Fara í efni

Úrskurður nr. 7/1999

Árið 1999, fimmtudaginn 18. nóvember er fundur haldinn í Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Mættir eru: Helgi Laxdal, Sævar Gunnarsson, Guðjón A. Kristjánsson, Kristján Ragnarsson, Sveinn Hjörtur Hjartarson, Pétur H. Pálsson og Skúli J. Pálmason, formaður nefndarinnar.

Fyrir er tekið mál nr. U-7/1999

Jónu Edvalds SF-20

Sjómannasamband Íslands

fh. áhafna

Húnarastar SF-550 og

gegn

Skinneyju- Þinganesi hf.

og kveðinn upp svohljóðandi

Úrskurður:

Málið varðar ágreining um verðlagningu á ferskri síld.

Sjómannasamband Íslands vísaði málinu til Úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna með bréfi til Verðlagsstofu skiptaverðs (VSS), dags. 1. nóvember sl. Fundur var haldinn 8. nóvember sl., þar sem ekki náðist samkomulag með fulltrúum hagsmunaaðila í nefndinni og því ákveðið að kalla til formann nefndarinnar á næsta fund nefndarinnar í því skyni að leiða málið til lykta með úrskurði. Einnig var ákveðið, að fulltrúar sjómanna í nefndinni skiluðu greinargerð til formanns miðvikudaginn 10. nóvember sl. en fulltrúar útvegsmanna síðastliðinn föstudag. Gekk það eftir.

Á fundi, sem haldinn var í fullskipaðri nefnd mánudaginn 15. nóvember sl. óskaði formaður nefndarinnar eftir því að frestað yrði að leiða málið til lykta, þar sem von væri á upplýsingum um afurðaverð saltsíldar, sem hann taldi brýnt að lægju fyrir nefndinni, áður en ákvörðun yrði tekin. Þess var óskað, að Verðlagsstofa skiptaverðs (VSS) aflaði þessara gagna hjá söluaðilum og/eða Þjóðhagsstofnun. Upplýst skyldi um söluhorfur og afurðaverð á síld samkvæmt sölusamningum, sem þegar hefðu verið gerðir vegna yfirstandandi vertíðar. Ennfremur um birgðamál frosinna og saltaðra síldarafurða (breytinga frá síðustu vertíð). Ekki hefur tekist að afla þessara upplýsinga og virðast þær ekki liggja á lausu.

Eftirleiðis verður vísað til fulltrúa sjómanna í úrskurðarnefnd, sem sóknaraðila en til fulltrúa útgerðarmanna sem varnaraðila.

Kröfur og sjónarmið sóknaraðila.

Sóknaraðili gerir kröfu til þess, að verðlagning á ferskri síld til áhafna framangreindra skipa verði sem hér segir:

Verð frá

1. Síld til vinnslu: Krafa síðustu vertíð

undir 250 gr 10,30 kr/kg 11,00 kr/kg

250 - 300 gr. 11,25 kr/kg 12,00 kr/kg

yfir 300 gr. 12,60 kr/kg 13,50 kr/kg

2. Síld til bræðslu:

Hvort sem síld flokkast undan eða er landað beint til bræðslu greiðast kr. 6,60 á kg. (Verð til bræðslu var 11,60 kr/kg á Húnaröst SF-550 síðustu vertíð).

3. Gildistími:

Úrskurðurinn gildi frá og með 1. nóvember 1999 og út síldarvertíðina.

Sóknaraðili styður kröfur sínar eftirfarandi rökum:

Í 11. grein laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, segir m. a.: „Úrskurðarnefnd skal við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa fiskverðs hefur safnað. Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs……………“. Auk þess segi skýrt í kjarasamningum milli sjómanna og útvegsmanna, að útgerðarmaður hafi með höndum sölu aflans og skuli hann tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn.

Fram komi í gögnum frá Verðlagsstofu skiptaverðs, sem lögð hafa verið fyrir nefndina undir heitinu Athugun á síldarverði 43-44 vika 1999, að síldarverð hjá helstu kaupendum á Austurlandi sé það sama. Hér sé augljóslega um ólögmæt samráð að ræða við verðlagningu á síld, sem sé brot á samkeppnislögum. Sóknaraðili telur því að horfa beri fram hjá ákvæði 11. greinar laganna, er vísi til þess, að nefndin skuli taka mið af því fiskverði, sem algengast sé við sambærilega ráðstöfun aflans. Vegna samráðsins sé ekki til raunhæft verð á síld til að miða við. Sóknaraðili kveðst tilbúinn til að samþykkja að lagt verði til grundvallar það verð, sem greitt hafi verið til Húnarastar SF-550 á síðustu vertíð, eða það verð sem greitt var að meðaltali á síðustu vertíð samkvæmt upplýsingum Verðlagsstofu skiptaverðs, en þó verði tekið tillit til breytinga á afurðaverði á síld til vinnslu frá þeim tíma. Samkvæmt upplýsingum Verðlagsstofu skiptaverðs, sbr. heimasíðu stofunnar, var meðalverð á síld 13,43 kr/kg í september 1998 og 13,49 í október 1998.

Ekki liggi fyrir aðrar opinberar upplýsingar um afurðaverð á síld til vinnslu en þær, sem Þjóðhagsstofnun gefi út, sem megi nálgast á heimasíðu Verðlagsstofu skiptaverðs. Upplýsingarnar um verð á síld til vinnslu séu eftirfarandi:

  Söltuð síld Frosin síld Síld – Alls
sep. ‘98 100,5 106,4 103,8
okt. ‘98 99,0 106,7 103,4
nóv. '98 99,2 108,1 104,2
des. '98 98,2 107,3 103,3
jan. '99 100,0 100,0 100,0
feb. '99 100,1 100,1 100,1
mar. '99 98,6 100,2 98,7
apr. '99 98,3 100,2 98,5
maí '99 98,0 93,8 97,6
jún. '99 97,7 94,5 97,3
júl. '99 98,4 94,5 97,9
ág. '99 98,5 94,2 98,0
sep. '99 98,2 91,9 97,5
okt. '99 97,0 91,2 96,3

Heimild Þjóðhagsstofnun.

 

Samkvæmt framangreindum upplýsingum um afurðaverð á síld til vinnslu hafi breytingin frá september og október á síðasta ári til september og október í ár verið þessi:

Hlutfallsleg breyting afurðaverðs Söltuð síld Frosin síld Síld – Alls
September 1998 til 1999 - 2,3% - 13,6% - 6,1%
Október 1998 til 1999 - 2,0% - 14,5% - 6,9%

Sóknaraðili telur því samkvæmt framansögðu, að verð á síld til vinnslu skuli ekki lækkað meira frá síðustu vertíð en sem nemi 6 - 7%. Ekki séu birtar opinberar tölur um breytingar á afurðaverði síldarmjöls og síldarlýsis. Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Verðlagsstofu skiptaverðs hafi afurðaverð á loðnumjöli og lýsi alls lækkað um 43% frá október á síðasta ári.

Krafa sóknaraðila um verð á síld til Húnarastar SF-550 og Jónu Eðvalds SF-20 sé byggð á því verði, sem greitt hafi verið til Húnarastar SF-550 á síðustu vertíð að teknu tilliti til breytinga á afurðaverði frá þeim tíma.

Kröfur og sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili hafnar verðkröfu fulltrúa sjómanna um verð á síld til bræðslu og byggja þá afstöðu á eftirfarandi atriðum:

Í 11. grein laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, segi m. a. eins og fram komi í kröfugerð sjómanna.: “Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla.” Samkvæmt upplýsingum Verðlagsstofu skiptaverðs liggja fyrir upplýsingar um síldarverð frá öllum helstu löndunarstöðum á Austurlandi á þessari vertíð. Upplýsingarnar séu, sem hér segir:

Löndunarhöfn: <200 gr. - Kr.kg. 200-300gr. - Kr.kg. 300gr. - Kr.kg. Í bræðslu - Kr.kg.
Síldarvinnslan hf. Neskaupstað 6,30 8,50 9,50 6,00
Friðþjófur hf. Eskifirði 6,30 8,50 9,50 6,00
Strandarsíld hf. Seyðifirði 6,00 8,50 9,50  
Skagtrendingur hf. Seyðifirði   8,50 10,00  
Búlandstindur hf. Djúpavogi 6,30 8,50 9,50  
Skálar hf. Þórshöfn       6,00
Loðnuvinnslan hf. Fáskrúðsfirði 6,30 8,50 9,50  
Skinney hf. Höfn 6,30 8,50 9,50 6,00
Krafa sjómanna á Húnaröst og Jónu Eðvalds <250 gr. 10,30 250- 300 gr. 11,25 Yfir 300 gr. 12,60 Í bræðslu 6,60

 

Þá liggi einnig fyrir skriflegur samningur milli Ísfélags Vestmannaeyja og áhafnar á Sighvati Bjarnasyni VE.

Kröfur sjómanna á Húnaröst SF 550 og Jónu Eðvalds SF 20 séu til mikilla muna hærri, en almennt þekkist á Austfjörðum, eins og ofangreind tafla beri með sér. Í lægsta flokkinum séu kröfurnar 63 % hærri en almennt gerist. Í öðrum flokki sé munurinn 26% til 32 % og í stærstu síldinni er tæplega 33% munur og 10% munur á verði fyrir bræðslusíld.

Varnaraðili hafnar þeirri fullyrðingu sóknaraðila, að samráð sé haft um síldarverð á Austfjarðarhöfnum, enda sé fullyrðing þeirra ekki studd neinum rökum. Síldarverkendur fái sama markaðsverð fyrir afurðir sínar á erlendum markaði og því megi búast við því, að verðið sé eins eða svipað upp úr sjó milli einstakra staða.

Þá sé að mati varnaraðila ekki raunhæft að miða við það verð, sem greitt hafi verið fyrir síld til vinnslu á síðasta ári. Bræðsluverð hafi verið óvenju hátt og vinnsluaðilar á síld til manneldis nauðbeygðir að greiða svipað verð og bræðslan greiddi, einfaldlega til þess að fá síld og viðhalda stöðu Íslendinga á mörkuðum fyrir saltaða og frysta síld. Nú hafi verð á mjöli og lýsi lækkað um ríflega helming og verð á síld til bræðslu hafi aðlagst þessari þróun. Mikilvægt sé, að þessar óvenjulegu aðstæður á síðasta ári séu hafðar í huga við verðlagningu á síld til manneldis. Einnig þurfi að taka mið af þeirri lækkun sem þegar sé orðin, svo og því að mikil sölutregða sé á síld til manneldis og alls óvíst, hvort hægt verði að selja þessar afurðir á því verði, sem Þjóðhagsstofnun gefi nú upp.

Varnaraðili leggur því til, að verðtilboð Skinneyjar – Þinganess hf . standi óbreytt út vertíðina í ljósi þeirrar óvissu sem sé í sölu síldarafurða til manneldis.

Þá sé kröfu um verðlagningu á síld til bræðslu hafnað, þar sem Ósland hf. (bræðslan) sé í eigu þriðja aðila.

Athugasemd sé ekki gerð um kröfu sjómanna um gildistíma úrskurðar þ.e. frá 1. nóvember og til vertíðarloka.

Forsendur og niðurstaða:

Í 11. gr. núgildandi laga um úrskurðarnefnd, sem báðir málsaðilar vísa til er Úrskurðarnefnd gefin fyrirmæli um það, hvaða aðferðum hún skuli beita við verðákvarðanir sínar. Miða skuli við það fiskverð, sem algengast sé við sambærilega ráðstöfun og tala tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Byggt skuli á upplýsingum frá VSS.

Skinney-Þinganeshf. hefur boðið áhöfnum þeirra skipa, sem hér koma við sögu eftirtalinn verð fyrir ferska síld.

Í bræðslu kr. 6,00 pr. kg. Í vinnslu: Minni en 200 gr. kr.6,30, 200 til 300 kr. 8,50, stærri en 300 kr.9,50.

Afurðaverð á lýsi og mjöli hefur lækkað verulega frá fyrra ári, en málsaðila greinir á um, hversu mikil sú lækkun hafi verið. Sóknaraðili telur lækkunina vera 43% og miðar kröfur sínar við þá hlutfallstölu, en varnaraðili heldur því fram,að lækkunin sé mun meiri.

Upplýsingar liggja fyrir um það, að Skinney-Þinganes hf. sé ekki í þeim tengslum við síldarverksmiðju, þannig að falli undir ákvæði 4. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1998.

Úrskurðarnefndin vísar því frá kröfu sóknaraðila um verðákvörðun á bræðslusíld. Úrskurðir nefndarinnar binda aðeins málsaðila. Útgerð umræddra báta getur engin áhrif haft á það verð, sem kaupendur bræðslusíldar bjóða, hvorki gagnvart Óslandi hf. né öðrum kaupendum. Því verður útgerðinni ekki gert að greiða áhöfnum viðkomandi skipa hærra verð en henni stendur til boða hverju sinni.

Sóknaraðili hefur fallist á þá flokkun, sem varnaraðili miðar við.

Verðlagsstofa skiptaverðs hefur umreiknað kröfu sóknaraðila miðað við þessar breyttu forsendur þannig:

Síld undir 200 gr. kr/kg. 10,07. Síld 200-300 gr. kr/kg. 10,78. Síld yfir 300 gr. kr/kg. 12,60.

Sóknaraðili byggir kröfur sínar á upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun.

Fyrir liggur, að upplýsingar Þjóðhagsstofnunar eru byggðar á afurðaverði fyrra árs, sem framreiknað hefur verið miðað við gengisþróun frá október 1998 til jafnlengdar þessa árs. Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar útbýr stofnunin nýjan grunn í októbermánuði ár hvert nýjan grunn. Sá grunnur hefur enn ekki verið útbúinn fyrir þetta ár, samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar vegna vandræða við upplýsingasöfnun. Ekki sé þess að vænta, að nýr grunnur liggi fyrir fyrr en eftir næstu viku, eins og segir í bréfi stofnunarinnar til VSS frá því í dag.

Ófullnægjandi upplýsingar liggja fyrir frá söluaðilum saltsíldar um afurðaverð eða hvernig það hefur breyst frá síðasta ári, en varnaraðili heldur því fram að umtalsverð lækkun hafi átt sér stað. Verð það, sem framleiðendur saltsíldar endurspegli þá þróun.

Sóknaraðili telur verð það, sem framleiðendur bjóða sé ólögmætt, þar sem ólögleg samráð hafi verið þeirra í milli um verðákvörðunina.

Það er ekki á verksviði úrskurðarnefndar að kveða á um það, hvort hráefnis­kaupendur hafi haft samráð um verðlagningu og hvort hún sé ólögmæt eða ekki. Það er hins vegar ljóst, að síldarkaupendur bjóða allir sama verðið með einni undan­tekningu, sbr. töflu varnaraðila hér að framan.

Engin haldbær skýring hefur verið gefin af hálfu varnaraðila á þeirri lækkun síldarverðs frá fyrra ári, sem núverandi verðlagningu síldarkaupenda felur í sér.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið og skorts á upplýsingum um þróun afurðaverðs á unninni síld frá síðasta ári, leggur formaður úrskurðarnefndar til að eftirfarandi verð skuli lögð til grundvallar við uppgjör til áhafna Húnarastar og Jónu Edvalds.

  1. Síld minni en 200 gr. kr/kg. 9,00
  2. Síld 200-300 gr. kr/kg. 10,00
  3. Síld yfir 300 gr. kr/kg. 11,50

Verðlagningu á bræðslusíld er vísað frá úrskurðarnefnd.

Úrskurður þessi skal gilda frá 1. nóvember 1999 til 1. janúar 2000.

Úrskurðarorð:

Skinney-Þinganes hf. skal við uppgjör til áhafna skipanna Húnarastar og Jónu Edvalds miða við eftirfarandi síldarverð.

  1. Síld minni en 200 gr. kr/kg. 9,00
  2. Síld 200-300 gr. kr/kg. 10,00
  3. Síld yfir 300 gr. kr/kg. 11,50

Verðlagningu á bræðslusíld er vísað frá úrskurðarnefnd.

Úrskurður þessi skal gilda frá 1. nóvember 1999 til 1. janúar 2000.

Skúli J. Pálmason

Samþykkir:

Sævar Gunnarsson
Guðjón A. Kristjánson
Helgi Laxdal