Fara í efni

Úrskurður nr. 2/2014

Mánudaginn 27. október 2014 er kveðinn upp úrskurður í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna skv. lögum nr. 13/1998.

 

Fyrir er tekið mál nr. Ú2/2014:

Verðlagsstofa skiptaverðs

gegn

útgerðinni Skinney-Þinganesi vegna ákvörðunar um verð á veiddri síld hjá áhöfn Jónu Eðvalds SF 200 (2618) og Ásgríms Halldórssonar SF 250 (2780).

Atvik og sjónarmið aðila:

Mál þetta á rætur sínar að rekja til málskots Verðlagsstofu skiptaverðs vegna verðlagningar Skinneyjar-Þinganess á síld hjá áhöfnum Jónu Eðvalds SF 200 og Ásgríms Halldórssonar SF 250.

Málskotið byggir á 2. mgr. 7. gr. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Undanfari þess er sá að Verðlagsstofa fær almennar upplýsingar um fiskverð á grundvelli 4. gr. laganna frá útgerðum. Ef kemur fram í þeim upplýsingum að fiskverð víki við uppgjör á aflahlut áhafnar í verulegum atriðum frá því sem algengast er, við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða, skuli Verðlagsstofa taka málið til sérstakrar athugunar. Í umræddri 2. mgr. 7. gr. kemur fram að Verðlagsstofa skuli skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar telji hún ekki fram komnar fullnægjandi skýringar á fiskverði við þessa sérstöku athugun.

Í máli þessu kemur það fram í málskoti þann 17. október sl. að útgerðin Skinney-Þinganes hafði ekki svarað fyrirspurn Verðlagsstofu frá 14. október 2014 um frekari skýringar og á þeim forsendum var málinu vísað til nefndarinnar þar sem ekki hafi komið fram fullnægjandi skýringar á fiskverði, sbr. orðalag 2. mgr. 7. gr. laga nr. 13/1998. Með málskoti fylgdu gögn um verð á síld þeirri sem útgerðin Skinney-Þinganes hafði greitt til áhafna Jónu Eðvalds SF 200 og Ásgríms Halldórssonar SF 250 ásamt upplýsingum þeim sem Verðlagsstofa hafði undir höndum um verð á sömu afurðum hjá öðrum útgerðum. Þær skýringar sem bárust Verðlagsstofu í kjölfar þessa voru lagðar fyrir úrskurðarnefnd til upplýsinga, sbr. upplýsingar í gagnalista úrskurðarin sem merktar eru nr. 6

Í 13. gr. laga nr. 13/1998 kemur fram að þegar eftir að máli er skotið til úrskurðar úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna skuli þeir nefndarmenn, sem tilnefndir eru af heildarsamtökum sjómanna annars vegar og útvegsmanna hins vegar, taka málið til umfjöllunar og skal ákvörðun þeirra liggja fyrir innan sjö daga. Þeir nefndarmenn komu saman á fundi sem haldinn var 20. október 2014. Í fundargerð vegna þess fundar kemur fram að fulltrúi Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) á fundinum gerði athugasemdir við form málskotsins og að hann teldi upplýsingar um viðmiðunarverð sem Verðlagsstofa vísar til í gögnum sínum ófullnægjandi þar sem þær fælu ekki í sér nægilega tæmandi upplýsingar um sambærileg verð. Einnig voru gerðar athugasemdir við tillögur Verðlagsstofu vegna upphafsdags komandi úrskurðar.

Fulltrúar tilnefndir af heildarsamtökum sjómanna töldu athugasemdir LÍÚ helst til þess fallnar að tefja málið en urðu nefndarmenn ásáttir um að fulltrúi LÍÚ myndi fá frest til að koma fram með efnislega afstöðu til málsins. Á fundinum var einnig ákveðið að ef ekki næðist samkomulag fyrir 24. október 2014 þá yrði málinu vísað til fullskipaðrar nefndar. Föstudaginn 24. október 2014 varð ljóst að nefndarmenn myndu ekki ná samkomulagi á þessu stigi málins og var málinu því vísað til fullskipaðrar nefndar. Til fundar hennar var boðað samdægurs og ákveðið að hann yrði mánudaginn 27. október 2014 og nefndarmönnum boðið að koma á framfæri frekari sjónarmiðum í málinu þangað til.

Mánudaginn 27. október 2014 kom fullskipuð úrskurðarnefnd saman að Stórhöfða 25 í Reykjavík. Á fundinum var farið yfir hvort formkröfur laga nr. 13/1998 væru uppfylltar varðandi málskotið og komist að efnislegri niðurstöðu í málinu sem formaður nefndarinnar og fulltrúar tilnefndir af heildarsamtökum sjómanna samþykktu en fulltrúar LÍÚ greiddu atkvæði á móti.

NIÐURSTAÐA

Í málinu liggur fyrir að skv. 1.mgr. 9.gr. laga nr. 13/1998 getur Verðlagsstofa skiptaverðs skotið málum til úrskurðarnefndar, sbr. ákvæði 7.gr. sömu laga. Þetta málskot byggir á orðalagi 2.mgr. 7.gr. laganna um að stofnunin skuli skjóta máli til úrskurðarnefndar ef ekki berast fullnægjandi skýringar á fiskverði sem Verðlagsstofa telur víkja í verulegum atriðum frá því sem algengast er. Athugasemdir fulltrúa LÍÚ varðandi formskilyrði laga nr. 13/1998 lúta að því að ákvörðun úrskurðarnefndar gildi skv. 1.mgr. 10.gr. laganna eingöngu um fiskverð gagnvart áhöfn þess skips sem málskotið varðar en ekki gagnvart áhöfnum annarra skipa sömu útgerðar. Fulltrúi LÍÚ vísaði því til þeirrar afstöðu samtakanna að þegar máli væri vísað til úrskurðarnefndar varðandi tvær útgerðir skuli því vísa því frá.

Í 1.mgr. 10.gr. laga nr. 13/1998 er vísað til þess að ákvörðun úrskurðarnefndar gildi eingöngu um fiskverð gagnvart áhöfn þess skips sem málskotið varðar en ekki gagnvart áhöfnum annarra skipa sömu útgerðar. Í málskoti Verðlagsstofu skiptaverðs 17. október 2014 er bæði skýrt og greinilegt að að málskotið varði bæði áhöfn skipanna Jónu Eðvalds SF 200 og Ásgríms Halldórssonar SF 250 sem og útgerðina Skinney-Þinganes. Verður því ekki fallist á frávísun málsins og tilvísun til úrskurðar nr. 02/1998 breytir ekki þeirri niðurstöðu.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar um verð sem útgerðin Skinney-Þinganes greidd fyrir síld til áhafna skipanna Jónu Eðvalds SF 200 og Ásgríms Halldórssonar SF 250 m.v. upplýsingar sem bárust Verðlagsstofu þann 14. október 2014 með tölvupósti. Þar kom fram að verð útgerðarinnar til umræddra áhafna var 35,4 krónur vegna síldar til bræðslu og 40,4 krónur vegna síldar til vinnslu. Í gögnum frá Verðlagsstofu sem fylgdu málskoti, gögn merkt nr. 5 kemur fram að verð hjá annarri útgerð var fyrir sambærilegan afla um 11-22% hærra en hjá Skinney-Þinganesi. Mismuninn má rekja til þess hvort horft var til aflans í heild eða bara afla sem var settur í vinnslu. Í frekari gögnum Verðlagsstofu, gögn merkt nr. 8, koma fram útreikningar stofnunarinnar á verði m.t.t. upplýsinga um nýtingarhlutfall aflans sem upplýsingar útgerðarinnar Skinneyjar-Þinganess þann 14. október sl. byggja á. Í þeim gögnum kemur fram samanburður á því verði við verð frá tveimur öðrum útgerðum sem stunda sambærilegar veiðar. Nánar tiltekið eru verð Skinneyjar-Þinganess talin vera eftirfarandi samkvæmt þeim gögnum:

Verð upp úr sjó til vinnslu: 39,4 krónur. Verð vegna bræðslu: 35,4 krónur.

Til samanburðar voru verð hjá öðrum útgerðum til samanburðar skoðuð. Önnur útgerðin greiddi á sama tíma 50,8 krónur fyrir síld upp úr sjó til vinnslu en 38 krónur vegna bræðslu. Sú þriðja greiddi 45 krónur fyrir síld upp úr sjó til vinnslu og 40 krónur fyrir síld til bræðslu og er í báðum tilvikum þessar tölur byggðar á útreikningum Verðlagsstofu á sama nýtingarhlutfalli og Skinney-Þinganes miðar við. Á fundi úrskurðarnefndar 27. október 2014 var upplýst að heildarafli útgerðanna væri misjafn og á bak við þá útgerð sem var með verðin 50,8 krónur og 38 krónur væri umtalsvert meiri afli en hjá þeirri útgerð sem greiddi 45 og 40 krónur fyrir sinn afla. Nefndarmenn ræddu umræddar tölur og nýlegar fréttir í fjölmiðlum sem borist höfðu af aflabrögðum en ekki lágu fyrir staðfestar upplýsingar um magn afla á fundinum.

Af þeim tölum sem útreikningar Verðlagsstofu byggja á má ráða að munur á verði á síld upp úr sjó til vinnslu sé um 13-23%, þ.e. að Skinney Þinganes sé að greiða að því marki lægra verð til áhafna Jónu Eðvalds SF 200 og Ásgríms Halldórssonar SF 250 en aðrar útgerðir sem eru að veiða sambærilegan afla. Þó ekki liggi fyrir nákvæmar löndunartölur um hlutdeild samanburðarútgerða í lönduðum afla þá er ekki varhugavert að álykta að fyrir meginhluta aflans, sem landað hefur verið á sama tíma og áhafnir umræddra skipa hjá Skinney-Þinganesi eru á veiðum, hefur verið greitt verð sem er yfir 20% hærra en Skinney-Þinganes hefur greitt til sinna áhafna. Einnig er ljóst að verð á síld til bræðslu hefur verið um 7-12% hærra hjá öðrum útgerðum.

Hvað varðar athugasemdir um að samanburður sá sem Verðlagsstofa miðar við við mat á því hvort verð víki verulega frá því sem algengast er verður að líta til þess að skv. 4.gr. laga nr. 13/1998 ber útgerðum að veita Verðlagsstofu aðgang að öllum upplýsingum um ráðstöfun afla og fiskverð. Verðlagsstofa miðar samanburð sinn við þær upplýsingar sem hún hefur fengið og getur ekki miðað hann við upplýsingar sem aðrar útgerðir vanrækja að senda til hennar skv. skýru lagaboði 4.gr. laga nr. 13/1998. Úrskurðarnefnd skal skv. 12.gr. laga nr. 13/1998 fela Verðlagsstofu skiptaverðs að leita upplýsinga hjá viðeigandi aðilum um öll þau atriði sem máli kunna að skipta varðandi úrlausn í tilteknu máli. Þetta hefur Verðlagsstofa gert og lagt fram þær upplýsingar sem henni hafa borist. Þær upplýsingar eru þannig tækar til samanburðar og eru ekki rök til þess að líta framhjá þeim þó fáar útgerðir séu að gefa umræddar upplýsingar.

Að öllu þessu virtu verður að leggja til grundvallar að í meginatriðum hafi verð hjá útgerðinni Skinney-Þinganesi til áhafna Jónu Eðvalds SF 200 og Ásgríms Halldórssonar SF 250 verið um eða yfir 20% lægra en algengasta verð á síld upp úr sjó til vinnslu en um 7% lægra á síld til bræðslu. Að öllu þessu virtu teljast verð útgerðarinnar Skinneyjar-Þinganes víkja verulega frá því sem algengast er í skilningi 1.mgr. 7.gr. laga nr. 13/1998.

Ákvörðun fiskverðs og niðurstaða formanns úrskurðarnefndar:

Ákveðið er að verð á síld upp úr sjó skuli taka mið af vegnu meðaltali verða þeirra útgerða sem hafa verið við veiðar á sambærilegum afla. Það þýðir að tekið er mið af því verði sem algengast er m.v. upplýsingar aflamagn hvorrar útgerðar um sig.

Verð á síld upp úr sjó til vinnslu skal vera 50 krónur.

Verð á síld til bræðslu skal vera 38 krónur.

Samkvæmt 2.mgr. 10.gr. laga nr. 13/1998 skal ákvörðun nefndarinnar ná til verðs fyrir afla sem landað er eftir að ákvörðun nefndarinnar er tilkynnt aðilum , en þó aldrei síðar en sjö dögum eftir að málinu var skotið til hennar ef hún varðar kæru frá Verðlagsstofu skiptaverðs skv. 1.mgr. 9.gr. laganna.  

Þar sem um er að málskot sem byggir á 1.mgr. 9.gr. laganna telst ákvörðun nefndarinnar gilda vegna afla sem landað er frá 24. október 2014, sem er sjö dögum eftir málskot sem barst nefndinni þann 17. október 2014. Ákvörðunin gildir í tvo mánuði eða til 24. desember 2014

Úrskurðarorð

Verð á síld hjá útgerð Skinney-Þinganess til áhafna Jónu Eðvalds SF 200 og Ásgríms Halldórssonar SF 250 skal vera eftirfarandi:

Verð á síld upp úr sjó: 50 krónur.

Verð á síld til bræðslu: 38 krónur.

Úrskurður þessi gildir frá 24. október til 24. desember 2014

Þóra Hallgrímsdóttir
Hólmgeir Jónsson
Sævar Gunnarsson