Fara í efni

Úrskurður nr. 5/1999

Ár 1999, föstudaginn 22. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna að Hafnarhvoli við Tryggvagötu, Reykjavík. Mættir voru Benedikt Valsson, Helgi Laxdal, Kristján Ragnarsson, Sveinn Hjörtur Hjartarson Sævar Gunnarsson auk oddamanns Valtýs Sigurðssonar

 

Fyrir er tekið málið nr. U 5/1999,

heildarsamtök sjómanna f.h. áhafna

Múlabergs ÓF-32, Stálvíkur SI-1, Sólbergs ÓF-12 og Sigluvíkur SI-2

gegn

Þormóði ramma - Sæbergi hf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

I.

Með bréfi, dags. 6. október sl., vísaði Sjómannasamband Íslands f.h. áhafna Múlabergs ÓF-32, Stálvíkur SI-1, Sólbergs ÓF-12 og Sigluvíkur SI-2 til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna ágreiningi við Þormóð ramma- Sæberg hf. um verð fyrir ísrækju.

Erindið var tekið fyrir á fundi nefndarinnar þann 11. október sl. og þá ákveðið að kalla til oddamann þar sem ljóst var að ekki yrði samkomulag um málið. Ákveðið var að heildarsamtök sjómanna fh. áhafnanna yrðu sóknaraðilar málsins.

Sóknaraðili skilaði greinargerð, dags. 14. október sl., og greinargerð varnaraðila er dags. 20. október sl. Verðlagsstofa skiptaverðs hefur aflað gagna fyrir nefndina.

Á fundi nefndarinnar í dag voru gögn þessi lögð fram. Þá tjáðu aðilar sig um fram komnar kröfur og færðu fram rök fyrir þeim. Málið var síðan lagt í úrskurð.

 

II.

Kröfur sóknaraðila og helstu sjónarmið

Sóknaraðili krefst eftirfarandi verðs á ísaðri rækju frá 6. október 1999 til 6. janúar 2000.

Rækja  
230 stk. og færri í kg 104,00 kr/kg
231 stk til 290 stk. í kg 93,00 kr/kg
291 stk til 350 stk. í kg 64,00 kr/kg
351 stk. og fleiri í kg. 40,00 kr/kg

 

Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 30. desember 1998 milli sömu aðila var kveðið á um að varnaraðili skyldi miða uppgjör sitt til áhafna sömu skipa og hér um ræðir við eftirfarandi verð:

Rækja  
230 stk. og færri í kg 94,00 kr/kg
231 stk til 290 stk. í kg 84,00 kr/kg
291 stk til 350 stk. í kg 58,00 kr/kg
351 stk. og fleiri í kg. 36,00 kr/kg

 

Verð þetta skyldi gilda tímabilið frá 17. desember 1998 til 1. mars 1999.

Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að í þeim gögnum sem Verðlagsstofa skiptaverðs hafi lagt fyrir úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna um verð á ísrækju komi fram að varnaraðili greiði mun lægra verð til sinna skipa en önnur skip séu að fá fyrir sambærilegt hráefni. Í þessu sambandi sé rétt að benda á að varnaraðili hafi sl. sumar keypt afla af skipi í eigu annarrar útgerðar og greitt 100 kr/kg fyrir þá rækju, eða mun hærra en til eigin skipa.

Í desember 1998 hafi meðalverð á ísrækju verið um 91 kr/kg, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Verðlagsstofu skiptaverðs. Í janúar og febrúar 1999, eða á gildistíma úrskurðarins hafi meðalverð á ísrækju verið 96 - 97 kr/kg samkvæmt sömu heimildum.

Samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina nú hafi meðalverð á ísrækju verið 99 - 100 kr/kg í júní, júlí og ágúst, eða um 10% hærra en í desember 1998 þegar rækjuverð fyrir skip varnaraðila var síðast ákveðið. Meðalverð á skipum varnaraðila sé því mun lægra en meðalverðið og dragi meðalverðið niður framangreinda mánuði þar sem skip þeirra afla um 10 - 14% af því hráefni sem landað hafi verið í framangreindum mánuðum. Þetta megi sjá af töflu sem unnin sé upp úr gögnum Verðlagsstofu skiptaverðs. Hún sýni annars vegar meðalverð á ísrækju án skipa varnaraðila og hins vegar það meðalverð sem greitt hafi verið til skipa varnaraðila mánuðina maí - ágúst 1999.

  án þormóðs ramma Þormóður rammi Samtals
  tonn kr/kg tonn kr/kg tonn kr/kg
Maí 1.164,40 99,48 294,1 93,71 1.458,40 98,31
Júní 1.792,80 100,28 287,6 92,83 2.080,40 99,25
Júlí 2.371,90 99,94 305,9 93,76 2.677,80 99,23
Ágúst 2.319,20 101,47 279,6 91,92 2.598,80 100,44

 

Ljóst sé af gögnum Verðlagsstofu að ásamt varnaraðila séu nokkur fyrirtæki sem greiði áberandi lægra verð fyrir ísrækju en almennt gerist. Þau skip sem séu að fá lægra eða sambærilegt verð og skip varnaraðila séu nú flest hætt rækjuveiðum og því ljóst að meðalverðið eigi enn eftir að hækka af þeim sökum. Eins og fram komi í töflunni vanti nú rúm 10% á að það verð sem varnaraðili greiddi til eigin skipa í ágúst sl. nái því meðalverði sem aðrir hafi greitt fyrir ísrækjuna. Ljóst sé einnig að þessi verðmunur muni að öllu óbreyttu ekki minnka á næstunni.

Samkvæmt 11. grein laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, skuli úrskurðarnefnd við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa skiptaverðs hefur safnað og því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Auk þess segi skýrt í kjarasamningum milli sjómanna og útvegsmanna að útgerðarmaður hafi með höndum sölu aflans og skuli hann tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn. Því er það sanngjörn krafa að verð til sjómanna á skipum varnaraðila hækki í samræmi við ofangreinda kröfu fulltrúa sjómanna í úrskurðarnefndinni.

Kröfur varnaraðila og helstu sjónarmið.

Varnaraðili hafnar kröfum sóknaraðila og krefst þess að rækjuverð sé óbreytt frá gildistöku úrskurðar í nefndinni og næstu þrjá mánuði frá honum að telja.

Bendir varnaraðili á að samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar hafi markaðsverð lækkað frá því í desember 1998 úr 77,6 stigum í 73,9 stig í ágúst 1999 fyrir pillaða rækju, sem sé um 4,8% lækkun.

Varðandi fullyrðingar sóknaraðila um hærra verð fyrir aðkeyptan afla af ótengdu skipi sé á það bent að tiltekið skip hafi verið gert út í takmarkaðan tíma yfir hásumarið en skip varnaraðila hafi nægan kvóta til þess að vera gert út allt árið. Hér hafi því augljóslega verið fengið aðkomuskip í tímabundin viðskipti við fyrirtækið.

Í kröfugerð sóknaraðila sé fullyrt að skip sem fengu sambærilegt verð og varnaraðili greiði, hafi hætt veiðum. Þessum fullyrðingum er vísað á bug enda sé þessu öfugt farið þar sem það séu skip sem hafa fengið hæsta verðið sem hætt hafi veiðum.

Af hálfu varnaraðila er ítrekað að verð á rækju hjá Þormóði ramma hf. víki ekki óeðlilega frá rækjuverði almennt.

III.

Forsendur og niðurstaða

Í 11. grein laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, segir:

"Úrskurðarnefnd skal við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa skiptaverðs (Sic) hefur safnað.

Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin tala tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs…..".

Ákvæði 2. mgr. 11. gr. laganna er samhljóða 2. mgr. 5. gr. fyrri laga um úrskurðarnefnd nr. 84/1995. Nefndin hefur í úrskuðum sínum talið að þar sem segir "algengst fiskverð við sambærilega ráðstöfun afla" sé átt við meðalverð enda hljóti það að endurspegla algengasta verðið.

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi keypt ísrækju af skipi í eigu annarrar útgerðar á 100 kr/kg sl. sumar. Af hálfu varnaraðila er á það bent að um hafi verið að ræða tímabundin viðskipti yfir sumarið.

Upplýst hefur verið undir rekstri málsins að um sé að ræða skip, sem landað hafi hjá varnaraðila frá júní til ágúst sl. ár. Úrskurðarnefnd telur að líta verði til þess verðs sem varnaraðili greiddi fyrir afla þessa skips við úrlausn málsins.

Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að meðalverð ísrækju eigi eftir að hækka af þeim sökum að þau skip sem hafi verið að fá lægst meðalverð hafi hætt veiðum. Af hálfu varnaraðila er þessu mótmælt og því haldið fram að þessu sé öfugt farið þar sem þau skip sem fengið hafi hæsta verðið hafi hætt veiðum. Málsaðilar hafa munnlega ekki getað lagt fram frekari upplýsingar þessum fullyrðingum til stuðnings. Úrskurðarnefnd mun því ekki taka tillit til þessa þáttar í ákvörðun sinni.

Af hálfu varnaraðila er ekki mótmælt því sem fram kemur af hálfu sóknaraðila að meðalverð á ísrækju frá desember 1998 til og með febrúar 1999 og frá júní til og með ágúst 1999 hafi verið um 10% hærra en verð það sem varnaraðili greiddi sóknaraða.

Í gögnum Verðlagsstofa skiptaverðs, sem liggja fyrir úrskurðarnefnd, má sjá að vegið meðalverð í maí júní júlí og ágúst sl. á ísrækju samkvæmt upplýsingum frá Fiskifélagi Íslands nemur 99,44 kr/kg. Samkvæmt sömu upplýsingum er meðalverð báta varnaraðila 93,08 kr/kg. Frávikið frá meðalverði er því 6,8 %

Óumdeilt í málinu er að markaðsverð pillaðrar rækju hefur lækkað frá desember 1998 til ágúst 1999 um 2,6% í ísl. krónum. Ber að taka tillit til þess við ákvörðun um verð á ísrækju til sóknaraðila

Samkvæmt úrskurði nefndarinnar milli sömu aðila frá 30. desember 1998 var gildistími hans til 1. mars 1999. Svo sem áður hefur komið fram skaut sóknaraðili ágreiningi sínum um verð á ísrækju við varnaraðila til úrskurðarnefndar með bréfi dags. 6. október sl. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1998 nær ákvörðun nefndarinnar til verðs fyrir afla sem landað er eftir að máli er skotið til hennar ef ákvörðun varðar viðskipti milli skyldra aðila, segir. 2. mgr. 9. greinar laganna. Þar til sóknaraðili hefur skotið ágreiningi sínum við varnaraðila til nefndarinnar ber að líta svo á að í gildi sé samningur milli aðila um verð fyrir afla. Verður að líta til þess samningsverð við útreikninga á vegnu meðalverði þar til því hefur verið breytt. Af því leiðir að hafna ber þeirri málsástæðu sóknaraðila að taka beri tillit til þeirra lækkunaráhrifa sem samningar málsaðila hafa á vegið meðalverð ísrækju fyrir þann tíma er sóknaraðili skaut máli sínu til úrskurðarnefndar.

Þegar tekið hefur verið mið af þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið rakin ákveðst verð á ísrækju til sóknaraðila sem hér segir:

Rækja  
230 stk. og færri í kg  99,00 kr/kg
231 stk til 290 stk. í kg 88,00 kr/kg
291 stk til 350 stk. í kg 61,00 kr/kg
351 stk. og fleiri í kg. 38,00 kr/kg

 

Verð þetta gildir frá 6. október 1999 til 6. janúar 2000.

Áður en til úrskurðar kom vék Benedikt Valsson af fundi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Varnaraðili, Þormóður Rammi – Sæberg hf., skal miða uppgjör sitt til áhafna Múlabergs ÓF-32, Stálvíkur SI-1, Sólbergs ÓF-12 og Sigluvíkur SI-2 við eftirfarandi verð:

 

Rækja  
230 stk. og færri í kg 99,00 kr/kg
231 stk til 290 stk. í kg 88,00 kr/kg
291 stk til 350 stk. í kg 61,00 kr/kg
351 stk. og fleiri í kg. 38,00 kr/kg

 

Verð þetta gildir frá 6. október 1999 til 6. janúar 2000.

Valtýr Sigurðsson

Með fyrirvara um að þessi úrskurður hafi ekki áhrif til sektargreiðslna í sjóði Vélstjórafélags Íslands.

Kristján Ragnarsson
Sveinn Hj. Hjartarson