Fara í efni

Úrskurður nr. 7/1998

Árið 1998, mánudaginn 23. nóvember er fundur haldinn í Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Mættir eru: Helgi Laxdal, Guðjón A. Kristjánsson, Hólmgeir Jónsson, Kristján Ragnarsson, Ólafur Marteinsson, Pétur H. Pálsson og Skúli J. Pálmason, formaður nefndarinnar.

Fyrir er tekið mál nr.U-7/1998

Sjómannasamband Íslands,
Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og
Vélstjórafélag Íslands,
fh. áhafnar Bessa ÍS-410

gegn

Hraðfrystihúsinu hf.

og kveðinn upp svohljóðandi

Úrskurður:

Hólmgeir Jónsson f.h. Sjómannasambands Íslands vísaði málinu til Úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna með bréfi til Verðlagsstofu skiptaverðs (VSS), dags. 27. október sl., sem hljóðar svo: "Hér með er deilu áhafnar Bessa ÍS-410, við útgerð skipsins, um verð á rækju vísað til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna. Eins og fram kemur í meðfylgjandi gögnum frá áhöfninni ber mikið í milli aðila og því ljóst að niðurstaða fæst ekki án aðkomu úrskurðarnefndar.

Erindið var fyrst tekið fyrir á fundi í nefndinni hinn 6 nóvember sl. og en umræðum um það frestað til næsta fundar. Á þeim fundi, sem haldinn var 11. þessa mánaðar, náðist ekki samkomulag með fulltrúum hagsmunaaðila í úrskurðarnefndinni og var því ákveðið að tilkveðja formann nefndarinnar á næsta fund hennar, sem nú fer fram. Á fundinum 11. nóvember sl. var ennfremur ákveðið, að fulltrúar hagsmunaaðila skiluðu fyrir næsta fund skriflegum greinargerðum til Verðlagsstofu skiptaverð, fyrst fulltrúar sjómanna, sem sóknaraðila, en síðan fulltrúar útgerðarmanna, sem varnaraðilar og skyldu þeir þar gera grein fyrir kröfum sínum og þeim sjónarmiðum, sem þær byggðust á. Greinargerðir þessar eru nú lagðar fram og skýrðar munnlega af fulltrúum hagsmunaaðila.

Málið var að því búnu tekið til úrskurðar.

Málavextir, kröfur og málsástæður málsaðila.

Áhöfn Bessa IS-410 fór fram á það við Sjómannasamband Íslands að málinu yrði vísað til úrskurðarnefndar í símbréfi dags. 27.október sl. Bréfið er svohljóðandi: "Það virðist gjörsamlega útilokað hjá áhöfn Bessa ÍS 410 að ná samkomulagi um verð á iðnaðarrækju. Greiðsla áhafnar í dag er 100 kr. flatt verð pr. kg. Áhöfnin gerði kröfu um kr. 125 en útgerð lagði fram tilboð ds. 15.10. Hinn 16.10. gerði áhöfn gagntilboð, en útgerð stefndu við sitt tilboð frá 15. hvað verð gildir, en er tilbúin til viðræðna um gildistíma og uppsagnarfrest. Áhöfn óskar eftir að málinu verði vísað til úrskurðarnefndar."

Tilboð það, sem útgerð Bessa bauð áhöfn skipsins er sem hér segir:

"Iðnaðarrækja:

Talning Verð
0-170 130
171-240 125
241-280 115
281-300 105
301 og yfir 90

Gildistími skal vera frá og með næsta löndunardegi og til loka fiskveiðiársins 1998-1999. Ef hvorugur aðili segir verði upp, gildir það sjálfkrafa áfram út næsta ár. Uppsagnarfrestur samnings er 3 mánuðir."

Í gagntilboði áhafnar Bessa, sem vísað er til í áðurnefndu símbréfi til Sjómannasambands Íslands dags. 27. október sl. segir svo: "Áhafnarmeðlimir Bessa ÍS er sammála um að semja skuli um eitt fast verð og eru menn ásáttir um 118 kr.p.kr í því sambandi, og gerður skuli samningu til sex mánaða með tveggja mánaða uppsagnarfresti sem muni gilda áfram ef ekki til uppsagnar komi, upphafs samnings mun fylgja fiskveiðiárinu en hefjast með löndun núverandi veiðiferðar. Ef veitt er utan íslenskrar lögsögu skulu greidd 10% ofan á umsamið verð."

Fulltrúar sjómanna í úrskurðarnefnd hafa gert gagntilboð áhafnar að sínu, að því undanskildu sem snýr að gildistíma.

Kröfur og sjónarmið sóknaraðila.

Sóknaraðili gerir þær kröfur f.h. áhafnar Bessa ÍS-410, að verð á óflokkaðri frosinni rækju til iðnaðar verði 118 kr/kg., þegar veitt sé úr rækjuveiðiheimildum skipsins innan íslenskrar lögsögu, en 10% hærra sé veidd utan lögsögu Íslands og á Dohrnbanka, þar sem úthafrækjan teljist ekki til aflamarks.

Sóknaraðili upplýsir, að áhöfn Bessa hafi á síðustu 7-8 mánuðum fengið 100 kr/kg. fyrir óflokkaða iðnaðarrækju, en meðalverð á samsvarandi rækju hafi í ágústmánuði sl. numið 112,69 kr/kg. en ekki liggi fyrir upplýsingar um rækjuverð í september og október sl. Í þessu meðaltali sé afli Bessa 176 tonn, sem dragi niður meðaltalið. Verðdreifing á frosinni iðnaðarrækju í ágústmánuði, sem Fiskifélag Íslands hafi unnið fyrir VSS, sé þannig:

Undir 100 kr/kg. 176 tonn 7,2%

100 kr/kg. 746 tonn 30,6%

110-116 kr/kg. 616 tonn 25,3%

Yfir 118 kr/kg. 897 tonn 36,8%

Ljóst sé á framangreindu yfirliti, að skip sem selji óskyldum aðilum iðnaðarrækju fái hærra verð en 118 kr/kg. að meðaltali.

Sóknaraðili vísar til greinar 1.26 í kjarasamningi milli SSÍ og LÍU og sambærileg ákvæði í kjarasamningum FFSÍ og VSFÍ til stuðnings kröfum sínum, en þar segi: "Útgerðarmaður hefur með höndum sölu aflans og hefur til þess umboð áhafnar að því er aflahlut hennar varðar. Hann skal tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn, .......". Með hliðsjón af þessu samningsákvæði sé því eðlilegast að taka mið af verði á frosinni iðnaðarrækju í viðskiptum milli óskyldra aðila, en það verð hafi numið í ágústmánuði sl. kr. 120,90 samkvæmt upplýsingum VSS. Þá liggi fyrir, að útgerð Bessa hafi keypt rækju af Flæmingjagrunni af óskyldum aðila á 130,10 kr/kg. í ágústmánuði sl.

Krafa sóknaraðila sé því sanngjörn og eðlileg með vísan til framangreindra upplýsinga.

Þá gerir sóknaraðili eftirfarandi athugasemdir við tilboð útgerðar Bessa til áhafnar. Þar sé gert ráð fyrir 5 flokkum. Þessi stærðarflokkun sé óraunhæf sé leigið til þess, að áhöfnin hafi að beiðni útgerðarinnar sérmerkt iðnaðarrækju þar sem 220 stk. eða færri séu í kílói. Í vinnslunni sé aftur á móti öllu blandað saman, þannig að stærðarflokkunin virðist engu máli skipta. Algengt sé þar sem rækjan sé flokkuð, að flokkað sé í tvo eða þrjá flokka. Hins vegar sé óþekkt að flokka rækju í fimm flokka. Þar sem viðhöfð sé stærðarflokkun í þrjá flokka sé flokkunin með eftirfarandi hætti: 1) Undir 200 stk. í kg. 2) 201-300 stk. í kg. 3) Yfir 300 stk. í kg.

Óraunhæft sé að krefjast fimm flokka bæði vegna þess að það þekkist hvergi og ekki síst fyrir það, að útgerð Bessa geri ekkert með stærðarflokkunina. Því sé eðlilegt að ákveða eitt verð fyrir alla iðnaðarrækjuna, eins og áhöfn Bessa hafi gert kröfu til.

Kröfur og sjónarmið varnaraðila.

Fulltrúar útvegsmanna hafna kröfu sóknaraðila um eitt verð 118 kr./kg. til áhafnar Bessa ÍS-410 óháð rækjustærð og hafna ennfremur kröfu hans um 10% álag, sé veitt utan íslenskrar lögsögu. Þeir leggja áherslu á flokkun afla, enda endurspeglist afurðaverð í slíkri flokkun.

Varnaraðili leggur til, að stuðst verði við meðalverð þeirra fiskverðssamninga, sem VSS hefur aflað og látið úrskurðarnefnd í té, við ákvörðun á verði frosinnar iðnaðarrækju til áhafnar Bessa ÍS-410.

Samkvæmt því leggur sóknaraðili til að verðákvörðun nefndarinnar verði sem hér segir:

Stærðarflokkar Verð pr. kg.
140 stk eða færri 127
141-160 126
161-180 124
181-200 114
201-220 112
221-240 107
241-260 106
261-280 105
281-300 92
301-320 80
321-340 79
340 eða fleiri 30

 

Forsendur og niðurstaða:

Í 11. gr. laga nr. 13/1998 eru starfsreglur Úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna markaðar. Í 1. mgr. lagagreinarinnar segir, að úrskurðarnefndin skuli taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa fiskverðs (á að vera skiptaverðs) hefur safnað, en í 2. mgr. 11. gr. laganna er mælt svo fyrir, að úrskurðarnefndin skuli við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast sé við sambærilega ráðstöfun afla og skuli hafa til hliðsjónar fiskverð í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Ákvæði þetta er samhljóða 2. mgr. 5. gr. eldri laga um úrskurðarnefnd nr. 84/1995. Samningsákvæði það, sem sóknaraðili byggir á um hæsta gangverð er einnig samhljóða fyrri kjarasamningi.

Úrskurðarnefnd hefur leitað til Verðslagsstofu um upplýsingar um verð á frosinni iðnaðarrækju svo og um stærðarflokkun. VSS upplýsti, að hún hefði undir höndum fimm samninga um rækjuverð og gerði grein fyrir efni þeirra, án þess að tilgreina hverjir ættu þar hlut að máli. Þar kom fram, að í einu tilviki var rækjan flokkuð í 10 flokka eftir stærð og verði. Þar voru greiddar fyrir stærstu rækjuna 150 kr. fyrir 140 stk./kg. eða færri, síðan lækkaði verðið um kr. 5 fyrir hver 20 umfram stk./kg. og nam lægst 100 kr. fyrir 321-340 stk./kg. Í næsta samningi voru flokkarnir tveir, 112 kr. fyrir 300 stk./kg. eða færri og 70 kr. fyrir 300stk./kg. eða fleiri. Í tveimur samningnum voru flokkarnir fjórir, en aðeins í einu tilviki var greitt eitt verð 100 kr./kg. án flokkunar og virðist þar vera um að ræða samning þann við áhöfn Bessa, sem hér er til endurskoðunar. Í öðrum þeirra tveggja samninga, þar sem flokkarnir eru fjórir var niðurstaðan þessi. 230 stk/kg.eða færri 95 kr., 231-290 stk/kg. 90 kr., 291-350 stk./kg. 65 kr., og yfir 351 stk./kg. 40 kr. Í hinum samningnum var þannig flokkað. 180 stk./kg. 150 kr., 180-220 stk./kg. kr. 112, 220-280 stk./kg. kr. 102 og yfir 280 stk./kg. kr. 80.

VSS hefur dregið saman upplýsingar úr þessum samningum og fundið út meðalverð þeirra, þegar frá er talinn fyrri samningur sá við áhöfn Bessa. Fulltrúar varnaraðila byggja kröfur sínar á því meðaltali og vísast til kröfugerðar þeirra í því sambandi.

Enga almenna reglu er hægt að leiða af framangreindum samningum, hvorki um verð né flokkun, þar fer hver sína leið. Úrtakið svo lítið að það veitir enga vísbendingu um að sem almennt tíðkast á þessu útgerðarsviði.

Engar upplýsingar liggja heldur fyrir um stærðarskiptingu rækjuaflans hjá einstakri útgerð.

Fyrirliggjandi gögn frá Fiskifélagi Íslands sýna að vegið meðaltalsverð iðnaðarrækju nam í ágústmánuði sl. 112,57 kr./kg. en samsvarandi óvegið meðaltalsverð kr. 108,58. Lægst var verðið 90 kr./kg. en það hæsta 132,40 kr./kg.

Þá liggja fyrir upplýsingar unnar af VSS eftir gögnum frá Fiskifélaginu um verð iðnaðarrækju, sem landað hefur verið í ágúst 1998 hjá óskyldum aðilum. Þar kemur fram, að hæsta meðalverð farms nam kr. 132,40 kr./kg. en það lægsta nam kr. 90. Vegið meðalverð alls afla í ágústmánuði var 120,9 kr./kg. en óvegið meðalverð 113,55 kr./kg.

Engar upplýsingar liggja fyrir um það, að greitt sé sérstakt álag sé rækjuveiði stunduð utan íslenskrar lögsögu.

Eins og sjá má af framangreindum heimildum, er rækjuverð ákaflega misjafnt og því verulegum vandkvæðum bundið að ákvarða verð til áhafnar Bessa SÍ 410 í samræmi við þær starfsreglur, sem nefndinni er ætlað að starfa eftir, sbr. 2. mgr. 11. gr. 1aga nr. 13/1998, sjá hér að framan.

Verð á rækjuafurðum á erlendum mörkuðum hefur verið nokkuð stöðugt síðustu mánuði samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar, en horfur óræðar í því efni.

Meiri hluti úrskurðarnefndar telur rétt að viðhalda stærðarflokkun iðnaðarrækju, enda ræðst afurðaverð af stærð rækjunnar. Einnig ráða verndarsjónarmið þessari afstöðu, en vænta má þess að skipstjórnarmenn leiti fremur á þá veiðislóð, sem stærri rækjan heldur sig, sé hærra verð fyrir hana í boði.

Ákvörðun úrskurðarnefndar er sem hér segir:

Stykkjafjöldi í kg. Verð pr./kg.

200 stk. og færri 130,00 kr.

201-300 stk. 115,00 kr.

300 stk. o.fl. 90,00 kr.

Hafnað er kröfu sóknaraðila um álag sé veitt utan íslenskrar lögsögu.

Gildistími þessa úrskurðar er til 1. janúar 1999.

Úrskurðarorð:

Hraðfrystihúsið hf. skal við uppgjör til áhafnar Bessa SI-410 miða við eftirfarandi verð fyrir iðnaðarrækju.

Stykkjafjöldi í kg. Verð pr./kg.

200 stk. og færri 130,00 kr.

201-300 stk. 115,00 kr.

300 stk. o.fl. 90,00 kr.

Hafnað er kröfu áhafnar um álag sé veitt utan íslenskrar lögsögu.

Gildistími þessa úrskurðar er til 1. janúar 1999.

 

Að úrskurði stóðu:

Skúli J. Pálmason
Hólmgeir Jónsson
Guðjón A. Kristjánsson
Helgi Laxdal