Fara í efni

Úrskurður nr. 8/2000

Árið 2000, miðvikudaginn 13. desember er haldinn fundur í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna í húsakynnum Farmanna-og fiskimannasambands Íslands að Borgartúni 18 í Reykjavík.

Mættir eru Grétar Mar Jónsson, Helgi Laxdal og Sævar Gunnarsson frá samtökum sjómanna og vélstjóra, en Sveinn H. Hjartarson er einn mættur af hálfu LÍÚ.

Fyrir er tekið mál nr. U-8/2000:

Farmanna-og fiskimannasambands Íslands
Sjómannasamband Íslands og
Vélstjórasamband Íslands
f.h. áhafnar Þórsness II SH-109
gegn
LÍU v/ Þórsness ehf.

Farmanna-og fiskimannasambands Íslands vísaði máli þessu til úrskurðarnefndar með bréfi til Verðlagsstofu skiptaverðs (VSS) dags. 28. nóvember sl. sem er svohljóðandi: ,,Efni: Úrskurðarbeiðni. Farmanna-og fiskimannasambands Íslands óskar hér með eftir því að úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna taki til úrskurðar deilu milli áhafnar Þórsness SH-109 og Þórsness ehf. sem er útgerðarfélag bátsins. Ágreinurinn er um verð á hörpudiski og er vísað í meðfylgjandi beiðni áhafnar skipsins um vísan á málinu til úrskurðarnefndar”. Beiðni áhafnar, sem vísað er til í bréfi Farmanna-og fiskimannasambands Íslands, er dagsett 22. nóvember sl. og hljóðar svo: ,,Við undirritaðir áhöfnin á Þórsnesi II SH-109 óskum eftir því að Aldan sjái um að verðlagsmál okkar og fyrirtækisins á yfirstandandi skelvertíð verði tekin til afgreiðslu hjá úrskurðarnefndinni þar sem enn er ósamið fyrir okt. og nóv.”.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir á fundi í úrskurðarnefnd mánudaginn 4. desember sl. Þar voru mættir fulltrúar hagsmunaaðila í nefndinni, ásamt formanni hennar.. Ekki náðist samkomulag og var því ákveðið, að formaður gerði drög að úrskurði og legði fyrir næsta fund nefndarinnar, sem ákveðið var að yrði í dag, 13. desember. Einnig var þar ákveðið að fulltrúar sjómanna í nefndinni skiluðu greinargerð 6. þessa mánaðar en fulltrúar útvegsmanna degi síðar. Hvort tveggja gekk eftir.

Eftirleiðis verður vísað til fulltrúa sjómannasamtakanna, sem gæta hagsmuna áhafnar Þórsness II SH-109 sem sóknaraðila en til fulltrúa LÍU, sem gæta hagsmuna Þórsness ehf. sem varnaraðila,

Um er að ræða viðskipti milli skyldra aðila, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1998

Sóknaraðili gerir þær kröfur, að úrskurðað verði, að verð á hörpudiski til áhafnar Þórsness II SH-109 verði ákveðið kr. 43.71 kr/kg miðað við að afli sé samsettur þannig, að 70% aflans sé stór skel, en 30% lítil skel.

Varnaraðili krefst þess aftur á móti, að kröfu fulltrúa sjómanna í máli áhafnar Þórsness II SH-109 verði hafnað.

Sjónarmið og rökstuðningur sóknaraðila:

Sóknaraðili byggir á því, að meðalverð á hörpudiski hafi verið 36.00 við upphaf síðasta veiðitímabils, sem hafist hafi um mánaðamótin ágúst/september sl. Þetta verð hafi einnig gilt veiðitímabilið á undan. Ekki hafi legið fyrir upplýsingar um afurðaverð á hörpudiski um mánaðamótin ágúst/september sl. þegar hráefnisverðið var ákveðið. Nú liggi það aftur á móti fyrir, að full ástæða hafi verið til þess að hækka meðalverðið fyrir ágúst sl. í 38.28 kr/kg. Með hliðsjón af upplýsingum Þjóðhagsstofnunar sé full ástæða til að hækka meðalverðið um 12.6% frá ágúst til nóvember þessa árs.

Krafa sóknaraðila sé gerð á grundvelli 2. mgr. 11. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs o.fl. nr. 13/1998, en þar segi: ,,Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Varði ákvörðun nefndarinnar fiskverð í skiptum óskyldra aðila skal og tekið tillit til heildarráðstöfunar á afla skips.

Áhöfn Þórsness SH-109 hafi árangurslaus reynt að ná samkomulagi við útgerð skipsins um verð á hörpudiski.

Með hliðsjón af framansögðu velur sóknaraðili kröfu sína sanngjarna og byggða á hlutlægum rökum en áskilur sér rétt til frekari málsútlistunar og röksemda á síðari stigum málsins.

Sjónarmið og rökstuðningur varnaraðila.

Varnaraðili hafnar kröfu sóknaraðila og vísar til síðasta úrskurðar nefndarinnar í máli nr. U-7/2000, sem kveðinn var upp 4. þessa mánaðar. Varnaraðili telur að sama niðurstaða eigi við í þessu máli og vísa til forsendna og niðurstöðu í máli nr. U-//2000 til stuðnings málstað sínum. Þá vísar varnaraðili til þess, að Þórsnes ehf. hafi þegar náð samkomulagi við áhöfn Hrannars BA-335, sem sé einnig í eigu félagsins. Þar hafi verið samið um 38.50 kr./kg. fyrir hörpudisk 6 cm og stærri og gildi sá samningur frá 1. nóvember sl. til 15. febrúar 2001.

Forsendur og niðurstaða:

Þórsness ehf. hefur boðið áhöfn Þórsness II SH-109 37 kr./kg. fyrir hörpudisk 6 cm eða stærri, samkvæmt samningsdrögum, sem sóknaraðili lagði fram með kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar. Kröfu varnaraðila verður aftur á móti að skilja svo, að í henni felist boð um að greiða áhöfn Þórsness II SH-109 sama verð og úrskurðarnefnd úrskurðaði í máli nr. U-7/2000, enda hafi útgerð skipsins, þegar samið svo við útgerð Hrannars BA-335. Um er að ræða boð um greiðslu á 38.50 kr./kg. eins og að framan er lýst.

VSS hefur aflað upplýsinga um verð á hörpudiski, sem verkendur í Grundarfirði og Stykkishólmi hafa greitt útgerðum á yfirstandandi vertíð og uppgjör til áhafna hefur miðast við. Meðalverð hefur verið rétt undir 36 kr./kg. sé litið fram hjá einum kaupanda, sem er sker sig úr með langlægsta verðið. Einnig kemur fram í upplýsingum VSS, að flestar útgerðir við Breiðafjörð, sem stunda veiðar á hörpudiski á Breiðafirði, hafa boðið áhöfnum skipa sinna verð u.þ.b. 38.50 kr./kg. frá 1. nóvember sl. að telja.

Formaður úrskurðarnefndar óskaði eftir því við VSS í tengslum við meðferð máls nr. U-7/2000, með vísan til 1. mgr. 11. gr. og 12. gr. laga nr. 13/1998, að látnar yrðu í té upplýsingar um þróun afurðaverðs og hráefnisverðs á hörpudiski á tímabilinu frá október 1998 til nóvembermánaðar þessa árs. Þessi viðmiðun var sérstaklega valin með tilliti til úrskurðar nefndarinnar í máli nr U-8/1998 um verð á hörpudiski. Sá úrskurður var kveðinn 23. nóvember 1998. Frá þeim tíma hefur ekki verið fjallað um verð á hörpudiski í úrskurðarnefndinni, fyrr en með úrskurði U-7/2000.

Niðurstöðu þessarar könnunar VSS er að finna í töflu, sem birt er í lok úrskurðar þessa og ber að skoða sem hluta af texta hans.

Verð það, sem sóknaraðili vísar til og byggir kröfu sína á, er verð og vísitala ágústmánaðar sl. Þar var meðalverðið 36.2 kr./kg. en vísitalan 92.3. Hækkun frá þeim tíma er 11.81%.

Sjá má í meðfylgjandi töflu, að meðalverð nóvember 1998 var 37.7 kr./kg. en vísitala sjávarafurða v/ hörpudisks var þá 102,9, en er í dag 103.2, sem þannig ætti að svara til 37.81 kr./kg. í dag.

Með vísan til þessa og með hliðsjón af úrskurði í máli nr. U-7/2000, þykir að rétt að ákveða, að verð til áhafnar Þórsness SH-109, skuli vera 38,50 kr./kg. enda er það í samræmi við það verð, sem algengast virðist vera á þessu svæði.

Úrskurður þessi skal gilda til 1. janúar 2001.

Úrskurðarorð:

Þórsnes ehf. skal miðað uppgjör sitt til áhafnar Þórsness SH-109 við 38.50 kr./kg. fyrir allan hörpudisk 6 sm og stærri.

Úrskurður þessi gildir til 1. janúar 2001.

 

Skúli J. Pálmason
Sveinn Hj. Hjartarson

 

 

Fylgirit með úrskurði:

 

  Vísitölur sjávarafurða (ÍKR)
frá október 1998 til nóvember 2000
    Meðalverð: Hörpudiskur í
október 1998 til september 2000
        Selt beint til fiskverkenda
    Hörpudiskur   verð (kr) tonn
  okt. 1998 106,7   37,2 2034
úrsk. '98 nóv. 1998 102,9   37,7 1855
  des. 1998 101,3   37,5 1092
  jan. 1999 100   36,1 1171
  feb. 1999 98,7   35,6 288
  mar. 1999 97,5   35,7 19
  apr. 1999 97,1   - 0
  maí 1999 97,3   - 0
  jún. 1999 95,8   - 0
  júl. 1999 95,7   33,7 5
  ág. 1999 100,5   34,8 422
  sep. 1999 99,1   35,5 1788
  okt. 1999 100,5   35,3 1850
  nóv. 1999 96,5   36,3 2028
  des. 1999 94,3   36,2 1257
  jan. 2000 94,5   35,8 1211
  feb. 2000 92,7   35,7 539
  mar. 2000 91,5   - 0
  apr. 2000 90,3   36,0 22
  maí 2000 89,8   - 0
  jún. 2000 92,7   - 0
  júl. 2000 92,4   - 0
  ág. 2000 92,3   36,2 555
  sep. 2000 93,2   35,8 1712
  okt. 2000 93,8      
  nóv. 2000 103,2      
    v/ alls   36,3 17848