Fara í efni

Úrskurður nr. 4/2002

Ár 2002, þriðjudaginn 30. júlí, er haldinn fundur í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna í húsakynnum Landsambands ísl. útvegsmanna.

Mættir eru: Árni Bjarnason frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands Friðrik J. Arngrímsson og Sveinn H. Hjartarson frá Landsambandi ísl. útvegsmanna, Jóhanna Eyjólfsdóttir, frá Vélstjórafélagi Íslands, Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands auk oddamanns Valtýs Sigurðssonar, sem varaformanns nefndarinnar.

Fyrir er tekið málið U 4/2002

Sjómannasamband Íslands f.h. áhafnar Sturlaugs H. Böðvarssonar AK- 10

gegn Haraldi Böðvarssyni hf.

Í málinu var kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

I.

Málsmeðferð nefndarinnar.

Með bréfi, dagsettu 20. júní 2002, vísaði Sjómannasamband Íslands (SSÍ) máli þessu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna þar sem ekki hafði náðst samkomulag um fiskverð milli áhafna umrædds skip og útgerðar þess. Erindið var tekið fyrir á fundi úrskurðarnefndar 26. júní sl. og þá ákveðið að kalla til formann en ljóst var að ekki næðist samkomulag í málinu.

Á fundi nefndarinnar 1. júlí sl. með formanni var ákveðið að sóknaraðili skilaði greinargerð 4. júlí en sá frestur var framlengdur til 5. júlí. en þá barst greinargerð sóknaraðila. Greinargerð varnaraðila er dagsett 10. júlí sl. og barst sama dag. Vegna sumarleyfa nefndarmanna reyndist erfitt að koma á fundi en samkomulag varð um að fresta fyrirhugðuðum fundum tvívegis vegna fjarveru nefnarmanna til dagsins í dag. Á fundi nefndarinnar í dag voru gögn málsins lögð fram. Þá tjáðu aðilar sig um fram komnar kröfur og færðu fram rök fyrir þeim. Málið var að því búnu lagt í úrskurð.

II.

Kröfur sóknaraðila og sjónarmið eru eftirfarandi:

Fisktegund Stærð Verð Athugasemdir
Þorskur Grunnverð á 1,5 kg fiski er 111 kr/kg og hækkar um 2,60 kr á hver 100 gr. að 2,0 kg. fiski.   Nálgun við Granda verð, erum opnir fyrir sömu
Þorskur Grunnverð á 2,0 kg fiski er 124 kr og hækkar um 1,40 kr á hver 100 gr að 3,0 kg fiski.   reiknireglu og hjá Granda en þarsem tölvukerfi
Þorskur Grunnverð á 3,0 kg fiski er 138 kr og hækkar um 0,70 kr á hver 100 gr að 4,0 kg fiski.   HB ræður ekki við þá reglu, komum við með
Þorskur Grunnverð á 4,0 kg fiski er 143,75 kr og hækkar um 0,4 kr á hver 100 gr að 5,0 kg fiski.   þessa útfærslu.
Þorskur 5 kg fiskur 147,75  
Þorskur Undirmál   Fer á markað eða greitt á markaðsverði að frádregnum
Ýsa Allar stærðir * Fer á markað eða greitt á markaðsverði að frádregnum
Ýsa Undirmál * Fer á markað eða greitt á markaðsverði að frádregnum
Ufsi Yfir 4 kg 62 Flokkast um borð, eftir því sem unnt er. Stefna þarf að
Ufsi Undir 4 kg 50 endurskoðun á Ufsaverði, með tilliti til hækkunar.
Karfi 1000 gr. og yfir 75,9  
Karfi 700 - 1000 gr. 64,9  
Karfi 500 - 700 gr. 54,45  
Karfi 350 - 500 gr. 46,75  
Karfi Undir 350 gr. 1,5  
Úthafskarfi Allar stærðir *  

úthafskarfi. * Sama verð og af heimaslóð, en ef mikið sýktur, þá er heimilt að verðfella um alltað 10%.

Annað

Þorskur yfir 5 kg og undirmál, flokkast frá um borð og fer á markað eða greiðist á markaðsverði að frádregnum markaðskostnaði.
Gotu verði skift eftir sömu reglum og áður.
Hlutlaus aðili annast vigtun, stærðar- og gæðamat.


Gildistími: 01.03.2002 - 31.12.2002. Uppsagnarfrestu er 1 mánuður. Sé samningi ekki sagt upp, innan tilskilins frests, framlengist hann um mánuð í senn.

Niðurstuður atkvæðargreiðslu um borð í AK10 varðandi síðasta tilboð frá HB fóru þannig að
15 voru á móti og 1 greiddi með.

Þetta tilboð sendum við inn þann 10/5 2002 óskum eftir úrskurði
F.H áhafnar Guðmundur Einarsson og Sturla Aðalsteinsson

 

Rökstuðningur sóknaraðila er byggður á 1. gr. laga nr. 13/1998, með síðari breytingum, en fyrir liggi að þau markmið hafi ekki náðst, sem gerðardómur skv. 2. gr. laga nr. 34/2001 mælti fyrir um að skyldu nást þann 1. júní 2002, sbr. 3. tölulið í úrskurðarorði dómsins. Telur sóknaraðili að eðlilegt hefði verið að bíða með ákvörðun þar til maí tölur um fiskverð liggja fyrir en að þeim tölum fengnum liggi ljóst fyrir hvað mikið vantar á að markmiðin hafi náðst. Ekki sé óvarlegt að ætla, miðað við fyrirliggjandi staðreyndir, að þær viðmiðunartölur sem Verðlagsstofa skiptaverðs gaf út í febrúar 2002 þyrftu að hækka ef það er ætlun úrskurðarnefndar og Verðlagsstofu skiptaverðs að verða við lagafyrirmælum og stuðla að því að markmið gerðardóms náist á næstu mánuðum. Áætla megi að verð á þorski í beinum viðskiptum þyrfti að vera um 10% hærra en það varð í raun miðað við 12 mánaða meðaltal mánuðina júní 2001 til og með maí 2002 til að markmið gerðardómsins væru uppfyllt. Nú sé því lag til að ákvarða fiskverð með tilliti til markmiðssetningar gerðardómsins. Þó ljóst sé að markmiðin hafi ekki náðst þann 1. júní s.l. geti úrskurðarnefndin gert yfirbót með því að samþykkja fiskverðskröfur áhafnarinnar á Sturlaugi H Böðvarssyni eins og þær liggi fyrir nefndinni. Það sé því krafa fulltrúa Sjómannasambands Íslands í úrskurðarnefnd að tilboð áhafnarinnar um fiskverð verði samþykkt óbreytt enda allar ákvarðanir um lægra fiskverð bein ákvörðun um að fara ekki að fyrirmælum laga um að stuðla að því að markmið gerðadóms náist. Hún sé því vísvitandi ákvörðun um að brjóta lög og koma í veg fyrir að markmið gerðardóms náist á viðunandi tímamörkum.

Kröfur útgerðar og sjónarmið varnaraðila eru eftirfarandi:

Af hálfu varnaraðila er gerð sú krafa að það verð, sem úrskurðarnefnd komst að samkomulagi um að gildi fyrir þorsk og karfa á ísfisktogurum Útgerðarfélags Akureyringa hf þann 15. mars sl., mál Ú3/2002, gildi einnig í máli þessu. Varðandi ufsa er þess krafist að hann verði verðlagður miðað við það sem algengast er í beinum viðskiptum miðað við svæði, gæði og stærð. Varnaraðili byggir á því að framangreind krafa um verð á þorski og karfa sé í fullu samræmi við þau markmið sem aðilar hafa unnið að og það viðmiðunarverð sem aðilar hafa orðið ásáttir um að hafa til hliðsjónar að sameiginlegu markmiði í samræmi við úrskurð gerðardóms skv. 2. grein laga nr. 34/2001.

Samkvæmt upplýsingum af vefslóð Verðlagsstofu skiptaverðs hafi verð á þorski og karfa ekki að fullu náð því hlutfalli af vegnu meðalverði verðs í beinum viðskiptum og markaðsverðs sem kveðið er á um í úrskurði gerðardóms, skv. lögum nr. 34/2001. Hafi þetta legið fyrir um nokkurn tíma og verið m.a. ljóst þann 15. mars sl. þegar verð var ákveðið á skipum Útgerðarfélags Akureyringa hf.. Ástæður þessa séu þær helstar að þegar samningaviðræður aðila stóðu yfir á fyrrihluta árs 2001, sem leiddu til þess fyrirkomulags að tengja fiskverð í beinum viðskiptum við verð á innlendum fiskmörkuðum, hafi aðilar unnið með upplýsingar ársins 2000. Aðilum hafi ekki verið ljóst þegar kjarasamningur útvegsmanna og vélstjóra var undirritaður þann 9.5.2001, sem síðar var tekinn upp af gerðardómi, hvað fiskverð í beinum viðskiptum hafði fjarlægst verð á fiskmörkuðum á fyrstu mánuðum ársins 2001. Nú liggi upplýsingar um fiskverð fyrr fyrir en var á þessum tíma.

Vorið 2001 hafi stjórnvöld ákveðið að hætta að verja vikmörk íslensku krónunnar og taka í staðinn upp verðbólgumarkmið við stjórnun peningamála. Við það hafi gengi krónunnar fallið umtalsvert sem leiddi til hækkunar á verði á fiskmörkuðum. Gengisáhrif komi ekki eins fljótt fram í beinum viðskiptum skyldra aðila og á fiskmörkuðum. Það hafi því tekið nokkurn tíma, bæði vegna sumarleyfa og þess hve umfangsmiklar aðgerðir var um að ræða, að koma því ferli á, sem samið var um í kjarasamningi útvegsmanna og vélstjóra og ákveðið var af gerðardómi skv. lögum nr. 34/2001.

Ljóst sé af framlögðum gögnum að stakkaskipti hafi orðið á síðustu mánuðum enda hafi fiskverð í beinum viðskiptum verið hækkað mikið og sé þegar komið að efri þanmörkum. Engar nýjar forsendur hafi skapst sem réttlæti frekari hækkun á fiskverði, en ákveðið var í máli Ú3/2002. Þvert á móti mæli veruleg styrking á gengi íslensku krónunnar undanfarið og lækkun á saltfiskverði með lækkun á fiskverði.

III.

Forsendur og niðurstaða.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira, var sérstökum gerðardómi falið að ákveða kjaramál fiskimanna í þeim samtökum sem nefnd voru í 1. gr. laganna. Meðal atriða er gerðardómurinn skyldi ákveða var a: "atriði er tengjast markmiðum varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum á þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila."

Með lögunum var jafnframt aukið við 1. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna sem varð 2. mgr. 1. gr. og er svohljóðandi: ,,Hafi samtök útvegsmanna og sjómanna gert með sér samkomulag um tiltekin markmið um viðmið varðandi verðlagningu á fiski við uppgjör á aflahlut sjómanna á gildistíma kjarasamnings eða ákvarðanir um slíkt hafa verið teknar með öðrum skuldbindandi hætti skulu Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, sbr. II. kafla, stuðla að því með störfum sínum að þau markmið nái fram að ganga."

Sóknaraðili vísar til þessarar lagagreinar til stuðnings kröfum sínum í málinu.

Í niðurstöðu gerðardómsins frá 30. júní 2001 voru sett fram ákveðin markmið um verðlagningu á þorski, ýsu og karfa, slægðum og óslægðum í samræmi við umsamin markmið í kjarasamningi Vélstjórafélag Íslands og LÍU frá 9. maí 2001. Þar er markmiðum nánar lýst og útlistað hvernig haga skuli útreikningi svo að þeim verði náð. Í gerðardómnum er mælt svo fyrir um að markmiðum skuli náð fyrir 1. júní 2002. Er Verðlagsstofu skiptaverðs falið að annast alla nánari útreikninga og framsetningu og skera úr hugsanlegum ágreiningi sem upp kunni að koma um túlkun á efnisatriðum. Þá er kveðið á um að Landssamband íslenskra útvegsmanna skuli með þátttöku sinni í úrskurðarnefnd, skv. lögum nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs o. fl. beita sér fyrir því, ef á þurfi að halda, að markmiðin náist.

Með setningu 2. mgr. 1. laga nr. 13/1998 var 11. gr. sömu laga ekki fellt út gildi en þar er kveðið á um hin almennu atriði sem úrskurðarnefnd ber að leggja til grundvallar við ákvörðun sína um fiskverð. Með setningu hinnar nýju málsgreinar hefur löggjafinn því bætt við atriði sem hafa ber til hliðsjónar við verðákvörðun nefndarinnar. Þannig verður nefndin, jafnframt því að stuðla að því með störfum sínum að markmið gerðardómsins nái fram að ganga að líta til hinna almennu atriða 11. gr. að því marki sem það á við. Úrskurðarnefnd hefur ítrekað í úrskurðum sínum túlkað ákvæði 11. gr. þannig að ekki verður nánar um hana fjallað hér.

Hins vegar ber sérstaklega til þess að líta að með lögum 34/2001 var gerðardómi falið að ákveða kjaramál sjómanna með þeim hætti að ákveða markmið varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum ákveðinna fiskteguna í beinum viðskiptum skyldra aðila.

Svo sem áður sagði hefur Verðlagsstofa skiptaverðs aflað gagna fyrir nefndinni og skýrt þær forsendur sem hún hefur unnið eftir.

Þannig birti Verðlagsstofa í samráði við fulltrúa sjómanna og útvegsmanna í úrskurðarnefnd svokallað viðmiðunarverð eða lágmarksverð fyrir þorsk, ýsu og karfa í þeim tilgangi að markmið um fiskverð í framangreindum tilvísunum náist. Fyrst í ágúst 2001 og því næst í október. Þegar sýnt var að þessar hækkanir dygðu engan vegin til þess að ná settum markmiðum voru í þriðja sinn gefin út ný lágmarksverð í desember sl. Þar sem fulltrúar sjómanna í úrskurðarnefnd töldu hækkunina of væga hafi verið gefin út ný viðmiðunarverð í febrúar sl. Miðað við framreikninga í apríl sl. var þó ljóst að markmið næðust ekki á tilsettum tíma. Hins vegar var ljóst en lágmarksviðmiðunarverð á þorski hafði hækkað um 38% og á karfa um 35% frá því í ágúst 2001.

Verðlagsstofa bendir á að stofnunin hafi undanfarna mánuði fylgst grannt með gangi mála, m.a. gengi helstu viðskiptamynta, afurðaverði erlendis og verði á innlendum fiskmörkuðum. Að óbreyttum ytri aðstæðum eins og þær voru fyrir sl. áramót þá hefði stofan mælt með einhverri hækkun fiskverðs í apríl sl., en að teknu tilliti til ytri aðstæðna þá telur stofan það óráðlegt miðað við ríkjandi kringumstæður. Frá desember 2001 og til maí 2002 hefur afurðaverð á landfrystum þorski lækkað um 10% og um 15% á söltuðum þorski. Talsverðar erlendar verðlækkanir hafi orðið á saltfiski, en verðlækkun í íslenskum krónum stafi að stærstum hluta af gengishækkun krónunnar. Gengisþróun frá því í maí gefi ekki til kynna að breytingar hafi orðið til batnaðar á afurðaverði í íslenskum krónum.

Sé litið yfir tímabilið maí 2001 til maí 2002 þá hafi verð á frystum þorskafurðum lækkað lítillega, eða um 4%, og saltaður þorskur lækkað um 11%. Á sama tíma hafi meðalþorskverð á innlendum mörkuðum nánast staðið í stað, eða lækkað um 3%. Hins vegar hafi meðalverð á þorski í beinum viðskiptum hækkað um 32%. Afurðaverð á frystum karfa hafi lækkað lítillega á tímabilinu, en meðalverð í beinum viðskiptum á ísuðum karfa hafi hækkað um tæp 40%.

Af hálfu Verðlagsstofu er bent á að hún hafi gefið úrskurðarnefnd til kynna fyrr á árinu að markmið varðandi verð á þorski, ýsu og karfa myndu ekki nást á tilsettum tíma. Mat stofunnar þá hafi verið að fiskverðshækkun á sama tíma og afurðverð í íslensku krónum lækkaði umtalsvert, væri óráðleg. Það mat stofunnar hafi ekki breyst. En benda megi á að vegið meðalverð í beinum viðskiptum nálgist markmið um fiskverð miðað við tölur síðustu mánaða.

Úrskurðarnefnd telur að ekki hafi verið sýnt fram á að upplýsingar Verðlagsstofu, sem frammi liggja í málinu, séu ekki réttilega unnar, eða að þær séu byggðar á ólögmætum sjónarmiðum. Það er hins vegar hlutverk úrskurðarnefndar að leggja mat á þessar upplýsingarnar, skoða þær aðferðir sem þær byggja á og túlka niðurstöður þeirra.

Ekki er ágreiningur um verð milli aðila á ýsu sem miðast við verð á markaði. Hvað varðar verð á karfa þá eru kröfur aðila settar upp á mismunandi hátt þrátt fyrir að á þeim sé ekki sjáanlegur verðmunur þegar á heildina er litið að mati Verðlagsstofu. Er því krafa sóknaraðila tekin til greina með athvæði formanns og fulltrúa sóknaraðila.

Hvað varðar verð ufsa þá er krafa sóknaraðila í samræmi við þau verð sem algengust eru í beinum viðskiptum miðað við gæði og stærð á veiðisvæði. Ber því að taka þau verð til greina.

Varðandi verðlagningu á þorski almennt þá telur formaður að fallast beri á að ekki sé forsenda fyrir hækkun nú á þorski þar sem markmið muni nást á næstu mánuðum að öðru leyti en því að formaður leggur til að grunnverð á þorski undir 3 kg. hækki í 100 kr/kg. Samkvæmt því ræðst verð á þessu þyngdarbili á þorski af atkvæði formanns og fulltrúa sóknaraðila. Að öðru leyti vísast í úrskurðarorð.

Úrskurður þessir gildir frá 20.06.2002 til 20. 09.2002.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Varnaraðili, Haraldur Böðvarsson hf, skal við uppgjör til sóknaraðila, áhafnar Sturlaugs H. Böðvarssonar AK-10 miða við eftirfarandi verð:

Þorskur:

Verð á undirmáli skal vera 90 kr/kg. í viðskiptum aðila eða markaðsverð. Fyrir þorsk undir 3 kg að þyngd skal greiða grunnverð kr. 100 á kg. Grunnverð skal hækka um kr. 1,80 á kg fyrir hver 100 g sem fiskurinn er yfir 1 kg að þyngd. Fyrir þorsk 3 kg og þyngri skal greiða grunnverð kr. 133,90 á kg. Grunnverð skal hækka um kr. 1,00 á kg fyrir hver 100 g sem fiskurinn er þyngri en 3 kg.

Karfi  
Undir 350 g 1.5 kr/kg
350-500 g 46.75 kr/kg
500-700 g 54.45 kr/kg
700-1000 64.9 kr/kg

 

Ufsi  
Yfir 4 kg 62 kr/kg
Undir 4 kg 50 kr/kg

Verð á öðrum tegundum fer eftir samkomulagi aðila svo og almennar forsendur og skilmálar.

Úrskurður þessir gildir frá 20.06.2002 til 20. 09.2002.

Valtýr Sigurðsson
Friðrik J. Arngrímsson
Sveinn Hj. Hjartarson
Árni Bjarnason
Jóhanna Eyjólfsdóttir
Sævar Gunnarsson