Fara í efni

Úrskurður nr. 4/2001

Árið 2001, fimmtudaginn 13. desember er haldinn fundur í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna í húsakynnum Farmanna-og fiskimannasambands Íslands að Borgartúni 18 í Reykjavík.

Mættir eru Benedikt Valsson, Helgi Laxdal og Hólmgeir Jónsson frá samtökum sjómanna og vélstjóra, en Friðrik J. Arngrímsson og Sveinn H. Hjartarson mæta af hálfu LÍÚ.

Fyrir er tekið mál nr. U-4/2001:

Málskot Verðlagsstofu skiptaverðs til

úrskurðarnefndar v/ fiskverðssamninga um

verðlagningu á hörpudiski í beinni sölu verkenda

við Breiðafjörð.

Verðlagsstofa skiptaverðs (eftirleiðis VSS) vísaði máli þessu til úrskurðarnefndar með bréfum dags. 3. desember sl. til Sigurðar Ágústssonar ehf. og Þórsness ehf, en báðir þessir aðilar gera út á hörpuskel, sem þeir verka sjálfir. Málið var fyrst tekið fyrir í úrskurðarnefnd 5. desember sl. og frestað til dagsins í dag.

Fulltrúar útgerðarmanna í úrskurðarnefnd lýsa því nú yfir, að þeir mótmæli því, að úrskurðarnefnd fjalli um málið, þar sem þeir líti svo á, að engin lagastoð, sé fyrir afskiptum nefndarinnar af málinu, eins og málsatvikum sé hér háttað. Byggja þeir afstöðu sína á því, að fiskverðssamningar séu í gildi milli útgerða og áhafna þeirra báta, sem hlut eiga að máli og að ekki séu forsendur til vísunar af hálfu VSS skv. 1. mgr. 7.gr.

Fulltrúar sjómanna í úrskurðarnefnd, ásamt formanni nefndarinnar, líta aftur á móti svo á, að úrskurðarnefnd geti og beri að taka efnislega afstöðu til málsins og styðja þá ákvörðun eftirfarandi rökum:

Verðlagsstofa skiptaverðs var sett á fót í tengslum við kjarasamninga útgerðarmanna og sjómanna á vormánuðum 1998. Tilgangurinn með stofnun VSS var einkum sá, að tryggja að fiskverðssamningar, sem útgerðarmönnum er skylt að gera við áhafnir skipa sinna, samkvæmt kjarasamningum, séu með sanngjörnum og eðlilegum hætti. Í 1. gr. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs o.fl. er verksvið VSS markað (hér eftir lögin, sé annað ekki tekið fram). Þar segir: ,,Hlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs er að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum." Lögin veita VSS mjög víðtækar heimildir til að afla upplýsinga og til afskipta af málefnum, sem varða verðlagningu afla og er skylt að skjóta málum til úrskurðarnefndar, þegar ekki liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar að hennar mati, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í máli því, sem hér er til úrlausnar, er aðstaðan sú, að hörpudiskur er eingöngu veiddur og verkaður við Breiðafjörð og standa aðeins þrír aðilar að verkuninni. Þessir verkendur stunda allir veiðar á hörpudiski og hafa allir gert fiskverðssamninga við áhafnir skipa sinna, sem eru samhljóða hvað verð varðar. Verðið er 38,5 kr./kg. fyrir skel sem er stærri en 6 sentimetrar.

Meirihluti úrskurðarnefndar lítur svo á, að túlka verði 2. mgr. 11. gr. laganna með þeim hætti, að fyrirmæli greinarinnar um verðlagningu standi því ekki í vegi, að mál sé tekið fyrir í úrskurðarnefnd, þegar fákeppni hindrar eðlilega verðmyndun og engin samkeppni ríkir milli aflakaupenda. Samningsstaða sjómanna á skipum útgerða, sem þannig aðstöðu hafa skapað sér, er afar slæm. Því hljóti afskipti VSS af slíkum málum að vera í góðu samræmi við þau markmið, sem að var stefnt, með setningu laganna um VSS o.fl. og falla vel að hlutverki Verðlagsstofu.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið, telur meirihluti nefndarinnar að leiða beri mál þetta til lykta með úrskurði.

VSS hefur um nokkurt skeið kannað verð á hörpudiski við Breiðafjörð, verðmyndun hans og viðskiptaumhverfi. VSS ritaði verkendum að hörpuskel bréf dags. 22. nóvember sl. og óskaði upplýsinga um verðlagsforsendur þeirra. Bent var á það í bréfi VSS, að verð á hörpuskel væri óbreytt frá úrskurði úrskurðarnefndar frá nóvembermánuði síðastliðins árs, þrátt fyrir breytingar á verðvísitölu hörpudisks til hækkunar.

Í málskoti sínu til úrskurðarnefndar, dags. 3. þessa mánaðar, er því haldið fram af hálfu VSS, að hækkun afurðaverðs um 8-10% hafi ekki komið fram í hráefnisverði.

Fyrir nefndinni liggur bréf frá Sigurði Ágústsyni ehf og Þórsnesi ehf. dags. 27. nóvember sl. Þar kemur m.a. fram að umhverfi sé breytt frá því sem var, nýting sé verri, meiri vinnslukostnaður og meira í smærri afurðaflokka. Sig. Ágústsson ehf. sendi jafnframt upplýsingar um framleiðslutölur þann 30. nóv. sl, en þar kom fram að nýting hafi versnað um 17,2% frá síðasta ári. Einnig hefur verið lagt fyrir nefndina bréf frá Sigurði Ágústssyni ehf. dags. 3. des. sl. Þar er bent á, að sjómenn hafi ekki sagt upp fiskverðssamningum og geti það m.a. stafað af því, að sjómönnum sé kunnugt um lélegri hráefnisnýtingu en áður. Niðurlag bréfsins er svohljóðandi: ,, Miðað við það verð sem nú er greitt fyrir hörpudisk er engin ástæða til einhliða afskipta Verðlagsstofu og úrskurðarnefndar og líklega önnur verkefni nærtækari."

Við efnismeðferð málsins urðu málsaðilar, þ. e. fulltrúar sjómanna annars vegar og fulltrúar útvegsmanna sammála um að ljúka málinu með svofelldri

Sátt:

Sigurður Ágústsson ehf. og Þórsnes ehf. skulu við uppgjör til áhafna skipa sinna, sem stunda veiðar á hörpuskel miða við kr./kg. 40.3.

Skúli J. Pálmason
Sveinn Hjörtur Hjartarson
Friðrik Jón Arngrímsson
Hólmgeir Jónsson
Benedikt Valsson
Helgi Laxdal