Fara í efni

Úrskurður nr. 2/2003

Ár 2003, fimmtudaginn 3. apríl, er haldinn fundur í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna í húsakynnum Landsambands ísl. útvegsmanna.

Mættir eru: Árni Bjarnason frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands Friðrik J. Arngrímsson, Sveinn H. Hjartarson, og Stefán Friðriksson frá Landsambandi ísl. útvegsmanna, Helgi Laxdal, frá Vélstjórafélagi Íslands, Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands auk oddamanns Valtýs Sigurðssonar, sem varaformanns nefndarinnar.

Fyrir er tekið mál nr. U-2/2003

Sjómannasamband Íslands
f.h. áhafna Sævíkur GK- 257,
Fjölnis ÍS-7, Freys GK-157, Garðeyjar SF-22,
Hrungis GK-50, Páls Jónssonar GK-7 og Sighvats GK-57.

gegn

Vísi hf. Grindavík

Í málinu var kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

I.

Málsmeðferð nefndarinnar
Með símbréfi, dagsettu 17. mars 2003, vísaði Sjómannasamband Íslands máli þessu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna þar sem ekki hafði náðst samkomulag um fiskverð milli áhafna umræddra skipa og útgerðar þeirra. Erindið var tekið fyrir á fundi úrskurðarnefndar ásamt formanni og þá ákveðin málsmeðferð en ekki náðist samkomulag í málinu.

Sóknaraðili skilaði greinargerð dagsettri 25. mars sl. og greinargerð varnaraðila er dagsett 28. mars. sl. Sóknaraðila var gefinn kostur á að koma að athugasemdum við greinargerð varnaraðila.

Á fundi nefndarinnar voru gögn málsins lögð fram. Þá tjáðu aðilar sig um fram komnar kröfur og færðu fram rök fyrir þeim. Málið var að því búnu lagt í úrskurð.

II.

Kröfur sóknaraðila og sjónarmið
Sóknaraðili bendir á að málið sé í beinu framhaldi af máli nr. U1/2003, milli sömu aðila en gildistími úrskurðarins var til 15. mars 2003. Sóknaraðili telur að úrskurðarnefndin hafi með úrskurði sínum í því máli sniðgengið fjölmargar vinnureglur sem hún hafði sett sér í gegnum tíðina og lækkað verð til skipverja að tilefnislausu. Þannig hafi ráðstöfun á aflanum verið breytt án þess að samkomulag hafi legið fyrir um það milli áhafna og útgerðar. Einnig hafi verið farið út fyrir kröfur málsaðilanna t.d. með því að verðleggja karfa. Vegna óánægju skipverja með niðurstöðu úrskurðarins ákváðu áhafnir skipa Vísis hf að vísa málinu aftur til úrskurðarnefndar þann 17. mars síðastliðinn eftir að ljóst varð að útgerðin væri ekki tilbúin til að lagfæra úrskurðinn með samningi við áhöfn. Fulltrúar sjómanna í nefndinni sendu athugasemdir í kjölfar úrskurðarins til nefndarmanna þann 3. mars 2003 og er jafnframt vísað til þeirra athugasemda sem fylgiskjals með greinargerð þessari.

Sóknaraðili gerir eftirfarandi kröfu um fiskverð er gildi við uppgjör til áhafna skipanna:

Þorskur:

1,0 - 1,8 kg

108 kr/kg

1,8 - 2,6 kg

118 kr/kg

2,6 - 3,8 kg

135 kr/kg

3,8 - 6,0 kg

153 kr/kg

6,0 - 8,5 kg

175 kr/kg

8,5 kg og yfir

184 kr/kg

Annar afli, þ.m.t. undirmálsþorskur og hrogn skal seldur á fiskmarkaði eða vera 100% markaðstengdur kjósi útgerðin að vinna aflann í eigin fiskvinnsluhúsum.

Sóknaraðili rökstyður kröfuna m.a. með því að í kjarasamningum milli samtaka sjómanna annars vegar og LÍÚ hins vegar segir: „Útgerðarmaður hefur með höndum sölu aflans og hefur til þess umboð áhafnar að því er aflahlut hennar varðar. Hann skal tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn, þó aldrei lægra en útgerðarmaður fær, þar með talin hrogn, lifur og bein.....“ Ótvírætt sé af þessu orðalagi að markaðstengt verð á fiski er í fullu samræmi við þetta ákvæði kjarasamninganna. Fái sú túlkun ekki staðist, sem fram komi í úrskurði U1/2003, þann 25. febrúar sl, að framangreint ákvæði merki að útgerð geti einhliða ákveðið að kaupa afla eigin skipa á föstu verði sem úrskurðarnefnd ákveður og lækkað þannig fiskverð til áhafnar verulega. Þvert á móti hefði ákvæðið um hæsta gangverð átt að koma í veg fyrir að markaðstengingin væri tekin af með tilheyrandi fiskverðslækkun.

Samkvæmt úrskurði gerðardóms skv. lögum nr. 34/2001 um kjaramál sjómanna, segir að á gildistíma úrskurðarins skuli verð á þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum nálgast vegið meðaltal markaðar og beinnar sölu þannig að hlutfall verðs í beinni sölu af vegnu meðalverði markaða og beinnar sölu verði ekki lægra en eftirfarandi hlutföll:

Þorskur, slægður

92,7% þann 1. júní 2002

 

93,5% þann 1. júní 2003

 

94,0% þann 1. desember 2003

Ýsa, slægð

73,9% þann 1. júní 2002

 

75,1% þann 1. júní 2003

 

75,9% þann 1. desember 2003

Karfi, óslægður

95,5% þann 1. júní 2002

 

95,7% þann 1. júní 2003

 

95,9% þann 1. desember 2003

Í úrskurði gerðardómsins segir jafnframt: „Landssamband ísl. útvegsmanna skal með þátttöku sinni í úrskurðarnefnd skv. lögum nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs o.fl. beita sér fyrir því, ef á þarf að halda, að ofangreind markmið náist.

Sóknaraðili bendir á að framangreind markmið fyrir þorsk, ýsu og karfa hafi ekki náðst þann 1. júní 2002 þrátt fyrir skýr fyrirmæli gerðardómsins. Fyrir karfa og ýsu hafi markmiðin náðst 1. desember 2002, en fyrir þorsk þann 1. febrúar 2003. Sóknaraðili rökstyður sjónarmið sín um hverja fisktegund fyrir sig sem úrskurðarnefndin verðlagði í úrskurði U1/2003.

  1. a) Þorskur, slægður.
    Markmiðið fyrir þorsk, skv. gerðardómi sbr. lög nr. 34/2001, hafi ekki náðst fyrr en 1. febrúar síðastliðinn, eða 8 mánuðum síðar en gerðardómurinn mælti fyrir um. Sóknaraðili sé því ekki tilbúninn að samþykkja lækkun á verði þorsks fyrr en það tap sem þeir hafa orðið fyrir vegna vanefnda á markmiðum gerðardómsins hefur unnist upp. Það er því krafa sóknaraðila að verð á þorski verði það sama og það var fyrir úrskurðinn þann 25. febrúar síðastliðinn.
  2. b) Undirmálsþorskur, slægður.
    Fyrir úrskurð í máli U1/2003 þann 25. febrúar síðastliðinn hafi fiskverðssamningurinn milli Vísis hf og áhafna skipa útgerðarinnar verið þannig að undirmálsþorskur hafi annað hvort verið seldur á fiskmarkaði eða 100% markaðstengdur ef útgerð ákvað að kaupa aflann sjálf. Styrking krónunnar eða lækkun afurðaverðs af öðrum orsökum réttlæti ekki að úrskurðarnefnd grípi inn í og breyti ráðstöfun aflans án samkomulags við báða aðila. Fram til 25. febrúar síðastliðinn hafi sú vinnuregla verið viðhöfð í nefndinni að ekki hafi verið úrskurðað um breytta ráðstöfun nema báðir aðilar væru sammála um að gera slíkt. Auk þess sé rétt að benda á að verð á fiskmörkuðum breytist í takt við afurðaverðsbreytingar og því ekki ástæða til að grípa inn í markaðstenginguna þó afurðaverð breytist. Sjómenn geri því kröfu um að undirmálsþorskur verði annað hvort seldur á fiskmarkaði eða taki 100% tengingu við fiskmarkaðsverð kjósi útgerðin að kaupa aflann sjálf.
  3. c) Ýsa, slægð.
    Fyrir úrskurð úrskurðarnefndar þann 25. febrúar sl. hafi ýsa annað hvort verið seld á fiskmarkaði eða 100% markaðstengd ef útgerð ákvað að kaupa aflann sjálf. Með sömu rökum og í lið a) sé krafa sóknaraðila sú að ýsa verði annað hvort seld á fiskmarkaði eða taki 100% tengingu við fiskmarkaðsverð kjósi útgerðin að kaupa aflann sjálf.
  4. d) Karfi
    Fyrir úrskurð úrskurðarnefndar þann 25. febrúar síðastliðinn hafi karfi samkvæmt fiskverðssamningi aðila annað hvort verið seld á fiskmarkaði eða 100% markaðstengdur ef útgerð keypti aflann sjálf. Engin krafa hafi komið fram um það frá útgerð að breyta þessu fyrirkomulagi varðandi verðlagningu á karfa. Því sé forkastanlegt að úrskurðarnefnd hafi ákveðið óumbeðið að setja fast verð á karfa í úrskurði sínum þann 25. febrúar síðastliðinn. Sjómenn gera því þá kröfu að úrskurðurinn frá 25. febrúar síðastliðnum um verðlagningu á karfa verði felldur úr gildi.
  5. e) Keila, slægð.
    Fyrir úrskurð úrskurðarnefndar þann 25. febrúar síðastliðinn var fiskverðssamningurinn milli Vísis hf og áhafna skipa útgerðarinnar þannig að keila var annað hvort seld á fiskmarkaði eða tók 100% markaðstengingu ef útgerð ákvað að kaupa aflann sjálf. Sóknaraðili gerir því þá kröfu að verð á keilu verði ákvarðað með sama hætti og gilti fyrir úrskurðinn þann 25. febrúar síðastliðinn, þ.e. keilan verði seld á fiskmarkaði eða taki 100% markaðstengingu með sömu rökum og samkvæmt fyrri liðum.
  6. f) Langa, slægð.
    Fyrir úrskurð Úrskurðarnefndar þann 25. febrúar sl. hafi langa skv. fiskverðssamningi aðila annað hvort verið seld á fiskmarkaði eða tekið 100% markaðstengingu ef útgerð ákvað að kaupa aflann sjálf. Sjómenn gera því þá kröfu að langan verði seld á fiskmarkaði eða taki 100% markaðstengingu með sömu rökum og áður hefur komið fram.
  7. g) Steinbítur, slægður.
    Fyrir úrskurð úrskurðarnefndar þann 25. febrúar sl. hafi steinbítur skv. fiskverkssamningi aðila annað hvort verið seldur á fiskmarkaði eða tekið 100% markaðstengingu ef útgerð hafi ákveðið að kaupa aflann sjálf. Verð á þessari fisktegund hafi því sjálfkrafa tekið þeim afurðaverðsbreytingum sem urðu á afurðum unnum úr steinbít og því engin rök fyrir því að grípa inn í verðlagninguna með þeim hætti sem gert var í úrskurðinum. Auk þess er bent á að útgerðin hafi aldrei gert kröfu um það í viðræðum við áhafnir skipanna að verð á steinbít yrði mismunandi eftir veiðisvæði. Með því að ákveða mismunandi verð á steinbít eftir veiðisvæði hafi nefndin brotið þær vinnureglur sem viðhafðar voru fram að úrskurðinum þann 25. febrúar sl . Auk þess var sú vinnuregla viðhöfð í nefndinni fram til 25. febrúar sl. að ekki var úrskurðað um breytta ráðstöfun nema báðir aðilar væru sammála um að gera slíkt.

Það sé því krafa sjómanna að verðlagning á steinbít verði færð til fyrra horfs þannig að hann verði annað hvort seldur á fiskmarkaði eða taki mið af markaðsverði kjósi útgerðin að kaupa aflann sjálf.

Eins og sjá megi á línuriti um þróun verðs á þorski í beinni sölu sem hlutfalli af meðalverði beinnar sölu og fiskmarkaðar hafi markmið gerðardóms skv. lögum nr. 34/2001 ekki náðst fyrr en 1. febrúar sl. Sóknaraðili líti það alvarlegum augum að ákvæði gerðardómsins skuli vanefnd með þessum hætti og enn alvarlegra er að úrskurðarnefnd skuli ákveða lækkun á þorskverði um leið og eða áður en markmið gerðardóms náðist.

Kröfur varnaraðila og sjónarmið.
Af hálfu varnaraðila, er hafnað fram komnum kröfum sóknaraðila. Er á því byggt að forsendur frá því að úrskurðað var í máli milli sömu aðila þann 25. febrúar s.l. hafi í engu færst til betri vegar. Þvert á móti hafi verð á ýsu á fiskmörkuðum lækkað um 35% að meðaltali frá því í janúar sbr. yfirlit af vefsíðu Íslandsmarkaðar. Þessi mikla lækkun á fiskmörkuðum hafi leitt til um 24% lækkunar á vegnu meðalverði ýsu í beinum viðskiptum og fiskmörkuðum.

Verð á keiluflökum hefur lækkað um 10% og lönguflökum um 7% frá því síðasta úrskurði milli aðila þann 25. febrúar sbr. meðfylgjandi skeyti frá SíF hf. Með hliðsjón af þessu sé gerð krafa um að verð á ýsu verði lækkað í samræmi við þessar nýju upplýsingar um 24% og verð á keilu lækki um 10% og verð á löngu um 7%. Að öðru leyti vísast til fyrri greinargerðar og fylgiskjala en greinargerðin sé óbreytt að öðru leyti en því að verð á ýsu hafi verið lækkað um 24 % til viðbótar því sem áður var krafist og verð á keilu er lækkað um 10% og löngu um 7% til viðbótar fyrri greinargerð.

Hvað varðar málsástæðu sjómanna um ráðstöfun afla er vísað til niðurstöðu meirihluta úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna í máli UI/03.

Krafa varnaraðila er að verð á fiski sem veiddur verður af ofangreindum skipum og ráðstafað til vinnslu í fiskverkun Vísis hf. eða skyldra aðila verði eftirfarandi:

1.1. Slægður þorskur.

Kr.kg.

Undirmál

81

1 - 1,8kg

95

1,8 - 2,6 kg

108

2.6 - 3,8kg

122

3,8 - 6 kg

138

6 - 8,5 kg

158

8,5 - upp

170

1.2. Ólægður þorskur.

Kr.kg.

Undirmál

68

1 - 1,8kg

80

1,8 - 2,6 kg

91

2.6 - 3,8kg

103

3,8 - 6 kg

116

6 - 8,5 kg.

133

8,5 - upp

143

1.3. Slægð ýsa.

Kr.kg.

Undirmál

44

1-1,2 kg

64

1,2-1,4 kg.

72

1,4-1,6 kg.

81

1,6-2,0 kg.

86

2,0 kg +

92

1.4. Karfi

Kr.kg.

Undir 350 gr.

35

350 - 500 gr.

38

500 - 700 gr.

48

700 - 1000 gr.

56

1000 gr. og yfir

60

1.5. Slægð keila

Kr.kg.

Undir 1 kg.

49

1 - 1,3 kg

57

1,3 og yfir

65

1.6. Slægð langa

Kr.kg.

Undir 2 kg.

67

2 - 5 kg

92

5 kg. og yfir

100

1.7. Slægður steinbítur.
Slægður steinbítur veiddur norðan línu sem dregin er suðvestur úr Malarrifi og sunnan línu sem dregin er norður úr Horni.

 

Kr/kg

Allar stærðir

74


Slægður steinbítur veiddur á öðrum svæðum en skv. 1.7.1.

 

Kr/kg

Allar stærðir

95

Annar afli en skv. tl. 1.1. - 1.7 verði seldur á fiskmarkaði eða að um hann gildi full markaðstenging, þ.m.t. þorskhrogn. Ráðstöfun lifrar skal vera óbreytt. Eftir blóðgun, aðgerð og þvott skal öllum fiski raðað í kör með kviðinn niður. Gildistími skuli vera frá 17.3.2003 til 17.6.2003

Rökstuðningur varðandi þorsk, ýsu og karfa
Samkvæmt úrskurði gerðardóms samkvæmt lögum nr. 34/2001 skuli á gildistíma hans miða við það markmið að meðalverð á slægðum og óslægðum þorski, slægðri og óslægðri ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila nálgist vegið meðaltal fiskverðs á innlendum fiskmörkuðum og verðs á fiski sem er ráðstafað í beinum viðskiptum, þannig að hlutfall verðs í beinum viðskiptum af vegnu meðalverði í beinum viðskiptum og vegnu meðalverði á fiskmörkuðum verði ekki lægra á viðmiðunartímanum en þau hlutföll sem skilgreind eru í gerðardóminum. Verðlagsstofa skiptaverðs skuli setja fram lýsingu á sambandi milli þyngdar á fiski og verðs á hvert kíló og skuli það haft til hliðsjónar til að ná þeim samningsmarkmiðum sem lýst er í gerðardómnum. Um sömu markmið sé að ræða og í kjarasamningi LÍÚ og VSFÍ.

Verðlagsstofa hafi útfært fiskverð í beinum viðskiptum í samræmi við ákvæði gerðardómsins og hafi það verið lagt til grundvallar í samningum milli útgerða og áhafna íslenskra fiskiskipa. Nú liggi fyrir að verð á slægðum og óslægðum þorski, slægðri ýsu og karfa sé hærra en forsendur séu fyrir samkvæmt þeim markmiðum sem skilgreind séu í úrskurði gerðardómsins og samningi LÍÚ og VSFÍ eins og glögglega komi fram í gögnum Verðlagsstofu skiptaverðs. Krafa fulltrúa útvegsmanna sé að verð á slægðum og óslægðum þorski lækki um 11%, verð á slægðri ýsu lækki um 24% og verð á karfa lækki um 11%.

Rökstuðningur varðandi keilu, löngu og steinbít.
Um aðrar tegundir en þorsk, ýsu og karfa fari samkvæmt 11. grein laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Úrskurðarnefnd skuli við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skuli í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skuli nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs.

Vísir hf. sé að því leyti sérstakt sjávarútvegsfyrirtæki að það hefur starfsemi í öllum landshlutum og skip félagsins og skyldra aðila veiði allt í kringum landið og landi afla víða. Þá stundi félagið miðlun á afla milli fiskvinnslna sem það reki eða taki þátt í að reka. Þar sem verð á keilu og löngu sé nokkuð sambærilegt milli landshluta sé, eins og hér stendur sérstaklega á, ekki gerð krafa um að mismunandi verð gildi eftir svæðum. Varðandi kröfur um verðlagningu á steinbít gildir öðru máli en ástand og stærð steinbíts sé afar mismunandi eftir svæðum. Því sé gerð krafa um að steinbítur verði verðlagður í tvennu lagi eins og lýst er í tl. 1.7.1. og 1.7.2.

Um verðlagningu á öllum framangreindum fisktegundum eigi það við að veruleg styrking krónunnar hafi leitt til lækkunar á afurðaverði sbr. upplýsingar um vísitölur sjávarafurða frá Hagstofu Íslands. Þannig hafi afurðaverðsvísitala þorsks í íslenskum krónum lækkað á bilinu um 11% til 12,7% frá janúar 2002 til desember 2002 . Afurðaverðsvísitala ýsu hafi á sama tíma lækkað um 17,5 % og afurðaverðsvísitala karfa um 11%. Afurðaverð á keilu, löngu og steinbít hafi einnig lækkað. Verð á steinbít í beinum viðskiptum á Vestfjörðum og Vesturlandi hafi á síðasta ári verið 81,91 kr/kg en allur aflinn að undanskildum tveimur tonnum kom á land í janúar – apríl. Frá þeim tíma hafi gengi íslensku krónunnar styrkst um rúm 11% og því er gerð krafa um 11% lækkun á steinbítsverði. Þó steinbítur sé að hluta veiddur á öðrum tíma á öðrum svæðum fari yfirgnæfandi hluti veiðanna fram á fyrri hluta ársins. Meðalverð á steinbít á öðrum svæðum en Vestfjörðum og Vesturlandi á síðasta ári í beinum viðskiptum hafi verið 105,26 kr/kg. Verð á löngu í beinum viðskiptum hafi á síðasta ári verið 123,25 kr./kg. og verð á keilu 81,63 kr/kg. Auk þess hafi orðið verðlækkun á saltfiski en Vísir hf. vinnur stærstan hluta þorskafla skipa félagsins í salt.

III.

Forsendur og niðurstaða.

A

Sóknaraðili byggir kröfugerð sína m.a. á því, að ákvæði í kjarasamningi milli samtaka sjómanna annars vegar og LÍÚ hins vegar hafi átt að koma í veg fyrir að markaðstenging í fiskverkssamningi aðila væri afnumin. Gerir sóknaraðili því kröfu til að annar afli en slægður þorskur, þ.m.t. undirmálsþorskur og hrogn skuli seldur á fiskmarkaði eða vera 100% markaðstengdur kjósi útgerðin að vinna aflann í eigin fiskvinnsluhúsum.

Í 8 gr. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna segir: „Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna hefur það hlutverk að ákveða fiskverð sem nota skal við uppgjör á aflahlut áhafnar einstakra skipa svo sem nánar er kveðið á um í þessum kafla.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laganna skal úrskurðarnefnd ákvarða fiskverð til uppgjörs á aflahlut sjómanna í þeim tilvikum sem til hennar er skotið skv. 9. grein.

Í athugasemdum við lagafrumvarp það sem varð að lögum 13/1998 segir, að úrskurðarnefnd hafi verið komið á fót til að fjalla um þau tilvik þegar ekki næst samkomulag um fiskverð milli áhafnar og útgerðar. Þá kemur fram að ekki þótti fært að leiða í lög almenn ákvæði um opinbera ákvörðun fiskverðs heldur sé verið að treysta grundvöll áhafnabundinna fiskverðssamninga þannig að komist verði hjá því að sjómenn þurfi að þola óeðlileg frávik frá því fiskverði sem venjulegt er vegna þess að fiskvinnsla er í eigu sömu aðila og útgerð eða af öðrum ástæðum.

B

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira, var sérstökum gerðardómi falið að ákveða kjaramál fiskimanna í þeim samtökum sem nefnd voru í 1. gr. laganna. Meðal atriða er gerðardómurinn skyldi ákveða var a: "atriði er tengjast markmiðum varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum á þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila."

Með lögunum var jafnframt aukið við 1. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna sem varð 2. mgr. 1. gr. og er svohljóðandi: ,,Hafi samtök útvegsmanna og sjómanna gert með sér samkomulag um tiltekin markmið um viðmið varðandi verðlagningu á fiski við uppgjör á aflahlut sjómanna á gildistíma kjarasamnings eða ákvarðanir um slíkt hafa verið teknar með öðrum skuldbindandi hætti skulu Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, sbr. II. kafla, stuðla að því með störfum sínum að þau markmið nái fram að ganga." Sóknaraðili vísar í þessi sjónarmið til stuðnings kröfum sínum í málinu.

Í niðurstöðu gerðardómsins frá 30. júní 2001 voru sett fram ákveðin markmið um verðlagningu á þorski, ýsu og karfa, slægðum og óslægðum í samræmi við umsamin markmið í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands og LÍÚ frá 9. maí 2001. Þar er markmiðum nánar lýst og útlistað hvernig haga skuli útreikningi svo að þeim verði náð. Í gerðardómnum er mælt svo fyrir að markmiðum skuli náð fyrir 1. júní 2002. Er Verðlagsstofu skiptaverðs falið að annast alla nánari útreikninga og framsetningu og skera úr hugsanlegum ágreiningi sem upp kunni að koma um túlkun á efnisatriðum. Þá er kveðið á um að Landssamband íslenskra útvegsmanna skuli með þátttöku sinni í úrskurðarnefnd, skv. lögum nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs o. fl. beita sér fyrir því, ef á þurfi að halda, að markmiðin náist.

Með setningu 2. mgr. 1. laga nr. 13/1998 var 11. gr. sömu laga ekki felld út gildi en þar er kveðið á um hin almennu atriði sem úrskurðarnefnd ber að leggja til grundvallar við ákvörðun sína um fiskverð. Með setningu hinnar nýju málsgreinar hefur löggjafinn því bætt við atriði sem hafa ber til hliðsjónar við verðákvörðun nefndarinnar. Þannig verður nefndin, jafnframt því að stuðla að því með störfum sínum að markmið gerðardómsins nái fram að ganga að líta til hinna almennu atriða 11. gr. að því marki sem það á við. Úrskurðarnefnd hefur ítrekað í úrskurðum sínum túlkað ákvæði 11. gr. þannig að ekki verður nánar um hana fjallað hér.

Hins vegar ber sérstaklega til þess að líta að með lögum 34/2001 var gerðardómi falið að ákveða kjaramál sjómanna með þeim hætti að ákveða markmið varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum ákveðinna fisktegunda í beinum viðskiptum skyldra aðila.

C

Samningar milli útgerðar og áhafna fiskiskipa, sem nota skal við uppgjör á aflahlut í viðskiptum við skylda aðila, eru frjálsir. Aðilar geta því og hafa samið um markaðstenginu afla eða hluta hans. Hefur slíkt samkomulag orðið hluti af úrskurðum nefndarinnar.

Ákvörðun úrskurðarnefndar um fiskverð er bindandi fyrir málsaðila á gildistíma hennar og skal hún lögð til grundvallar fyrir dómi, nema svo sé ástatt sem um er rætt í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 3/1989 um samningsbundna gerðardóma, sbr. 15. gr. laga nr. 13/1998. Miðað við þessa sérstöku stöðu úrskurðarnefndar sem stjórnsýslunefndar er þýðingarmikið að ákvarðanir hennar styðjist við beinar lagaheimildir.

Eins og hér að framan hefur verið rakið er ekki að finna beina lagaheimild til handa úrskurðarnefnd til að kveða efnislega á um það, þ.e. hvort afli skuli seldur á fiskmarkaði eða vera 100% markaðstengdur eins og krafa sóknaraðila lýtur að um annan afla en slægðan þorsk. Í úrskurði nefndarinnar U6/1998 var hafnað þeirri kröfu að allur afli yrði seldur á uppboðsmörkuðum með þeim rökum að nefndina skorti lagastoð til að taka hana til greina. Í samræmi við það svo og með vísan til þess að varnaraðili hafnar kröfu sóknaraðila um 100% markaðstengingu, ber að hafna þesssari kröfu.

D

Hlutverk úrskurðarnefndar er að fjalla um mál sem skotið er til hennar af fulltrúum sjómanna og útgerða í þeim tilvikum þegar ekki næst samkomulag um fiskverðssamning milli áhafnar og útgerðar. Í því felst að útgerð og áhöfn er bæði rétt og skylt að setja fram kröfur sínar og freista þess að ná samkomulagi sín á milli um fiskverð áður en komi til kasta úrskurðarnefndar. Afleiðingar þess að fram hjá samningaferli er gengið ætti að öllu jöfnu að leiða til frávísunar málsins í heild eða að hluta, þ.e. um verðákvörðun þeirra fisktegunda sem ekki var leitað samninga um.

Í tillögum áhafnar og útgerðar sem lá til grundvallar úrskurði 25. febrúar var ekkert fjallað um karfa. Engu að síður var úrskurðað um verð á karfa og þannig kominn á bindandi samningur milli aðila.

Í máli því sem hér er til meðferðar var þess freistað að ná samkomulagi milli aðila áður en málinu var skotið til nefndarinnar. Gildistími þess úrskurðar er liðinn og ber því að ákvarða fiskverð á þeim tegundum sem þar var kveðið á um.

Í úrskurði U1/2003 var vísað frá nefndinni kröfu um verðlagningu á óslægðum þorski á þeirri forsendu að allur þorskur sé slægður um borð í skipum félagsins sem stundi línuveiðar og því ástæðulaust að leggja fyrir úrskurðarnefnd að fjalla um þann þátt. Þar sem engar nýjar forsendur hafa verið lagðar fram í málinu nú er þeirri kröfu varnaraðila því vísað frá úrskurðarnefnd.

E

Í úrskurði aðila í málinu U1/2003 liggur fyrir rökstuðningur fyrir verðlagningu á þorski og karfa og vísað til þess rökstuðnings í heild. Að mati Verðlagsstofu skiptaverðs hafa almennar forsendur ekki tekið slíkum breytingum frá því að sá úrskurður var kveðinn að ástæða þyki til að breyta verði frá þeim úrskurði hvað varðar þessar fisktegundir. Skal því verð á þorski og karfa vera óbreytt eða eins og í úrskurðarorði greinir.

Hvað varðar verð á slægðri ýsu gegnir öðru máli. Af hálfu varnaraðila er á því byggt að verð á fiskmörkuðum hafi lækkað um 35% að meðaltali frá janúar 2003. Þá hafi afurðarverð einnig lækkað. Af hálfu sóknaraðila hefur þessu ekki verið mótmælt. Úrskurðarnefnd telur óhjákvæmilegt að lækka verð á ýsu í ljósi þessara staðreynda. Með hliðsjón af óvissu um þróun á verði ýsu í náinni framtíð og með hliðsjón af fyrri úrskurðum nefndarinnar telur úrskurðarnefnd að viðmiðunarverð á ýsu skuli lækka um 10% eða nánar eins og í úrskurðarorði greinir.

Verð á keilu og löngu.
Varðandi verðákvörðun þessara tegunda vísast til forsendna úrskurðar í máli aðila U1/2003 en Verðlagstofa skiptaverðs telur að forsendur sem þar lágu til grundvallar hafi ekki breyst að því marki að ástæða sé til að breyta verði þessara fisktegunda að sinni. Skal því verð á keilu og löngu vera óbreytt á gildistíma úrskurðarins eða eins og í úrskurðarorði greinir.

Verð á steinbít.
Óumdeilt er að verð á steinbít á Vesturlandi-Vestfjörðum hafi á árinu 2002 verið 82 kr/kg. en á öðrum landsvæðum 105 kr/kg, eins og fram kemur í úrskurði U1/2003.

Samkvæmt upplýsingum Verðlagsstofu skiptaverð var meðalverð á steinbít í apríl 2002, 85 kr/kg á öllum landsvæðum. Meðalverð á Vesturlandi- Vestfjörðum var á sama tíma 82 kr/kg. og á öðrum landsvæðum 90 kr/kg. Benda má á að skip varnaraðila lönduðu á árinu 2002 stórum hluta steinbítsafla á landinu samkvæmt sömu upplýsingum. Með vísan til 11. gr. Laga nr. 13/1998 telur formaður ekki forsenda til að ákveða verð á steinbít með þeim hætti sem varnaraðili krefur, þ. e. að gera greinarmun á verði á steinbít veiddum á ákveðnum veiðisvæðum. Telur því úrskurðarnefnd að ákveða skuli eitt verð á steinbít þ .e. 85 kr/kg.

Úrskurður þessi skal gilda frá 17. mars sl. til 1. maí 2003.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, útgerð Vísi hf. Grindavík, skal við uppgjör til sóknaraðila, áhafna skipanna Sævíkur GK- 257, Fjölnis ÍS-7, Freys GK-157, Garðeyjar SF-22, Hrungis GK-50, Páls Jónssonar GK-7 og Sighvats GK-57, miðast við eftirtalin verð.

Þorskur slægður:    
Undirmál kr./kg. 86
1-1,8 kg. - 100
1,8 -2,6 kg. - 113
2,6-3,8 kg. - 129
3,8-6 kg. - 145
6-8,5 kg. - 168
8,5 kg. og yfir - 180
Ýsa slægð:
Undirmál - 74
undir1,2 kg. - 86
1,2-1,4 kg. - 98
1,4-1,6 kg. - 109
1,6-2 kg. - 117
2 kg. og yfir - 128
Karfi:
Undir 350 gr. - 35
350-501 gr. - 45
500-701 51,35 - 51,35
700-1000 - 59,85
1000 gr. og yfir - 71

Keila: 1 kg. 63 kr/kg., 1 kg -1,3 kg. 73 kr/kg., 1,3 kg. og yfir 80 kr/kg.
Langa: Undir 2 kg 92 kr/kg., 2-5 kg. 115 kr/kg., yfir 5 kg. 120 kr/kg.
Steinbítur: Verð 85 kr/kg.

Úrskurður þessi skal gilda frá 17. mars sl. til 1. maí 2003.

Að úrskurði stóðu:
Valtýr Sigurðsson
Friðrik J. Arngrímsson
Stefán Friðriksson
Sveinn Hj. Hjartarson