Fara í efni

Úrskurður nr. 6/2001

Árið 2002, miðvikudaginn 23. janúar er haldinn fundur í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna í húsakynnum Landsambands ísl. útvegsmanna (LÍÚ) að Hafnarhvoli, Tryggvagötu 11 í Reykjavík.

Mættir eru, Árni Bjarnason, Helgi Laxdal og Hólmgeir Jónsson frá samtökum sjómanna og vélstjóra, en Friðrik J. Arngrímsson og Sveinn H. Hjartarson mæta af hálfu LÍÚ. Einnig er Skúli J. Pálmason, formaður úrskurðarnefndar mættur.

Fyrir er tekið mál nr. U-6/2001:

Landsamband ísl. útvegsmanna

f.h. Skinneyjar-Þinganess hf.

gegn

Farmanna-og fiskimannasambandi Íslands

Sjómannasambandi Íslands og

Vélstjórafélagi Íslands

f.h. áhafnar Þóris SF-77

LÍU vísaði máli þessu til úrskurðarnefndar með bréfi til Verðlagsstofu skiptaverðs (VSS) dags. 7. desember sl. sem er svohljóðandi:

,,Fyrir hönd Skinneyjar-Þinganess hf. er þess hér með óskað að ágreiningur útgerðarinnar og áhafnar Þóris SF 77 um fiskverð verði tekin til meðferðar í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna."

Málið var fyrst tekið fyrir á fundi í úrskurðarnefnd mánudaginn 13. desember sl. þar sem mættir voru fulltrúar hagsmunaaðila í nefndinni. Ekki náðist samkomulag og var ákveðið að kalla til formann nefndarinnar á næsta fund um ágreiningsefnið. Jafnframt var þar ákveðið að fulltrúar málsaðila skiluðu greinargerðum í málinu í janúarmánuði þessa árs. Fulltrúar LÍÚ skiluðu greinargerð til VSS hinn 14. þessa mánaðar en fulltrúar sjómanna 17. sama mánaðar. Í kjölfar þess var boðað til fundar 21. janúar sl. í því skyni að ráða málinu þá til lykta. Það tókst ekki og var málinu frestað þar til í dag ogmálinu lokið með eftirfarandi úrskurði

Málavextir eru þeir í stórum dráttum, að Skinney-Þinganes hf. (hér eftir sóknaraðili) gerði fiskverðssamning við áhöfn Þóris SF-77 (eftirleiðis varnaraðili) hinn 28. desember 2000.

Samningurinn er svohljóðandi:

,,Áhöfn á m/b Þóri SF-77 (91) og útgerð skipsins, Skinney - Þinganes hf., kt. 480169-2989, gera með sér svohljóðandi fiskverðssamkomulag

Þorskur

 
ÓSLÆGT SPIG I & II PORT AB PORT CD & E
10,5 kg. + 137 125 89
7,0- 10,5 kg. 113 107 83
4,5-7,0 kg. 107 95 71
3,0-4,5 kg. 79 69 54
- 3,0 kg. 74 64 49
Ufsi      
Óslægt      
3,0 kg. + 50    
- 3.0 kg. 45    
Ýsa      
Óslægt      
Óflokkað 90    

Þorskur er gæðametin á grundvelli gæðamats á saltfiski.

Gildistími:

Samningur þessi gildir frá og með 1. janúar 2001.

Uppsagnarákvæði:

Gagnkvæmur uppsagnarfrestur er ein vika."

Í yfirlýsingu, sem sóknaraðili beindi til áhafna Þóris SF-77 (91), Steinunnar SF 10 og Skinneyjar SF 30 (250) og dagsett er 2. febrúar 2001 segir svo: ,,Ákveðið hefur verið að greiða tímabundið álag ofan á núverandi verðsamning. Greiddar verða 30 kr/kg ofan á þrjá stærstu flokkana í þorski (4,5-7,0/7,0-10,5 og 10,5 +). Álagið gildir frá og með 1. janúar 2001 til og með 15. apríl 2001."

Fyrir úrskurðarnefnd liggur sérstök greinargerð varnaraðila undirrituð af Jóni Þ. Ágústssyni. Þar er því lýst, að yfirlýsingin frá 2. febrúar 2001 hafi verið gefin vegna óánægju skipverja á þar greindum bátum sóknaraðila, sem stafað hafi af samningi hans við aðila óskylda útgerðinni, þar sem greitt hafi verið um 50 kr. hærra þorskverð pr. kg. en samningurinn frá 28. desember 2000 kvað á um. Þar kemur einnig fram, að sóknaraðili hafi greitt 15 kr/kg. frá því verkfalli lauk í maímánuði sl. til 1. júní en frá þeim tíma hafi skipið verið gert út á rækju til 26. nóvember sl. Þegar því úthaldi lauk, hafi samningaumleitanir um fiskverð hafist milli áhafnar og útgerðar en samningar ekki tekist. Einnig liggur fyrir símbréf sóknaraðila til VSS dags. 11. desember sl. Þar er samningaumleitunum málsaðila lýst og staðfest að þær hafi siglt í strand. Einnig er tekið fram í símbréfinu, að lýsing Jóns Þ. Ágústssonar f.h. varnaraðila á ástæðum hækkunar þorskverðs með yfirlýsingunni frá 2. febrúar séu orð áhafnar en ekki útgerðar.

Tvö skrifleg tilboð liggja fyrir úrskurðarnefnd annað frá útgerð til áhafnar og gagntilboð frá áhöfn.

Tilboð útgerðar er dagsett 6. desember sl. og hljóðar svo: ,,Fiskverð verði tengt vísitölu afurðaverðs í íslenskum krónum.

Óslægður þorskur: SPIG I & II PORT AB PORT CD & E
10,5 kg. + 158 144 108
7,0- 10,5 kg. 130 124 93
4,5-7,0 kg. 124 110 83
3,0-4,5 kg. 104 95 71
- 3,0 kg. 99 88 66
Óslægður ufsi:      
3,0 kg.+ 58    
-3.0 kg. 52    
Óslægð ýsa:      
Ýsa að meðalþyngd yfir 1,2 kg:125 kr/kg      
Ýsa að meðalþyngd undir 1,2 kr: 115 kr/kg      
Karfi:      
Óháð stærð 60 kr/kg"      

Síðan er í tilboðinu kafli sem ber yfirskriftina ,,Vísitölur". Ekki þykir ástæða til að tilgreina orðrétt, hvað þar kemur fram. Þar segir m.a. að tilboðið miðist við vísitölu í október 2001 og sé októbervístalan =100. Notaðar verði vísitölur afurðaverðs sem starfsmenn SÞ reikna og síðan því lýst, hvað leiði til breytinga á grunnvísitölu.

Niðurlag tilboðsins er svohljóðandi: ,,Tilboð þetta er lokatilboð útgerðar. Tilboðið gildir til kl. 14.00 þ. 7. desember 2001. Ef ekki næst samkomulag á grundvelli þessa mun útgerðin vísa málinu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna og krefjast þess að úrskurðað verði í samræmi við markmið um fiskverð sem ákveðin voru í gerðardómi skv. lögum nr. 34/2001 og kveðinn var upp 30 júní 2001."

Gagntilboð varnaraðila er samhljóða kröfum þeim sem fulltrúar sjómanna í úrskurðarnefnd gera. Mun þeim lýst hér að neðan.

Kröfur sóknaraðila:

Fulltrúar LÍU gera þá kröfu, að nefndin úrskurði um verð í þorski, ýsu og karfa miðað við óslægðan afla í samræmi við þau markvið, sem sett voru um fiskverð í gerðardómi skv. lögum nr. 34/2001. Verðflokkun allra tegunda verði í samræmi við þá flokkun, sem útgerðin miðar við.

Sóknaraðili kveðst hafna kröfum varnaraðila um að í nýjum fiskverðssamningi verði miðað við 30 kr/kg. álag. Hér hafi verið um tímabundið álag að ræða, sem sóknaraðili hafi greitt til áhafnar Þóris Sf-77 og sé gildistími þess liðinn.

Kröfur varnaraðila:

Óslægður þorskur: SPIG I & II PORT AB PORT CD & E
  kr/kg kr/kg kr/kg.
10,5 kg. + 195,63 181,57 139,40
7,0- 10,5 kg. 167,51 160,49 132,37
4,5-7,0 kg. 160,49 146,43 118,31
3,0-4,5 kg. 104,00 95,00 63,28
- 3,0 kg . 99,00 88,00 57,40

Þorskur er gæðametinn á grundvelli gæðamats á saltfiski. Að öðru leyti eru kröfu varnaraðila samhljóða tilboði sóknaraðila frá 6. desember sl.

Fulltrúar sjómanna í úrskurðarnefnd vilja láta þess getið, að samtök sjómanna telji, að við verðlagningu á fiski eigi að gæða- og stærðarmeta aflann upp úr skipi en ekki á grundvelli þeirra afurða, sem kaupandinn framleiði vegna þess að gæði afurða geti oltið á vinnslunni í landi. Þar sem krafa varnaraðila byggi á því, að þorskurinn verði gæðametinn á grundvelli gæðamats á saltfiski verði sú útfærsla látin halda sér að þessu sinni í kröfugerðinni.

Fulltrúar sjómanna vísa til 2. mgr. 1. greinar laga nr. 13/1998 en þar segi: "Hafi samtök útvegsmanna og sjómanna gert með sér samkomulag um tiltekin markmið um viðmið varðandi verðlagningu á fiski við uppgjör á aflahlut sjómanna á gildistíma kjarasamnings eða ákvarðanir um slíkt hafa verið teknar með öðrum skuldbindandi hætti skulu Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, sbr. II. kafla, stuðla að því með störfum sínum og úrskurðum að þau markmið nái fram að ganga". Í I. kafla í grein 1. 26 í kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna og sambærilegum ákvæðum í kjarasamningum Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Vélstjórafélags Íslands séu markmið um verðlagningu á fiski tíunduð. Þar segi m.a.: "Útgerðarmaður hefur með höndum sölu aflans og hefur til þess umboð áhafnar að því er aflahlut hennar varðar. Hann skal tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn, þó aldrei lægra en útgerðarmaður fær, þar með talin hrogn, lifur og bein". Framangreint markmið kjarasamninganna um hæsta gangverð geti ekki verið skýrara og beri úrskurðarnefnd, skv. lögum að framfylgja því markmiði. Á grundvelli þessa ákvæðis hafi verð á þorski til skipverja á Þóri SF-77 verið hækkað á vetrarvertíð árið 2001 en þá hafi verið samið um 30 kr/kg hækkun á þorskverði frá síðast gildandi samningi. Þessi hækkun hafi komið til af því að útgerð skipsins hafði verið að greiða óskyldum aðilum mun hærra fiskverð en þeir greiddu til eigin skips. Með því að hækka fiskverð til Þóris SF-77 megi því segja, að útgerðin hafi verið að gera tilraun til að uppfylla framangreint samningsákvæði. Afurðaverð á söltuðum þorskafurðum hafi hækkað um rúm 18% (janúar - október 2001) frá þeim tíma sem umræddur samningur um þorskverð var gerður og sé krafa áhafnarinnar byggð á fiskverðssamningnum sem gilti á síðustu vetrarvertíð að viðbættri þeirri hækkun sem orðið hafi á afurðaverði saltaðra afurða frá því hann var gerður. Krafa áhafnarinnar sé því í fullu samræmi við ákvæði kjarasamninga og laga um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Fulltrúar sjómanna í úrskurðarnefnd geri þá kröfu, að úrskurðað verði í þessu máli í samræmi við kjarasamninga og lög.

Í IV. kafla tilvitnaðs ákvæðis kjarasamninga aðila, sem sett var inn í kjarasamninga Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands með gerðardómi skv. lögum nr. 34/2001 og í kjarasamning Vélstjórafélags Íslands með samningi, séu sett fram markmið um, að verð í beinum viðskiptum nálgist verð á innlendum fiskmörkuðum á gildistíma samninganna. Í því sambandi séu sett fram markmið um, að verð í beinum viðskiptum sem hlutfall af vegnu meðalverði beinna viðskipta og fiskmarkaða fari ekki niður fyrir ákveðið hlutfall. Þetta ákvæði hafi verið sett inn í allt öðrum tilgangi en að lækka fiskverð til sjómanna, án þess að þróun afurðaverðs gæfi tilefni til lækkunar. Samtök sjómanna í úrskurðarnefnd hafni því alfarið, að þessu ákvæði verði beitt til að lækka verð á þorski hjá áhöfn Þóris SF-77 á sama tíma og afurðarverð hafi hækkað um rúm 18%. Samtökin hafni því kröfu fulltrúa útvegsmanna í úrskurðarnefnd um að beitt sé markmiðum, skv. úrskurði gerðardóms við verðlagningu á þorski á Þóri SF-77, nema markmiðin skili skipverjum hærra fiskverði en sem nemi framangreindri fiskverðskröfu.

Forsendur og niðurstaða:

Með lögum nr. 34/2001 var sérstökum gerðardómi (hér eftir gerðardómur) falið að ákveða launakjör sjómanna í nokkrum tilgreindum atriðum. Í 7. gr. laganna er viðauki við 1. gr laga nr. 13/1998, sem verður eftirleiðis 2. mgr. 1. gr. laganna. Fulltrúar sjómanna byggja á þessari lagagrein og er hún orðrétt tekin upp í greinargerð þeirra, (sjá bls. 4 neðstu greinarskil).

Úrskurður hins lögmælta gerðardóms var kveðinn upp 30. júní 2001. Gerðardómurinn setti fram ákveðin markmið um verðlagningu á þorski, ýsu og karfa, slægðum og óslægðum, (sjá bls. 15 og 16 í forsendum gerðardómsins), í samræmi við umsamin markmið í kjarasamningi Vélstjórafélag Íslands og LÍU frá 9. maí sl.

Í úrskurði gerðardómsins er markmiðum þessum nánar lýst og útlistað, hvernig haga skuli útreikningi svo að þeim verði náð. VSS var falið að annast alla nánari útreikninga og framsetningu þeirra og skal skera úr ágreiningi, sem upp kynni að koma um túlkun efnisatriða, eins og segir í gerðardóminum.

Úrskurðarnefnd ber samkvæmt framansögðu að sjá til þess, að þau markmið náist, sem sett eru fram í úrskurði gerðardómsins og í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands, sbr. og 7. gr. síðast nefndra laga.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs o.fl. nr. 13/1998, skal úrskurðarnefnd við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum, sem VSS hefur safnað, auk þess sem VSS skal, samkvæmt ákvörðun gerðardómsins, annast alla nánari útreikninga og framsetningu, svo að sett markmið náist um verðlagningu þriggja áðurnefndra fisktegunda, eins og áður er lýst. Í 2. mgr. sömu lagagreinar, er úrskurðarnefnd gefin fyrirmæli um það, hvaða aðferðum hún skuli beita við verðákvarðanir sínar. Miða skuli við það fiskverð, sem algengast sé við sambærilega ráðstöfun og taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Byggt skuli á upplýsingum frá VSS.

Að framan er lýst þeim lagafyrirmælum, sem snúa að úrskurðarnefnd og henni ber að fylgja í störfum sínum.

Í máli því, sem hér er til úrlausnar, snýr ágreiningur málsaðila einkum að því, hvort sóknaraðila sé skylt að greiða álag á það þorskverð, sem VSS hefur ákvarðað að gilda skuli, samkvæmt yfirlýstum markmiðum gerðardómsins.

Útgerð og áhöfn er skylt að reyna að ná samningi sín á milli um fiskverð. Takist það ekki, getur hvor um sig, útgerð og áhöfn, leitað eftir því við þau heildarsamtök, sem þeir eiga aðild að, að úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna leysi úr ágreiningi þeirra, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1998 (hér eftir lögin). Samningaviðræður málsaðila sigldu í strand og því vísuðu fulltrúar LÍU málinu til úrskurðarnefndar, eins og áður er lýst.

Fiskverðssamningur, skv. tilvitnuðu lagaákvæði, lýtur venjulegum reglum samningaréttar, með þeirri takmörkun, að VSS ber að grípa inn í, sé hallað á áhöfn, sbr. 7. gr. laganna. Að öðru leyti ríkir samningsfrelsi á þessu sviði.

Eins og áður er getið lýsti sóknaraðili því yfir einhliða með yfirlýsingu dagsettri 2. febrúar 2001, að hann hafi ákveðið að greiða tímabundið álag, sem fól í sér 30 kr/kg. á þorsk tiltekinnar stærðar umfram umsamið þorskverð, samkvæmt fiskverðssamningnum frá 28. desember 2000. Í yfirlýsingunni er skýrt tekið fram, að álagið sé tímabundið og gildi til 15. apríl 2001. Því þykir ljóst, að sóknaraðili hugðist ekki skuldbinda sig um greiðslu álags lengur en yfirlýsingin tilgreinir.

Fram kemur í greinargerð Jóns Þ. Ágústsson, sem áður er vísað til, að sóknaraðili hafi greitt 15 kr/kg álag frá verkfallslokum um miðjan maí 2001 til 1 júní s.á. Þykir það benda til þess, að málsaðilar hafi litið svo á, að sóknaraðili væri á þessum tíma óbundinn af yfirlýsingu sinni frá 2. febrúar s.á.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, verður að telja, að umrædd yfirlýsing skuldbindi sóknaraðila ekki umfram það, sem ráða má af efni hennar.

Í tilboði sóknaraðila frá 6. desember sl. kemur skýrt fram að það skuli gilda til 7. desember kl. 14.00 en verði því hafnað muni málinu vísað til úrskurðarnefndar og þess krafist, að úrskurðað verði í samræmi við markmið um fiskverð sem ákveðin voru í gerðardómi skv. lögum nr. 34/2001 og kveðinn var upp 30. júní 2001.

Sóknaraðili er því óbundinn af tilboði sínu að mati úrskurðarnefndar.

Þá er hafnað kröfu varnaraðila um að úrskurðarnefnd skuli við verðákvörðun sína á þorski miða við 30 kr./kg. álag, sem sóknaraðili ákvað einhliða að greiða ofan á umsamið þorskverð í takmarkaðan tíma.

Verður því við úrlausn þessa máls að beita þeim verklagsreglum, sem úrskurðarnefnd hefur viðhaft og lögin nr. 13/1998 og ákvörðun gerðardómsins frá 30. júní 2001 mæla fyrir um.

Formaður úrskurðarnefndar leitaði upplýsinga hjá VSS um verð á þorski, ýsu og karfa í beinni sölu, eins og lögskylt er. Einnig var þess óskað, að VSS lagaði verð á þorski í desembermánuði sl. og yfirstandandi janúarmánuði að því fyrirkomulagi, sem málsaðilar hafa komið sér saman um.

Við úrlausn málsins ber að miða við það verð, sem VSS hefur ákveðið að falli að settum markmiðum gerðardómsins frá 30. júní 2001 og samnings Vélstjórafélags Íslands við verðákvörðun þeirra fisktegunda, sem tilgreindar eru í gerðardóminum. Sama gildir um verðlagningu annarra fisktegunda, sem ágreiningur er um, þar skal úrskurðarnefnd hafa hliðsjón af upplýsingum, sem VSS hefur veitt nefndinni, þar að lútandi.

Þau verð sem tilgreind eru í úrskurðarorði, eru byggjast á upplýsingum VSS. Verð á ufsa og löngu miðast við meðalverð á þessum fisktegundum í beinni sölu mánuðina september 2001 til og með nóvember s.á., en nýrri verðupplýsingar liggja ekki fyrir.

Úrskurður þessi skal gilda frá 7. desember 2001 er málið barst úrskurðarnefnd til 15. febrúar þessa árs.

Úrskurðarorð:

Sóknaraðili, Skinney - Þinganes hf., skal miða uppgjör sitt til áhafnar Þóris SF-77 við eftirfarandi verð:

Óslægður þorskur:

Desember 2001.      
  SPIG I & II PORT AB PORT CD & E
  kr/kg kr/kg kr/kg.
10,5 kg.+ 163 149 111
7,0- 10,5 kg. 142 136 102
4,5-7,0 kg. 122 109 82
3,0-4,5 kg. 104 95 71
- 3,0 kg. 99 88 66

 

Janúar og febrúar 2002.      
  SPIG I & II PORT AB PORT CD & E
  kr/kg kr/kg kr/kg.
10,5 kg. + 176 160 120
7,0- 10,5 kg. 153 146 109
4,5-7,0 kg. 132 117 88
3,0-4,5 kg. 112 102 77
- 3,0 kg. 99 88 66
Óslægð ýsa:      
Ýsa að meðalþyngd yfir 1,2 kg. 110 kr/kg.    
Ýsa að meðalþyngd undir 1,2 kg 80 kr/kg.    
Karfi:      
Óháð stærð 52 kr/kg.    
Ufsi óslægður og óflokkaður: 48kr/kg    
Langa:      
Óháð stærð. 85 kr/kg.    

 

Úrskurður þessi skal gilda frá 7. desember 2001 er málið barst úrskurðarnefnd til 15. febrúar þessa árs.

Skúli J. Pálmason
Friðrik J. Arngrímsson