Fara í efni

Úrskurður nr. 8/1999

Ár, 1999, 15. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna að hafnarhvoli við Tryggvagötu Reykjavík. Mættir voru, Guðjón A. Kristjánsson, Sveinn Hjörtur Hjartarson, Kristján Ragnarsson, Sturlaugur Sturlaugsson, Helgi Laxdal, Sævar Gunnarsson auk oddamanns Valtýs Sigurðssonar.

 

Fyrir er tekið málið nr. U 8/1999

heildarsamtök sjómanna f.h. áhafnar Hrungnis GK-50

gegn

útgerð Vísis hf.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

I.

Með bréfi, dags. 5. október sl., vísaði sjómannasamband Íslands f.h. áhafnar Hrungnis GK-50 til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna ágreiningi við útgerð skipsins Vísi hf. um verð fyrir þorsk sem seldur er útgerðinni.

Erindið var tekið fyrir á fundi úrskurðarnefndar 8. nóvember sl. og var þar að kalla til oddamann en ljóst var að ekki yrði samkomulag í málinu. Ákveðið var að heildarsamtök sjómanna f.h. áhafnar yrðu sóknaraðilar málsins.

Sóknaraðili skilaði greinargerð, dags. 11. nóvember sl. og greinargerð varnaraðila er dags. 12. nóvember sl. Verðlagsstofa skiptaverðs hefur aflað gagna fyrir nefndina.

Á fundi nefndarinnar 15. nóvember voru gögn þessi lögð fram. Þá tjáðu aðilar sig um fram komnar kröfur og færðu fram rök fyrir þeim. Málið var að því búnu lagt í úrskurð.

II.

Helstu málsatvik og sjónarmið aðila.

Varnaraðili rekur fiskvinnslu og gerir út Hrungni GK-50 ásamt fimm öðrum bátum. Að undanförnu hafa átt sér stað árangurslausar samningaumleitanir milli hans og áhafnar Hrungnis GK-50 um verð á þorski.

Með bréfi til Sjómannasambands Íslands dagsettu segir: Við undirrituð áhöfn Hrungnis GK-50 teljum okkur ekki ná viðunandi samningum við útgerð Vísis hf. Grindavík. Fyrri samningur rann út 1. september 1999 og förum við fram á að nýr samningur gildi frá þeim tíma. Áhöfn óskar eftir að úrskurðarnefnd taki málið til afgreiðslu f.h. áhafnar Sævar Sigurhannsson “

Kröfur sóknaraðila og helstu sjónarmið.

Sóknaraðili krefst eftirfarandi fiskverðs fyrir áhöfn Hnungnis GK-50.

Þorskur:

Stærð: Krafa: Verð nú

50 cm - 70 cm 75 kr/kg 66 kr/kg

70 cm - 8 kg 105 kr/kg 95 kr/kg

8 kg og yfir 120 kr/kg 113 kr/kg

Annar afli:

Undirmálsþorskur og annar afli skal seldur á fiskmarkaði eða greitt skal 100% markaðsverð fyrir aflann.

Þess er krafist að gildistími úrskurðar verði frá 5. nóvember 1999 til 5. febrúar 2000.

Sóknaraðli byggir á 11. grein laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Auk þess segi skýrt í kjarasamningum milli sjómanna og útvegsmanna að útgerðarmaður hafi með höndum sölu aflans og skuli hann tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn.

Í greinargerð útgerðarinnar til Verðlagsstofu skiptaverðs séu tíundaðar breytingar á afurðaverði hjá fyrirtækinu. Þar sem ekki sé um opinberar tölur að ræða beri nefndinni að horfa fram hjá slíkum upplýsingum. Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar um afurðaverð hafi afurðaverð, bæði á landfrystum og á söltuðum þorski, staðið í stað síðustu mánuði, en ekki lækkað eins og útgerðin heldur fram.

Sá fiskverðssamningur, sem gilt hafi á skipinu, hafi verið gerður í upphafi síðasta fiskveiðiárs, eða nánar til tekið í september 1998. Samningurinn hafi ekki breyst síðan þrátt fyrir hækkun á afurðaverði á samningstímanum og almennar fiskverðshækkanir í kjölfarið. Nýjustu upplýsingar um greitt fiskverð séu frá ágúst síðastliðnum. Þegar síðast gildandi samningur um fiskverð hafi verið gerður, voru nýjustu upplýsingar um fiskverð frá ágúst 1998. Því sé eðlilegt í þessu máli að skoða breytingar á greiddu fiskverði miðað við heilt ár. Í eftirfarandi töflu séu tíunduð meðalverð fyrir slægðan þorsk veiddan á línu í mánuðunum júní, júlí og ágúst 1998 annars vegar og 1999 hins vegar. Miðað sé við landssvæðið Reykjanes og séu upplýsingarnar fengnar af heimasíðu Verðlagsstofu skiptaverðs og meðalverð mánaðanna vegið saman miðað við sölumagn og meðalverð hvers mánaðar. Niðurstaðan sé eftirfarandi samkvæmt heimildum Verðlagsstofu skiptaverðs:

Reykjanes, slægður þorskur: Bein sala Markaður

Meðalverð júní - ágúst 1998 76,92 kr/kg 105,83 kr/kg

Meðalverð júní - ágúst 1999 82,22 kr/kg 120,54 kr/kg

Breyting % 6,9% 13,9%

Eins og hér sjáist hafi slægður línu þorskur í beinni sölu hækkað um 6,9% á Reykjanesi og á fiskmörkuðunum á sama svæði sé hækkunin 13,9%. Meðalvísitala afurðaverðs á þorski í frystingu og söltun hafi hækka um 11-12% fyrir sömu mánuði, þ.e. júní - ágúst 1998 annars vegar og júní - ágúst 1999 hins vegar.

Sóknaraðili telur að krafan hans sé í fullu samræmi við þær viðmiðanir sem nefndinni beri að nota samanber framangreindar upplýsingar.

Kröfur varnaraðila og helstu sjónarmið.

Af hálfu varnaraðila er hafnað kröfum sóknaðila um hækkun á þorskverði til áhafnar Hrungnis GK-50 umfram tilboð útgerðarinnar.

Varnaraðili telur að áhöfninni hafi verið boðið hæsta verð sem önnur skip í eigu útgerðarinnar fái og hafi gert skriflega samninga um. Varnaraðili geri út 6 línuskip og hafi fjögur skip þegar gengið frá samningi um fiskverð við útgerðina. Samningar við áhafnir séu ekki samhljóða, þar sem samið sé við hverja áhöfn fyrir sig. Varnaraðili haf veitt loforð sitt fyrir því að bjóða öllum áhöfnum að leiðrétta samninga sína til jafns við þann samning sem sé bestur af fyrirliggjandi samningum, þ. e. fiskverðssamningurinn við áhöfn Sighvats GK.

Varnaraðili leggur því til að umræddur samningur gildi einnig fyrir áhöfn Hrungnis GK 50 og eftirfarandi tilboð um þorskverð verði staðfest af úrskurðarnefndinni:

  Áætluð aflasamsetning Kr.kgTilboð Vegið meðalverð Fyrra verð kr.kg. Hækkun %mv. tilboð útgerðar
Fl. 3 (1 til 2,6 kg.)* 29,07 % 70,00 3,67 66,00 6,0
Fl. 2 (2,6 til 8 kg. ) 67,86 % 97,00 65,82 95,00 2,0
Fl. 1 (8 kg. og yfir) 3,06 % 120,00 20,35 113,00 6,2
      89,85    

 

*Útgerðin óskar eftir því að flokkunin verði framvegis miðuð við kílógrömm þar sem afurðirnar eru seldar miðað við þyngd í kílógrömmum. Þegar hefur náðst samkomulag við áhöfn Sighvats GK vegna þessarar óskar útgerðar.

Allur annar afli en þorskur verður 100 % markaðstengdur eða seldur á fiskmarkaði. Samningstíminn verði þrír mánuðir frá gildistíma úrskurðar.

Ofangreint tilboð er að meðaltali 10,2 % yfir því meðaltali þorskverðs miðað við óflokkaðan fisk, sem fram kemur í þeim fiskverðssamningum sem Verðlagsstofa hefur tekið saman upplýsingar um.

Samkvæmt upplýsingum varnaraðila nú í nóvember séu breytingar á verði saltfisks í íslenskum krónum á saltfiski á Spánarmarkaði, sem hér segi milli ára:

Árið: 1998 1999  
Flokkun: kr. kg. kr. kg. Mismunur í %:
Fl. 1 (1 til 2,6 kg.) 359,88 335,32 -6,83
Fl. 2 (2,6 til 8 kg. ) 403,65 409,05 +1,33
Fl. 3 (8 kg. og yfir) 447,15 481,01 +7,60

Umrætt tilboð, sem varnaraðili leggi hér fram miði að því að hækka verð á þorskinum þrátt fyrir afurðaverðslækkun á markaði í minnstu flokkum.

 

III.

Forsendur og niðurstaða

Í 11. grein laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna segir: „Úrskurðarnefnd skal við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa fiskverðs hefur safnað. Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs“.

Samkvæmt þessu eru í lögum tæmandi talin þau atriði sem úrskurðarnefnd skal hafa til viðmiðunar í verðákvörðun sinni. Því verður ekki af hálfu úrskurðarnefndar byggt á almennum ákvæðum kjarasamninga milli sjómanna og útvegsmanna þess efnis að útgerðarmenn sem hafi með höndum sölu aflans og skuli tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn.

Óumdeilt er að varnaraðili verkar afla skipa sinna í salt. Samkvæmt greinargerð sóknaraðila hefur vísitala saltaðs þorsks hækkað á því tímabili sem sóknaraðili miðað við um 11,3%. Sé hins vegar miðað við annað tímabil er hækkun þessi mun minni. Þannig nemur hún aðeins 4,3% ef miðað er við september 1998 til október 1999.

Samkvæmt upplýsingum Verðlagsstofu skiptaverðs hefur meðalverð á slægðum þorski á línu á Reykjanesi hækkað á tímabilinu september 1998 til september 1999 um 4,5% og 5% á landinu öllu.

Af hálfu sóknaraðila er gerð krafa um hækkun verðs á þorski sem skipt er í 3 flokka.

Í 3. flokki, þ.e. 50 cm – 70 cm krefst sóknaraðili 75 kr/kg en tilboð varnaraðila hljóðar upp á 70 kr/kg. en það er 6% hækkun frá gildandi samningsverði. Þegar hliðsjón er höfð af þeim sjónarmiðum sem rakin hafa verið hér að framan ákvarðast verð á þorski samkvæmt þessum flokki 70 kr/kg.

Í 2 flokki, þ.e.70 cm- 8 kg., krefist sóknaraðili 105 kr/kg. en tillboð varnaraðila hljóðar upp á 97 kr/kg. en það er 2% hækkun frá gildandi samninngsverði. Þegar hliðsjón er höfð af þeim sjónarmiðum sem rakin hafa verið hér að framan ákvarðast verð á þorski samkvæmt þessum flokki 101 kr/kg.

Í 1. flokki, þ.e. 8 kg. og yfir, krefst sóknaraðili 120 kr/kg en það er 6,2% hækkun frá gildandi samninngsverði sem er 113 kr/kg. Hvað þennan flokk varðar þá hefur varnaraðili boðið þetta verð og því ekki ágreiningur um hann.

Aðilar eru sammála um að allur annar afli en þorskur sem verðlagður er verði markaðstengdur eða seldur á fiskmarkaði telst sá kröfuliður ágreiningslaus.

Samkvæmt þessu skal verð á þorski til sóknaraðila vera svo sem greinir í úrskurðarorði. skal það gilda frá 5. október 1999 til 5. febrúar árið 2000.

Að úrskurði þessum standa auk formanns nefndarmennirnir Helgi Laxdal, Sævar Gunnarsson og Guðjón A. Kristjánsson

 

Úrskurðarorð:

Verð á þorski í viðskiptum áhafnar Hrungnis GK-50 og Vísis hf. skal vera.

  1. flokkur, þ.e. 50 cm-70 cm. 70 kr/kg
  2. flokkur, þ.e 70 cm.-8 kg. 101 kr/kg.
  3. flokkur, þ.e. 8 kg. og yfir 120 kr/kg

Allur annar afli en verðlagður er skal markaðstengdur eða seldur á fiskmarkaði

Úrskurður þessi gildir milli málsaðila frá 5. október 1999 til 5. febrúar 2000.

Að úrskurði stóðu:

Valtýr Sigurðsson
Sævar Gunnarsson
Helgi Laxdal
Guðjón A. Kristjánsson