Fara í efni

Úrskurður nr. 4/2014

Föstudaginn 23. janúar 2015 er kveðinn upp úrskurður í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna skv. lögum nr. 13/1998.

Fyrir er tekið mál nr. Ú4/2014:

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi

gegn

hjá Helgu Maríu AK 16.

Atvik og sjónarmið aðila:

Mál þetta á rætur sínar að rekja til þess að samningar hafa ekki tekist milli útgerðarinnar HG Granda hf. og áhafnar Helgu Maríu AK 16 um fiskverð. Drög að slíkum samningum voru felld af hálfu áhafnar í atkvæðagreiðslu þann 8. desember 2014 og 6. janúar 2015.

Málskotið byggir á 2. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna þar sem kemur fram að heildarsamtök útvegsmanna, sem standa að tilnefningu úrskurðarnefndar skv. 8. gr. laganna, geti hver um sig skotið máli til úrlausnar nefndarinnar þegar áhöfn og útgerð hafa ekki náð samningum um fiskverð. Málinu var fyrst skotið til úrskurðarnefndarinnar 20. desember 2014. Í ljósi nýrra upplýsinga frá útgerð um að fulltrúi útgerðar myndi bera lagfærð samningsdrög undir áhöfn var málskoti frestað til 6. janúar 2015. Eins og fram hefur komið voru þau samningsdrög ekki samþykkt af hálfu áhafnar.

Í 13. gr. laga nr. 13/1998 kemur fram að þegar eftir að máli er skotið til úrskurðar úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna skuli þeir nefndarmenn, sem tilnefndir eru af heildarsamtökum sjómanna annars vegar og útvegsmanna hins vegar, taka málið til umfjöllunar og skal ákvörðun þeirra liggja fyrir innan fjórtán daga. Það þýðir að umræddir nefndarmenn höfðu frá 6. janúar til 20. janúar 2015 til að ná samkomulagi vegna þess máls. Þann 16. janúar 2015 bárust upplýsingar um að ekki næðist samkomulag í málinu og var því skotið til fullskipaðrar nefndar þann dag. Fullskipuð nefnd kom saman mánudaginn 19. janúar 2015 og samþykkti meirihluti nefndarinnar, formaður og fulltrúar útgerðar, að fiskverð ætti að vera í samræmi við viðmiðunartöflur um fiskverð sem byggjast á samkomulagi úrskurðarnefndarinnar sjálfrar og birtar eru á heimasíðu Verðlagsstofu skiptaverðs. Fulltrúar samtaka sjómanna greiddu atkvæði á móti.

NIÐURSTAÐA

Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna skal, skv. 11. gr. laga nr. 13/1998, við ákvörðun sína um fiskverð taka mið af því verði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Í 2. mgr. 1. gr. sömu laga kemur fram að hafi samtök útvegsmanna og sjómanna gert með sér samkomulega um tiltekin markmið um viðmið varðandi verðlagningu á fiski við uppgjör á aflahlut sjómanna á gildistíma kjarasamnings eða ákvarðanir um slíkt hafi verið teknar með öðrum skuldbindandi hætti skuli úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, sem og Verðlagsstofa skiptaverðs, stuðla að því með störfum sínum og úrskurðum að þau markmið nái fram að ganga.

Það liggur fyrir að úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna hefur náð samkomulagi um fiskverð vegna aflategunda sem Helga María AK 16 landar. Það samkomulag kemur fram í fundargerðum reglulegra funda úrskurðarnefndarinnar og upplýsingar um viðmiðunarverð eru strax í kjölfarið birtar á heimasíðu Verðlagsstofu skiptaverðs, á slóðinni: www.verdlagsstofa.is.

Í máli þessu hafa ekki verið lagðar fram nokkrar upplýsingar um það að umrædd viðmiðunarverð séu í ósamræmi við það verð sem algengast er í skilningi 11. gr. laga nr. 13/1998 auk þess sem úrskurðarnefnd er bundin af fyrirmælum fyrrnefndrar 2. mgr. 1. gr. laganna um að stuðla að því að markmið samkomulags þess sem nefndin hefur komist að, nái fram að ganga.

Í ljósi þessa er ákveðið að fiskverð útgerðarinnar HB Granda hf. til áhafnar Helgu Maríu Ak 16 taki mið af viðmiðunarverðum sem úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna birtir á heimasíðu Verðlagsstofu skiptaverðs hverju sinni.

Úrskurðarorð

Fiskverð útgerðarinnar HB Granda hf. til áhafnar Helgu Maríu AK 16 skal taka mið af birtum viðmiðunarverðum.

Þóra Hallgrímsdóttir
Friðrik Friðriksson
Sveinn Hjörtur Hjartarson