Fara í efni

Úrskurður nr. 4/1999

Árið 1998, fimmtudaginn 27. maí er fundur haldinn í Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Mættir eru: Guðjón A. Kristjánsson, Helgi Laxdal, Sævar Gunnarsson, Kristján Ragnarsson, Pétur H. Pálsson og Sturlaugur Sturlaugsson og Skúli J. Pálmason, formaður nefndarinnar.

Fyrir er tekið mál nr. 4/1999

Vélstjórafélag Íslands, Sjómannasamband Íslands

og

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands

fh. áhafnar Björgúlfs EA-312

gegn

Snæfelli hf.

og kveðinn upp svohljóðandi

Úrskurður:

Áhöfn Björgúlfs EA-312 fór þess á leit við Verðlagsstofu skiptaverðs (VSS), að deilu þeirra við Snæfell hf. um fiskverð yrði vísað til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna með ódagsettu bréfi, sem barst VSS hinn 12. maí sl. Málið var tekið fyrir á fundi í úrskurðarnefnd 18. maí sl. Þar náðist ekki samkomulag og var því ákveðið að tilkveðja formann nefndarinnar, sem boðaður var daginn eftir. Á þeim fundi var ákveðið að boða til næsta fundar í dag í fullskipaðri nefnd og leitast við að ráða málinu þá til lykta. Fulltrúar hagsmunaaðila í nefndinni hafa hvor um sig skilað skriflegum greinargerðum og gert grein fyrir sjónarmiðum sínum. Fulltrúar sjómanna í úrskurðarnefndinni tóku að sér að reka mál áhafnar m.s Björgúlfs EA-312 og verður eftirleiðis vísað til þeirra sem sóknaraðila, en fulltrúar útvegsmanna í úrskurðarnefnd gæta hagsmuna Snæfells hf., sem gerir út m.s.Björgúlf EA-312 og verða þeir hér eftir nefndir varnaraðilar.

Kröfur og sjónarmið sóknaraðila.

Krafa sóknaraðila er sem hér segir:

  1. Verð á eftirtöldum fisktegundum skal tengt markaðsverði, þannig að 77% af magni hverrar tegundar skal reiknað á grunnverði, en 23% magnsins skal reiknað á markaðsverði miðað við verð á Faxamarkaði, Fiskmarkaði Hafnarfjarðar og Fiskmarkaði Suðurnesja, eins og verið hefur.
  2. Grunnverð skal vera:

Samkvæmt Síðasta tilboð

Krafa samningi útgerðar

Þorskur: 80 kr/kg er 60 kr/kg 67,30 kr/kg

Þorskur, undirmál 60 kr/kg er 60 kr/kg 53,65 kr/kg

Ufsi 58 kr/kg er 35 kr/kg 40 kr/kg

Ýsa 80 kr/kg er 75 kr/kg 75 kr/kg

  1. Aðrar fisktegundir en að ofan greinir, þ.m.t. karfi skulu seldar á innlendum eða erlendum fiskmarkaði eins og verið hefur.
  2. Gildistími fiskverðsins skal vera frá 11. maí 1999 til 11. ágúst s.á.

Sóknaraðili greinir frá því, að síðast gildandi samningur milli Snæfells hf. og skipverja á Björgúlfi EA-312 hafi verið undirritaður 14. nóvember 1995 og hafi hann gilt frá þeim degi til 31. desember s.á. Frá þeim tíma hafi samningurinn verið uppsegjanlegur með eins mánaðar fyrirvara, en framlengst um einn mánuð í senn væri honum ekki sagt upp. Viðræður hafi hafist milli áhafnar og útgerðar fyrir u.þ.b. ári. Samningar hafi ekki tekist og málinu því verið vísað til úrskurðarnefndar hinn 26. febrúar sl. Formaður hafi vísað málinu frá að kröfu útgerðarmanna hinn 19. mars sl. á þeirri forsendu, að fiskverðsamningi milli málsaðila hafi ekki verið sagt upp formlega, en þá hafði málið verið til efnislegrar umfjöllunar í nefndinni í 3 vikur. Skipverjar hafi því sagt samningnum upp formlega með mánaðar fyrirvara. Útgerðin hafi í tengslum við uppsögn samningsins sagt upp munnlegu samkomulagi um ráðstöfun annarra fisktegunda en þorsks, ýsu og ufsa. Samningaumleitanir hafi átt sér stað milli útgerðar og áhafnar en þær hafi ekki borið árangur og því hafi málinu verið vísað til úrskurðarnefndar að nýju 11. maí sl.

Sóknaraðili vekur athygli á því, að gert hafi verið samkomulag fyrir u.þ.b. 18 mánuðum milli útgerðar og áhafnar um ráðstöfun annarra fisktegunda en þorski, ýsu og ufsa.

Sóknaraðili byggir á því, að samkomulag þetta sé sjálfstætt samkomulag, þar sem uppsagnarfrestur sé ekki tilgreindur. Í 6. gr. laga nr. 80/1938 með síðari breytingum, segi: „Allir samningar milli stéttarfélaga og atvinnurekenda um kaup og kjör verkafólks skulu vera skriflegir og samningstími og uppsagnarfrestur tilgreindur. Ella telst samningstími eitt ár og uppsagnarfrestur þrír mánuðir. Sé samningi ekki sagt upp innan uppsagnarfrests, telst hann framlengdur um eitt ár, nema annað sé ákveðið í samningnum sjálfum. Samningsuppsögn skal vera skrifleg". Verði hins vegar litið svo á, að munnlega samkomulagið sé ekki sérsamningur heldur hluti af upphaflega samningnum og sé því aðeins breyting á honum og falli þar af leiðandi úr gildi á sama tíma og hann, sé afar óeðlilegt , að úrskurðarnefndin verðleggi karfa og breyti þannig einhliða þeirri ráðstöfun aflans, sem ákveðið hafi verið í samningum eftir breytinguna fyrir um 18 mánuðum.

Sóknaraðili lítur því svo á, að úrskurðarnefndinni beri eingöngu að verðleggja þorsk, ýsu og ufsa, en karfi og aðrar tegundir fari áfram á markað. Að öðru leyti vísar sóknaraðili til meðfylgjandi greinargerðar sinnar í málinu U-1/1999, áhöfn Árbaks EA-308 gegn Úgerðarfélagi Akureyringa hf., (ÚA) um rök fyrir hækkun á fiskverði til skipshafnar Björgúlfs EA-312. Í þeirri greinargerð er m.a. vísað til þess, að útgerðarmanni sé skylt að tryggja áhöfnum skipa sinna hæsta gangverð fyrir afla samkvæmt kjarasamningum og óheimilt sé að draga frá heildarverðmæti afla kostnað vegna kaupa á veiðiheimildum. Þar er því einnig haldið fram, að fiskverð á landsvæði því, sem ÚA starfar á, ráðist að mestu af kaupum fiskvinnslu á afla eigin skipa og því sé nánast um fast verð að ræða og frávik hverfandi. Þetta leiði til þess að ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998 geti ekki átt við og beri því að líta til fiskverðs milli óskyldra aðila á svæðinu.

Kröfur og sjónarmið varnaraðila:

Varnaraðili hafnar kröfum sóknaraðila og gerir þess í stað þá kröfu, að nýr samningur milli ÚA og sjómanna á ísfiskskipum félagsins verði látinn gilda óbreyttur við uppgjör til áhafnar Björgúlfs EA-312, enda hafi samningar Snæfells hf. ávallt fylgt samningum ÚA, hafi þeir leitt til hækkunar. Afli skipa ÚA sé unninn með sambærilegum hætti og afli Björgúlfs EA-312 og sé seldur á sama markaði.

Þá hafnar varnaraðili þeirri fullyrðingu sóknaraðila, að munnlegum samningi um ráðstöfun á karfa hafi ekki verið sagt upp samtímis því, er áhöfn Björgúlfs EA-312 sagði skriflega upp áður gildandi fiskverðssamningi. Ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur gildi ekki um fiskverðssamninga, enda séu slíkir samningar ekki kjarasamningar, heldur samningar um verð á veiddum afla útgerðar, sem hún annist sölu á. Í þessu sambandi vísist til bréfs Snæfells hf. til áhafnar Björgúlfs EA-312 frá 23. mars sl. sem taki af öll tvímæli um það, að samkomulagi um verð á öllum fisktegundum hafi verið sagt upp.

Varnaraðili byggir kröfur sínar einkum á eftirfarandi rökum:

  1. Þorskverð það, sem tilvitnaður samningur geri ráð fyrir, sé yfir því meðalverði sem almennt sé greitt í beinum viðskiptum milli aðila.
  2. Hlutfall markaðsviðmiðunar í greiddu heildarverði einstakra tegunda sé það hæsta sem þekkist í fiskverðssamningum milli aðila í beinum viðskiptum eða alls 23%.
  3. Hækkun á landfrystum fiskafurðum undanfarið ár hafi skilað sér ríflega til sjómanna á Björgúlfi EA-312, vegna hærra viðmiðunarhlutfalls við ísfiskmarkaði hér innanlands. Innlendir ísfiskmarkaðir séu yfirspenntir vegna takmarkaðs framboðs og mjög mikillar eftirspurnar eftir stórum þorski í salt og ferskum flökum í flug til verslana og veitingastaða erlendis. Nefna megi, að hefðbundnar landfrystar afurðir hafi á aðeins hækkað um 11,3% frá mars 1998 jafnlengdar þessa árs. Afli á ísfiskmarkaði hafi hins vegar á sama tíma hækkað um 31% og hafi verið tekið fullt tillit til þessarar hækkunar í fiskverði Snæfells hf.
  4. Snæfell hf. hafi tekið þá ákvörðun að treysta til framtíðar rekstur landvinnslu sinnar en þessi starfsemi hafi átt mjög í vök að verjast undanfarin ár. Það hafi m.a. verið gert á þeirri forsendu, að sátt yrði áfram um þann fiskverðssamning, sem sé og hafi verið í gildi milli félagsins og áhafna á skipum þess. Þessi samningur sé almennt í takt við það sem gerist við sambærilega ráðstöfun aflans.

Forsendur og niðurstaða:

Áður en fjallað verður um efnishlið málsins, ber fyrst að taka afstöðu til þess, hvort taka skuli verðlagningu karfa til meðferðar í úrskurðarnefndinni en um það er ágreiningur.

Áhöfn Björgúlfs EA sagði upp fiskverðssamningi sínum við útgerð skipsins með bréfi dags. 23. mars sl.

Bréfið er svohljóðandi: „Skipverjar á Björgúlfi EA-312 segja hér með upp því fiskverðssamkomulagi milli útferðar og áhafnar Björgúlfs EA-312, sem undirritað var þann 14/11 1995. Uppsögnin telji frá deginum í dag þannig að fiskverðssamningar verði lausir frá og með 1. maí 1999." Bréfið er áritað um móttöku f.h. útgerðar skipsins 23. mars sl.

Svarbréf útgerðarinnar er dagsett sama dag.

Þar segir m.a. svo: „Í tilefni af texta í fiskverðssamningi undir liðnum "önnur ákvæði" þar sem segir: "Áfram verður sett í gáma og siglt með afla eins og verið hefur og hagkvæmt þykir á hverjum tíma" svo og yfirlýsingu áhafnar b/v Björgúlfs EA 312 dags. 02.03. 99 og lögð var fram í "Úrskurðarnefnd um fiskverð" þar sem vísað er til munnlegs samkomulags milli áhafnar og útgerðar um að allur karfi fari á markað. Þar sem áhöfn hefur nú sagt upp ofangreindum fiskverðssamningi vil ég með bréfi þessu taka af öll tvímæli um það að útgerðin segir hér með upp öllu samkomulagi um ráðstöfun á fiski úr togaranum b/v Björgúlfi EA 312……….". Bréf útgerðarinnar er einnig áritað um móttöku 23. mars sl.

Af bréfi útgerðarinnar má ráða, að munnlegt samkomulag hafi verið í gildi um ráðstöfun karfa, þar sem ástæða þótti til, að víkja sérstaklega að því og segja því upp.

Sóknaraðili byggir á því, að hér sé um munnlegan kjarasamning að ræða og því eigi 6. gr. laga nr 80/1938 við um tilvikið með þeim lögfylgjum, sem áður er lýst, (sjá umfjöllun í kröfugerð sóknaraðila).

Í 6. gr. laganna er skýrt tekið fram að um sé að ræða samninga milli stéttarfélaga og atvinnurekanda. Einnig má benda á 5. gr. laganna í þessu sambandi, en þar kemur fram að stéttarfélög séu lögformlegir samningsaðilar um kaup og kjör.

Í gildandi kjarasamningum þeirra launþegasamtaka, sem aðild eiga að úrskurðarnefnd, við samtök útgerðarmanna er ákvæði leggur áhöfn og viðkomandi útgerð þá skyldu á herðar að gera sín á milli samning um fiskverð. Hér er um að ræða samning, sem að skylt að gera á grundvelli kjarasamnings, en getur engan hátt fallið undir skilgreiningu laga nr. 80/1938 á kjarasamningi. Félagsdómur fjallaði nýlega um það álitaefni, hvort stéttarfélögum þeim, sem aðild eiga að úrskurðarnefndinni, væri heimilt að semja beint við útgerð fyrir hönd félagsmanna sinna um fiskverð og komst að þeirri niðurstöðu að það væri óheimilt. Því þykir mega slá því föstu, að 6. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 5. gr.laganna, eigi hér ekki við. Af því leiðir, að munnlegum samningi um fiskverð verður sagt upp með sama fyrirvara og með sama hætti og skriflegum samningi um sama efni.

Samkvæmt framansögðu hefur þeim fiskverðssamningum, sem gerðir hafa verið milli Snæfells hf. og áhafnar Björgúlfs EA-312 verið sagt upp og liggur því fyrir að ákveða verð á þeim fisktegundum, sem ágreiningur er um.

Starfsreglur þær, sem úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna er ætlað að starfa eftir eru skilgreindar í 11. gr. laga nr. 13/1998.

Fyrirmæli 11. gr. eru svohljóðandi: „Úrskurðarnefnd skal við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa fiskverðs (á að vera skiptaverðs) hefur safnað. Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið miða af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. ......."

Fyrirmæli 2. mgr. 11. gr. núgildandi laga um úrskurðarnefnd er samhljóða 2. mgr. 5. gr. fyrri laga um úrskurðarnefnd nr. 84/1995. Nefndin hefur í störfum sínum að jafnaði túlkað lagaákvæði þetta svo, að nærtækast sé að miða við meðalverð, við túlkun hugtaksins "algengast fiskverð við sambærilega ráðstöfun afla" enda hlýtur það að endurspegla algengasta verðið.

Ekki þykir ástæða til að víkja frá þeirri starfsreglu í máli því sem hér er til meðferðar.

Sú viðmiðun, sem nærtækast er og eðlilegast að líta fyrst til, er úrskurður úrskurðarnefndarinnar frá 2. febrúar sl. í máli áhafnar Árbaks EA-308 og Útgerðarfélags Akureyringa hf.

Í því máli voru atvik með svipuðum hætti og í máli því, sem hér er til úrlausnar, að því leyti, að fiskverðssamningur hafði ekki verið gerður milli áhfanar og útgerðar allt frá febrúarmánuði 1995. Umfangsmikil könnun átti sér stað á vegum úrskurðarnefndar á þróun fiskverðs og afurðaverðs frá árinu 1995, er fiskverðssamningurinn milli útgerðar og áhafnar var síðast gerður, allt til þess tíma, sem úrskurður var kveðinn upp á grundvelli þeirrar athugunar.

Niðurstaðan úrskurðarnefndar var á þessa leið.

Grunnverð:

Fisktegund Verð
Þorskur 70,00 Kr/kg
Þorskur undirmál 55,00 Kr/kg
Ufsi 35,00 Kr/kg
Karfi 350-500 gr. 18,00 Kr/kg
Karfi 501-700 gr. 28,00 Kr/kg
Karfi 701-1000 gr. 40,00 Kr/kg
Karfi yfir 1000 gr. 44,00 Kr/kg
Ýsa allar stærðir 75,00 Kr/kg

Hér var um grunnverð að ræða, sem taka skyldi til 77% afla allra framangreindra fisktegunda, en 23% af afla hverrar tegundar skyldi reiknað á markaðsverði miðað við verð á Faxamarkaði, Fiskmarkaði Hafnarfjarðar og Fiskmarkaði Suðurnesja fyrir hverja viku.

Eins og fram hefur komið var deilu Snæfells hf. og áhafnar Björgúlfs EA-312 um fiskverð vísað til úrskurðarnefndar, fyrr á þessu ári. Málið var í fyrstu til efnislegrar meðferðar fyrir nefndinni, áður en því var vísað frá að kröfu fulltrúa útgerðarmanna. Við efnismeðferð málsins buðu fulltrúar útgerðarmanna fram til lausnar málsins fiskverðsákvörðun úrskurðarnefndar í fyrrgreindu máli áhafnar Árbaks og ÚA.

Því var hafnað af hálfu fulltrúa sjómanna m.a. á þeirri forsendu, að í málskoti áhafnarinnar til úrskurðarnefndarinnar hafi einungis falist krafa um verðákvörðun á þorski, ýsu og ufsa, en karfinn skyldi áfram seldur á markaði, svo sem verið hafði.

Samhljóða krafa liggur nú fyrir nefndinni af hálfu sóknaraðila, þ.e. að ákveða fiskverð á þorski, ýsu og ufsa, en karfinn verði héreftir sem hingað til seldur á markaði en varnaraðili gerir sömu kröfu og fyrr, að verð á karfa skuli ákveðið af nefndinni, samhliða verðlagningu ofangreindra fisktegunda.

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar í máli áhafnar Árbaks og ÚA hefur það gerst, að ÚA samdi við áhafnir skipa sinna. Varnaraðili krefst þess, að þeir samningar skuli gilda um fiskverðsákvörðun nefndarinnar í þessu máli, enda sé um sambærilega ráðstöfun afla að ræða og sambærilegar veiðar og vinnslu.

Fiskverð það, sem ÚA samdi um við áhafnir skipa sinna er sem hér segir:

Grunnverð:

 
Fisktegund Verð
Þorskur 67,30 Kr/kg
Þorskur undirmál 53,65 Kr/kg
Ufsi 35,00 Kr/kg
Karfi 350-500 gr. 18,00 Kr/kg
Karfi 501-700 gr. 28,00 Kr/kg
Karfi 701-1000 gr. 40,00 Kr/kg
Karfi yfir 1000 gr. 44,00 Kr/kg
Ýsa allar stærðir 75,00 Kr/kg

Auk þess skyldi markaðstengja 23% afla allra ofangreindrar tegunda með sama hætti og úrskurður úrskurðarnefndar ákvað og lýst er hér að framan.

Þetta boð varnaraðila er samhljóða síðasta boði útgerðar Björgúlfs EA-312 til áhafnar, meðan á samningaviðræðum stóð þeirra í milli, utan þess, að útgerðin bauðst til að greiða kr 40 kr/kg fyrir ufsa. Þessu tilboði hafnaði áhöfnin og skaut málinu til úrskurðarnefndar í framhaldi þar af.

Samningar áhafna skipa ÚA við útgerð þeirra fól í sér lækkun á verði þorsks frá frá því verði, sem úrskurði nefndarinnar frá 2. febrúar sl. Verður að telja, að ræktarsemi og velvild í garð ÚA og annars starfsfólks félagsins hafi ráðið þessari afstöðu. Af þeirri ástæðu verður að telja, að samningar þessir séu ekki viðmiðunarhæfir að mati úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurður nefndarinnar í máli nr. U1-99: Áhöfn Árbaks EA-308 og Útgerðarfélags Akureyringa hf. var byggður á ítarlegri könnun á þróun fiskverðs og afurðaverðs síðastliðin fjögur ár, eins og áður er getið.

Frá úrskurðardegi hinn 2. febrúar sl. hafa ekki orðið umtalsverðar breytingar á verði þeirra tegunda í beinni sölu, sem fyrir liggur að verðleggja nú, í þeim landshluta, sem Snæfell hf. starfa á, samkvæmt upplýsingum Verðlagstofu skiptaverðs. Sama gildir um þróun afurðaverðs.

Því er það niðurstaða meiri hluta úrskurðarnefndar að leggja beri til grundvallar við uppgjör til áhafnar Björgúlfs EA-312 það verð sem ákveðið var í úrskurði í máli nr. U1-99, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ekki liggur fyrir að verðleggja aðrar fisktegundir en að framan er getið.

Úrskurðarorð:

Verð á eftirtöldum fisktegundum skal tengt markaðsverði, þannig að 77% af magni hverrar tegundar skal reiknað á grunnverði, en 23% magnsins skal reiknað á markaðsverði miðað við verð á Faxamarkaði, Fiskmarkaði Hafnarfjarðar og Fiskmarkaði Suðurnesja.

Grunnverð:

Fisktegund Verð
Þorskur 70,00 Kr/kg
Þorskur undirmál 55,00 Kr/kg
Ufsi 35,00 Kr/kg
Karfi 350-500 gr. 18,00 Kr/kg
Karfi 501-700 gr. 28,00 Kr/kg
Karfi 701-1000 gr. 40,00 Kr/kg
Karfi yfir 1000 gr. 44,00 Kr/kg
Ýsa allar stærðir 75,00 Kr/kg

 

Gildistími úrskurðarins er frá 12.maí 1999 til 10. ágúst s.á.

Að úrskurðinum standa, auk formanns, fulltrúar útgerðar, þeir Kristján Ragnarsson, Sturlaugur Sturlaugsson og Pétur H. Pálsson en gera athugasemdir við röksemdarfærslu formanns og handskrifa athugasemdir sínar samtímis nafnritun sinni.