Fara í efni

Úrskurður nr. 8/1998

Árið 1998, mánudaginn 23. nóvember er fundur haldinn í Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Mættir eru: Guðjón A. Kristjánsson, Helgi Laxdal, Sævar Gunnarsson, Kristján Ragnarsson, Sveinn Hjörtur Hjartarson, Pétur H. Pálsson og Skúli J. Pálmason, formaður nefndarinnar.

Fyrir er tekið mál nr.U-8/1998

Vélstjórafélag Íslands, Sjómannasamband Íslands og

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands

fh. áhafnar

Grundfirðings SH-24

gegn

Soffaníasi Cecilssyni hf.

og kveðinn upp svohljóðandi

Úrskurður:

Verðlagsstofa skiptaverðs (VSS) skaut máli þessu til úrlausnar nefndarinnar með bréfi dagsettu 4. nóvember sl. með vísan til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 13/1998. Í bréfinu kom m.a. fram, að VSS hafi borist ósk um að athuga verð á hörpudiski hjá Sigurði Ágústsyni hf. og síðan formleg beiðni frá Farmanna og fiskimannasambandi Íslands (FFSÍ) um athugun á verði á hörpudiski í Grundarfirði, og á það bent, að verð á hörpudiski til áhafnar Grundfirðings SH-24 væri talsvert lægra en annar skelfiskverkandi greiddi fyrir sambærilegan afla. Í bréfinu segir ennfremur, að löng hefð sé fyrir því að greiða tvenns konar verð eftir stærð, annars vegar fyrir skel 6-7 cm að stærð og hins vegar fyrir skel 7 cm. og stærri. Í niðurlagi bréfsins segir svo: "Verðlagsstofa tekur undir þau sjónarmið sem komið hafa fram í umsögnum að tvö verð séu betri en eitt og jafnframt að ekki sé óeðlilegt að einhver mismunur muni eiga sér jafnan stað í verðlagningu hráefnis. Að athuguðu máli telur verðlagsstofa þó að skelfiskverð til Grundfirðings SH-24 víki frá því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla........"

Málið var fyrst tekið fyrir á fundi úrskurðarnefndar 6. nóvember sl. Fulltrúar sjómanna í nefndinni tóku að sér að sækja málið f.h. áhafnar, en fulltrúar útvegsmanna kváðust gæta hagsmuna útgerðar Grundfirðings. Málinu var síðan frestað til næsta fundar, sem haldinn var 11. þessa mánaðar. Þar náðist ekki samkomulag með fulltrúum hagsmunaaðila í nefndinni og var því ákveðið að tilkveðja formann nefndarinnar á næsta fund hennar, sem nú fer fram.

Á fundinum 11. nóvember sl. var ennfremur ákveðið, að fulltrúar hagsmunaaðila skiluðu Verðlagsstofu skiptaverðs skriflegum greinargerðum fyrir næsta fund, fyrst fulltrúar sjómanna, sem sækjendur málsins, en síðan fulltrúar útgerðarmanna og skyldu hvorir um sig gera þar grein fyrir kröfum sínum og þeim sjónarmiðum, sem þær byggðust á. Greinargerðir þessar eru nú lagðar fram og skýrðar munnlega af fulltrúum hagsmunaaðila.

Kröfur og sjónarmið sóknaraðila.

Sóknaraðili leggur áherslu á það, að allt frá því að Verðlagsráð sjávarútvegsins hætti að verðleggja hörpuskel fyrir u.þ.b. fimm árum, hafi verið beitt svipuðum reglum við verðlagningu og þá hafi gilt. Sátt hafi myndast um það að miða verðlagninguna við upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun, en þó hafi sjómenn sjaldnast náð að fylgja eftir til fulls verðþróun í uppsveiflu, en oftast þurft að sætta sig við verðlækkun, þegar verð hafi farið lækkandi, en verð á hörpudiski sé mjög sveifukennt á erlendum mörkuðum. Það væri því illa að verki staðið, ef kollvarpa ætti þeim grunni, sem viðgengist hafi við verðmyndun á hörpuskel við Breiðafjörð.

Það sé því krafa sóknaraðila, að úrskurðarnefnd leggi til grundvallar við verðákvörðun á hörpuskel til áhafnar Grundfirðings SH-24, þær breytingar, sem orðið hafi á á verði þessa hráefnis eins og fyrirliggjandi upplýsingar Þjóðhagsstofnunar beri með sér. Samkvæmt yfirlitstöflu frá Þjóðhagsstofnun um verðþróun á hörpuskel ætti verð til áhafnar að nema kr. 44,32 fyrir 7 cm skel og stærri, en kr. 33.96 fyrir skel 6-7 cm. miðað við októberverð og það sé sú krafa, sem sóknaraðili geri f.h. áhafnar Grundfirðings SH-24 á hendur útgerð skipsins.

Með því að ákveða verðið með þessum hætti væri skipverjum á Grundfirðingi SH-24 bætt að nokkru upp það tekjutap, sem þeir hafi orðið fyrir vegna allt of lágs verðs, sem útgerðin hafi fallist á að greiða. Þetta sé þeim mun eðlilegra, sé litið til þess, að kvóti skipsins sé uppveiddur að mestu og útgerðin hafi þegar haft af áhöfninni umtalsverða fjármuni með því að bjóða ávallt lægsta hörpuskelsverðið. Jafnvel þótt fallist verði á kröfu sóknaraðila, sé einsýnt að tjón áhafnar verði ekki jafnað eða bætt.

Kröfur og sjónarmið varnaraðila:

Krafa sóknaraðila er á þá leið, að samningur útgerðar Grundfirðings SH 24 við áhöfn skipsins teljist ekki óeðlilegt frávik í frjálsum fiskverðsamningi.

Varnaraðili vísar til þess, að VSS hafi í bréfi sínu til nefndarinnar frá 4. nóvember sl. látið í ljósi það álit, að stofan legði ekki mælistiku á það, í hvaða mæli samningur víki frá því fiskverði, sem almennt tíðkaðist við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði. Það væri á starfsviði úrskurðarnefndar að meta. Í bréfinu segi orðrétt. "Stofan mun ekki láta í ljós álit á né hafa skjalfest hvort t.d. 5%, 10% eða enn stærra frávik í einstökum útreikningum sé mælikvarði á hvort til málskots hafi komið". Útreikningar VSS sýni, að samningur sá, sem hér sé til umfjöllunar víki um 11,1% frá meðalverði þeirra samninga, sem stofan miði við.

Því sé tekist á um það í máli þessu, hvort 11,1% frávik í gildandi fiskverðssamningi milli útgerðar og áhafnar Grundfirðings SH 24 geti talist óeðlilegt frávik.

Varnaraðili vekur athygli á því, að við sölu á hörpudiski geti orðið óvenjusnöggar og lítt fyrirsjáanlegar verðsveiflur, sem áhöfn skipsins hljóti að hafa verið kunnugt um við samningsgerðina, enda velþekkt fyrirbæri. Áhætta útgerðarinnar við gerð samningsins hafi falist í því, að verðlækkun á skel hefði lent á henni. Varnaraðili mótmælir þeirri staðhæfingu sóknaraðila, að áhöfn skipsins hafi verið beitt valdi til að knýja fram óeðlilegt hörpuskelsverð, enda liggi ekkert fyrir um það í gögnum málsins. Útgerðin hafi þvert á móti samþykkt 6% hækkun skelverðs í upphafi vertíðar.

Hafnað er kröfu sóknaraðila um að verð á skel 7 cm og stærri verði hækkað úr 36,04 kr./kg. í 44,32 kr./kg. eða um 23%, svo og að verð á minni skel verði hækkað úr 26,40 í 33.96 kr./kg. eða um 28,6%. Sú krafa taki í engu tilliti til þeirrar staðreyndar að gildandi verðsamningur víki ekki óeðlilega frá sambærilegum samningum. Þessi krafa myndi leiða til þess að verð það, sem útgerðin greiddi myndi verði 10,4% yfir meðalverði þeirra samninga, sem VSS miði við í þessu máli.

Forsendur og niðurstaða:

Verðlagsstofa skiptaverðs skaut máli þessu til úrskurðarnefndar með bréfi dags. 4. nóvember sl. samkvæmt heimild í 2. mgr. 7. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd nr. 13/1998, eins og áður segir.

Ákvæði 7. gr. hljóða svo: "Víki fiskverð við uppgjör á aflahlut áhafnar í verulegum atriðum frá því sem algengast er við sambærilega ráðstofun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða skal Verðlagsstofa skiptaverðs taka málið til sérstakrar athugunar. Skal stofan afla allra gagna um ráðstöfun afla viðkomandi skipts og verðlagninu hans, upplýsinga um samninga útgerðar og áhafnar skipts um fiskverð, umsagna útgerðar og áhafnar um málið og annarra gagna er máli skipta

Telji Verðlagsstofa ekki fram komnar fullnægjandi skðýringar skal hún skjöta málinu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna skv. II. kafla laga þessara með kröfu um að úrskurðarnefnd ákveði fiskverð er nota skal við uppgjör á aflahlut áhafnar skips skv. 1. mgr. svo og naðusynlegar upplýsingar um verðlagningu sambærilegs afla í hliðstæðum viðskiptum."

Í 9. gr. laganna eru þeir aðilar tilgreindir, sem geta skotið málum til úrskurðarnefndar. Þar kemur fram, að hagsmunasamtök sjómanna og vélstjóra annars vegar og útvegsmanna hins vegar geta hver um sig skotið málum til nefndarinnar í þeim tilvikum þar sem ekki hafa tekist samningar um fiskverð milli áhafnar og útgerðar. Verðlagsstofa skiptaverðs getur aftur á móti vísað málum til ákvörðunar nefndarinnar, eftir að fiskverðssamningar hafa tekist, ef þar er hallað á sjómenn viðkomandi skips að hennar mati. Verkefni stofunnar gæta þess að fiskverðssamningar sem útgerð og áhöfn er skylt að gera samkvæmt ákvæðum kjarasamninga þessara aðila, séu gerðir og rétt þar að verki staðið, þannig að ekki sé hallað á sjómenn. Stofunni ber að kalla eftir öllum fiskverðssamningum og leggja mat á efni þeirra.

Í áðurnefndu bréfi Verðlagsstofu til úrskurðarnefndar frá 4. nóvember sl. er þeirri skoðun lýst, að úrskurðarnefnd sé m.a. ætlað það hlutverk að meta, hvort frávik í samningi milli áhafnar og útgerðar Grundfirðings SH-24 sé svo verulegt, að samninginn beri að ógilda. Hlutverk VSS sé það eitt að vekja athygli nefndarinnar á samningnum og leggja fram gögn, sem byggja megi niðurstöðu á.

Meiri hluti úrskurðarnefndar getur ekki fallist á þetta álit VSS, en lítur aftur á móti svo á, að túlka beri 7. gr. laganna með þeim hætti með vísan til þess, sem að framan er rakið, að það sé alfarið á starfsviði VSS að meta, hvort uppgjör á aflahlut áhafnar víki í verulegum atriðum frá því sem algengast sé. Hlutverk úrskurðarnefndar sé það eitt að ákveða fiskverð, sem gilda skuli við uppgjör milli útgerðar og áhafnar í þeim málum, sem henni berast. Við þá ákvörðun beri að fara eftir fyrirmælum 11. gr. tilvitnaðra laga óháð því, hver þeirra aðila, sem lögbundna heimild hefur til að leita úrlausna nefndarinnar, á aðild að málskoti til hennar.

Fyrirmæli 11. gr. eru svohljóðandi: "Úrskurðarnefnd skal við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa fiskverðs (á að vera skiptaverðs) hefur safnað.

Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið miða af veriði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. ......."

Fyrirmæli 2. mgr. 11. gr. núgildandi laga um úrskurðarnefnd er samhljóða 2. mgr. 5. gr. fyrri laga um úrskurðarnefnd nr. 84/1995. Nefndin hefur í störfum sínum að jafnaði túlkað lagaákvæði þetta svo, að nærtækast sé að miða við meðalverð, við ákvörðun þess, hvað felist í hugtakinu "algengast fiskverð við sambærilega ráðstöfun afla" enda hlýtur það að endurspegla algengasta verðið.

Rétt þykir að fara eins að í máli því, sem hér er til úrlausnar.

Gögn þau, sem VSS hefur lagt fyrir úrskurðarnefnd, svo og þau gögn, sem sóknar- og varnaraðilar hafa aflað og lagt nefndinni til leiða eftirfarandi í ljós.

Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar hefur afurðaverð á hörpudiski hækkað frá júlímánuði sl. sem hér segir: Júli kr./kg. 250,62, ágúst 252,43, september 279,11, október 283,68. Frá áramótum til júlí sl. hefur afurðaverð verið óbreytt um 250 kr./kg.

Upplýsingar VSS um verð til áhafna þeirra skipa, sem stunda veiðar á hörpuskel á Breiðafirði leiða eftirfarandi í ljós:

Í þremur tilvikum eru greiddar 29,50kr./kg. fyrir skel 6-7cm, en 38,40 kr./kg. fyrir skel 7cm og stærri. Fiskverðssamningar hafa verið gerðir í tveimur þessara tilvika.

Í fjórum tilvikum eru greiddar 38,40kr./kg. fyrir alla skel stærri en 6 cm, þar af hefur í einu tilviki verið gerður skriflegur samningur við áhöfn.

Í tveimur tilvikum eru greiddar 38,77 kr./kg. fyrir alla skel stærri en 6 cm og liggur samningur þar fyrir í báðum tilvikum.

Loks er samningur sá við áhöfn Grundfirðings SH-24, sem hér er til meðferðar. Samkvæmt þessum samningi greiðir útgerðin 26,40 kr./kg. fyrir skel 6-7 cm. en kr. 36,04 kr./kg. fyrir skel stærri en 7 cm.

Sé litið til þess verðs, sem uppgjör áhafna annarra skipa miðast við, sem stunda veiðar á hörpudiski á sömu veiðislóð og Grundfirðingur SH 24 og til þeirrar verðþróunar afurðaverðs, sem átt hefur sér stað á síðustu tveimur mánuðum, þykir rétt útgerð Grundfirðings SH 24 skuli miða uppgjör til áhafnar skipsins við eftirfarandi verð. Hörpuskel 6-7 cm kr./kg. Hörpuskel 7cm og stærri kr./kg.

Úrskurður þessi skal gilda frá 11. nóvember 1998 til 31. desember s.á.

Úrskurðarorð:

Soffanías Cecilsson hf. skal miða uppgjör sitt til áhafnar Grundfirðings SH 24 við eftirfarandi verð á hörpudiski.

Hörpuskel 6-7 cm kr./kg.

Hörpuskel 7cm og stærri kr./kg.

Úrskurður þessi skal gilda frá 11. nóvember 1998 til 31. desember s.á.

Að úrskurði stóðu:

Skúli J. Pálmason
Pétur H Pálsson
Sveinn Hjörtur Hjartarson
Kristján Ragnarsson