls nr. Ú1/2013. Þess vegna væri ekki hægt að líta svo á að í gildi væru samingar um þær veiðar sem nú eiga sér stað. Þessi niðurstaða var tilkynnt til nefndarmanna hagsmunaaðila og forstöðumanns Verðlagsstofu með tölvupósti þann 30. september 2014.

Í 13.gr. laga nr. 13/1998 kemur fram að eftir að máli er skotið til úrskurðar skuli þeir nefndarmenn, sem tilnefndir eru af heildarsamtökum sjómanna og útvegsmanna, taka málið til umfjöllunar. Miðað við þau gögn sem lágu fyrir þann 29. september 2014 taldist málinu réttilega skotið til nefndarinnar þann dag eins og áður sagði en málskotið byggist á heimild hagsmunaðila, heildarsamtaka sjómanna eða heildarsamtaka útvegsmanna til að skjóta málum til nefndarinnar ef samningar nást ekki milli áhafna og útgerða um fiskverð, sbr. heimild í 2.mgr. 9.gr. laga nr. 13/1998. Nái umræddir nefndarmenn ekki samkomulagi um ákvörðun fiskverðs innan 14 daga, þar sem um viðskipti skyldra aðila er að ræða, skal málið tekið fyrir í fullskipaðri nefnd. Fjallað var um málið af hálfu umræddra tilnefningaraðila á fundum þeirra 2. og 9. október 2014 án þess að samkomulag næðist. Málinu var því vísað til fullskipaðrar nefndar.

Formaður nefndarinnar óskaði eftir sjónarmiðum frá báðum hagsmunasamtökum í kjölfarið. Greinargerð SSÍ vegna málsins lá fyrir hjá nefndinni þann 10. október 2014 og greinargerð LÍÚ þann 14. október 2014 ásamt viðbótarupplýsingum sem bárust nefndarmönnum 15. og 16. október 2014. Umræddar upplýsingar sem bárust frá LÍÚ á þessum dögum höfðu ekki legið fyrir hjá nefndinni fyrr en þarna. Um var að ræða annars vegar samningar Loðnuvinnslunnar hf. við áhöfn Hoffells SU 80. þar sem kveðið er á um verð fyrir frysta síld og þeir samningar eru dagsettir 7. ágúst 2014, 3. september 2014 og 7. október 2014. Allir samningarnir eru undirritaðir af fulltrúa útgerðar og fulltrúa áhafnar. Eftir að þessar upplýsingar lágu fyrir lýstu fulltrúar SSÍ því yfir að málskot varðandi áhöfn Hoffells SU 80 væri dregið tilbaka. Ekki verður því frekar fjallað um málið varðandi þá áhöfn í þessum úrskurði og hún eða útgerðin ekki tilgreind í heiti málsins.

Hins vegar var um að ræða samninga milli Vinnslustöðvarinnar hf. og áhafnar Sighvats Bjarnasonar VE 81 dags. 17. júní 2014. Í samningnum er atkvæðagreiðslu um samninginn lýst og hann undirritaður af fulltrúa útgerðar og áhafnar. Einnig kom fram sambærilegur samningur vegna áhafnar Kaps VE 4 dags. 15. júní 2013 og samningur sem tekur til þess þegar Kap VE 4 og Ísleifur VE 63 toga saman og sá samningur er dagsettur 15. júní 2014. Allir þessir samningar eiga það sameiginlegt að efnislega kveða þeir á um að verð það sem samið sé um sé birt með verðtöflu sem gefin skuli út í upphafi vertíðar og síðan skuli upplýst vikulega um breytingar á fiskverði samhliða upplýsingagjöf til Verðlagsstofu skiptaverðs. Frekari upplýsingar frá LÍÚ varðandi þann samning sem dagsettur er 15. júní 2013 lúta að því að um misritun sé að ræða og hafi hann verið undirritaður 15. júní 2014. Verðtöflur (dags. 15. október 2014 og 15. október 2014) sem vísað er til í samningnum voru svo sendar til nefndarmanna að morgni 16. október 2014.

Formaður úrskurðarnefndar óskaði eftir afstöðu hagsmunaaðila til þessara nýju upplýsinga með tölvupóstum dags. 15. og 16. október 2014. Fulltrúi LÍÚ kom á framfæri þeim upplýsingum að hann teldi umræddar upplýsingar sýna að samningar séu fyrir hendi og því ætti að vísa málinu frá úrskurðarnefnd. Fulltrúi SSÍ gerði athugasemdir við fyrirliggjandi gögn frá Vinnslustöðinni hf. og taldi að þau væru ekki til þess fallin að fela í sér óyggjandi samning um fiskverð þar sem vísun til einhliða ákvörðunar útgerðar um verð á afurðum fæli ekki í sér að samið væri um verð heldur væri útgerðin að ákveða það einhliða. Einnig voru gerðar athugasemdir um að þessir samningar hafi ekki legið fyrir frá byrjun og þar sem þeir komi seint fram þá séu þeir ekki gildir. Í þessum athugasemdum koma ekki með beinum hætti fram upplýsingar um afstöðu áhafnar skipa Vinnslustöðvarinnar hf. til málsins.

NIÐURSTAÐA

Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1998 kemur fram að heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna geta í samræmi við kjarasamninga skotið til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna ákvörðun um fiskverð sem nota skal við uppgjör á aflahlut þegar afli skips er afhentur eða seldur aðila sem telst skyldur útgerðinni. Skilyrði málskots á grundvelli þessarar greinar er að það takist ekki samningar milli útgerðar og áhafnar um slíkt fiskverð. Við mat á því hvort samningar hafi tekist verður að líta til þeirra gagna sem fyrir liggja m.t.t. þeirra skyldna sem eru í lögum og kjarasamningum. Auk þess getur þurft að líta til þess hvernig samningar hafa verið gerðir og afstöðu samningsaðila til samningsgerðarinnar. Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í málinu, varðandi ágreining um hvort skilyrði 2.mgr. 9.gr. laga nr. 13/1998 eru uppfyllt, verður ekki talið að tímafrestir 13. gr. laganna eigi við nema ljóst sé að umrædd skilyrði séu uppfyllt.

Í málinu liggja fyrir þrír undirritaðir samningar. Í fyrsta lagi samningur útgerðarinnar Vinnslustöðvarinnar hf. við áhöfn Kaps VE 4 dags. 15. júní 2013 og annar samningur sem tekur einnig til þess skips sem og Ísleifs VE 63 dags. 15. júní 2014. Af efni þessara samninga má ætla að þeir séu báðir frá umræddri dagsetningu árið 2014 og hafi því árið 2013 misritast á einn þeirra. Einnig liggur fyrir samningur við áhöfn Sighvats Bjarnasonar VE 81 dags. 17. júní 2014. Af efni saminga verður ráðið að þeir eigi að gilda um ákvörðun verðs fyrir makríl og síld haustið 2014. Það sem er sérstakt við umrædda samninga er að ekki er kveðið á um verð í þeim heldur vísað til þess að birtar verði verðtöflur reglulega til fyllingar samningnum. Verðtöflur dags. 15. september 2014 og 15. október 2014 liggja einnig fyrir til fyllingar samningnum.

Þegar metið er hvort samningur um fiskverð sé í gildi milli útgerðar og áhafnar sé í gildi verður litið til ákvæða kjarasamnings til leiðbeiningar. Í gr. 1.28.1. í kjarasamningi Landssambands íslenskra útvegsmanna og Sjómannasambands Íslands sem gilda frá 1. janúar 2009 kemur fram að útgerðarmaður og áhöfn skuli gera sín í milli „samning um fiskverð þegar útgerð selur afla til eigin vinnslu, þ.e.a.s. í viðskiptum milli skyldra aðila.“ Fyrirmæli sömu greinar kjarasamningsins eru að slíkur samingur skuli staðfestur í leynilegri atkvæðagreiðslu áhafnar og að því loknu undirritaður af fulltrúum áhafnar og útgerðar. Þessu til viðbótar kemur fram í sama kjarasamningsákvæði að samningurinn skuli vera „í stöðluðu formi, þar sem fram komi m.a. verð einstakra fisktegunda, gildistími uppsagnarákvæði o.s.frv.“

Í þessu máli telst sýnt að samningar Vinnslustöðvarinnar hf. við áhafnir ofangreindra skipa hafi verið undirritaðir í júní 2014. Þeir bera efnislega með sér að atkvæðagreiðsla hafi átt sér stað og þeir eru undirritaðir af fulltrúa áhafnar. Ekki hefur verið sýnt fram á að umræddur fulltrúi áhafnarinnar hafi ekki haft umboð til til að skrifa undir samningana. Þó ákvæði um verð megi vera skýrara í þessum samningum þá verður ekki séð að hægt sé að líta framhjá orðalagi samningsins sjálfs um að verð taki mið af verðtöflum. Hvað stöðu áhafnar varðar við þessar aðstæður þá virðist sem samningar hafi verið gerðir með þessum hætti áður við sömu áhafnir án skjalfestra athugasemda. Ekki liggur fyrir með skýrum hætti að áhafnarmeðlimir séu ósáttir við samninginn eða að þeir hafi sagt honum upp, en ekki verður séð að nokkuð komi í veg fyrir slíka uppsögn vilji áhöfnin ekki vera bundin af samningnum. Engar staðfestar upplýsingar liggja því fyrir um uppsögn eða afstöðu áhafnar til samningsins og efni hans. Á meðan þannig stendur á verður ekki ráðið að staðan milli útgerðar og áhafnar sé þannig að samningar hafi ekki tekist milli útgerðar og áhafnar í skilningi 2.mgr. 9.gr. laga nr. 13/1998. Verður því að leggja til grundvallar að samningar þeir sem gerðir voru í júní 2014 séu í gildi og taki verð á frystri síld mið af þeim verðtöflum sem sendar hafi verið dags. 15. september og 15. október 2014.

Leiðir þetta óumflýjanlega til þess að málinu er vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem skilyrði 2.mgr. 9.gr. laga nr. 13/1998 eru ekki uppfyllt.

Til áréttingar verður þó að benda á að starfsemi úrskurðarnefndar þessarar, sem byggir á lögum nr. 13/1998, byggir á því að hún hafi aðgang að réttum gögnum hverju sinni. Í 11.gr. laganna kemur fram að úrskurðarnefnd skuli við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa hefur safnað. Í 4.gr. sömu laga kemur fram að útgerð skips sé skylt að senda Verðlagsstofu án tafar alla samninga um fiskverð sem gerðir eru milli útgerðar og áhafnar. Í þessu máli kom fram með skýrum hætti að útgerðin sem hér á í hlut sem og einhverjar aðrar útgerðir vanrækja gróflega skyldu sína skv. áðurnefndri 4.gr. laganna. Það er ólíðandi ástand og truflar verulega störf úrskurðarnefndarinnar að hafa ekki aðgang að gildandi samningum hverju sinni í gegnum Verðlagsstofu þannig að hægt sé að taka rétta afstöðu strax til formhliða mála sem koma upp. Í þessu máli var fundur með nefndarmönnum hagsmunasamtaka þann 22. september 2014 og þá var í síðasta lagi ljóst að það væri í uppsiglingu ágreiningur sem gæti átt undir úrskurðarnefndina að sýndum skilyrðum 2.mgr. 9.gr. laga nr. 13/1998. Þó það hafi ekki verið endanlega ljóst fyrr en viku seinna nákvæmlega hvaða útgerðir áttu í hlut og hvaða áhafnir var látið óátalið af báðum hagsmunasamtökum, á þeim fundi sem þá var haldinn, að tekið væri mið af samningum, sem Verðlagsstofa hafði sent út fimm dögum fyrr sem gildandi samninga. Það að fulltrúar hagsmunasamtaka fái ekki upplýsingar um gildandi samninga strax, sérstaklega þegar ágreiningur er kominn upp á borð, er ósættanlegt. Það var svo ekki fyrr en 14. október sl. sem úrskurðarnefnd fékk í hendur upplýsingar um að þeir samningar sem lágu fyrir 29. september væru ekki gildandi samningar. Þann dag og næstu tvo daga fékk úrskurðarnefndin loks gögn í hendur um gildandi samninga sem þá voru sendir af hagsmunasamtökum útvegsmanna. Það má færa rök fyrir því að það standi þeim hagsmunasamtökum nær að bera á borð slíka samninga strax ef ágreiningur er um hvort samningar séu yfirhöfuð í gildi.

Hvaða ástæður sem voru fyrir því að umrædd rétt gögn bárust nefndinni ekki fyrr en þarna verður að árétta og ítreka mikilvægi þess fyrir störf nefndarinnar sem og störf Verðlagsstofu skiptaverðs að útgerðir standi við ákvæði kjarasamninga um gerð samninga um fiskverð, þeir samningar séu skýrir um gildandi verð og beri með sér að þeir hafi verið bornir undir atkvæði áhafnar. Einnig ber að árétta mikilvægi þess að útgerðir sinni lagaskyldu 4.gr. laga nr. 13/1998 og sendi gildandi samninga án tafar til Verðlagsstofu skiptaverðs.

Úrskurðarorð

Málinu er vísað frá úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Þóra Hallgrímsdóttir
Sveinn Hjörtur Hjartarson
Friðrik Friðriksson