Fara í efni

Úrskurður nr. 1/2020

Þriðjudaginn 18. ágúst 2020 er kveðinn upp úrskurður í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna skv. lögum nr. 13/1998. Úrskurðurinn byggir á ákvörðun formanns nefndarinnar frá því í júlí 2020, en samþykki meirihluta nefndar lá fyrir með skilaboðum milli formanns og fulltrúa SFS hinn 5. ágúst 2020 sem og samskipta eftir framlagningu nýrra gagna 13. ágúst 2020 og fundar nefndarinnar 14. ágúst 2020.

Fyrir er tekið mál nr. Ú1/2020:

Sjómannasamband Íslands, Félag skipstjórnarmanna og Félag vélstjóra og málmtæknimanna
vegna áhafnar Berglínar GK-300

gegn

Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS)
fh. Nesfisks hf.

Gögn málsins:

1.Bréf vegna vísunar til úrskurðarnefndar dags. 1. júlí 2020.
2.Tölvupóstur Verðlagsstofu til formanns 8. júlí 2020 með fylgigögnum 2.1.-2.5.
   2.1. Verðtafla, óundirrituð, dags. 30. apríl 2020 merkt „Rækjuverð 2020“ ásamt upplýsingum um að áhöfn hafi fengið hana til skoðunar sem samning 12. júní 2020.
   2.2. Bréf Félags skipstjórnarmanna, VM félags vélstjóra og málmtæknimanna, Sjómannafélags Íslands, Verkalýðs og sjómannafélags Keflavíkur og Sjómanna og vélstjórafélags Grindavíkur til Nesfisks ehf. dags. 22. júní 2020.
   2.3. Bréf Nesfisks ehf. dags. 26. júní 2020 til aðila í 2.2.
   2.4. Verðtafla (samningur) dags. 30. apríl 2019, undirritaður af útgerð og áhöfn.
   2.5. Verðtafla merkt „tilboð áhafnar“
3.Fundargerð úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna með fulltrúum tilnefningaraðila vegna fundar 7. júlí 2020. Barst með tölvupósti dags. 9. júlí 2020 til formanns nefndarinnar.
4.Afstaða fulltrúa sjómanna til deilu um formsatriði skv. tölvupósti dags. 10. júlí 2020.
5.Afstaða SFS f.h. útgerðar til deilu um formsatriði skv. tölvupósti dags. 13. júlí 2020, ásamt fylgigögnum 5.1-5.9.
   5.1. Tilboð Nesfisks til áhafnar Berglínar og XXXXXXXXX með verðtöflu merktri „Rækjuverð 2020“ dags. 30. apríl 2020.
   5.2. Tilboð Nesfisks til áhafnar Berglínar og XXXXXXXXX með verðtöflu merktri „Rækjuverð 2020“ dags. 1. maí 2020.
   5.3. Undirritað skjal með dagsetningum 15. og 23. júní 2020 með verðtöflu merktri „Rækjuverð 2020“. Á við um áhöfn XXXXXXXXX.
   5.4. Verðtafla merkt „Rækjuverð 2020“ með tilboði áhafnar.
   5.5. Bréf með vísun til úrskurðarnefndar dags. 1. júlí 2020, sjá lið 1.
   5.6. Tölvupóstsamskipti Nesfisks ehf. og Verðlagsstofu skiptaverðs 7. júlí 2020.
   5.7. Verðtöflur fyrir árin 2016-2019 undirritaðar af útgerð og áhöfn.
   5.8. Tölvupóstur Nesfisks ehf. til áhafna dags. 15. júní 2020.
   5.9. Fiskverðssamningur milli Nesfisks og áhafnar XXXXXXXXX frá 22. júní til 31. desember 2020, dags. 22. júní 2020 og undirritaður af fulltrúum beggja aðila.
6.Tölvupóstsamskipti formanns úrskurðarnefndar og fulltrúa SFS, dags. 13. og 14. júlí 2020 vegna deilu um formsatriði.
7.Tölvupóstsamskipti formanns úrskurðarnefndar og fulltrúa sjómanna, dags. 13. og 14. júlí 2020 vegna deilu um formsatriði.
8.Afstaða formanns úrskurðarnefndar til formsatriðis með tölvupósti dags. 15. júlí 2020 og viðbrögð aðila við þeim þætti málsins með tölvupóstum 15. og 16. júlí 2020.
9.Tölvupóstur fulltrúa SFS vegna óformlegs fundar fulltrúa tilnefningaraðila dags. 16. júlí 2020.
10.Tölvupóstur Verðlagsstofu ásamt gögnum dags. 17. júlí 2020.
11.Sjónarmið fulltrúa SFS með bréfi dags. 17. júlí 2020 ásamt fylgigögnum 11.1-11.11.
   11.1. Verðsamningur XXXXXXXXX dags. í júní 2020.
   11.2. Verðsamningar XXXXXXXXX og XXXXXXXXX.
   11.3. Svar XXXXXXXXX við fyrirspurn Verðlagsstofu.
   11.4. Afstaða fulltrúa sjómanna til afurðaverðs
   11.5. Glærur með upplýsingum um verð á rækju 2019 og 2020.
   11.6. Upplýsingar frá fulltrúa XXXXXXXXX með tölvupósti 16. júlí 2020 vegna stöðu rækjumarkaða 2020.
   11.7. Umfjöllun Fiskifrétta um XXXXXXXXX birt á vefsíðu 12. apríl 2020.
   11.8. Umfjöllun Fiskifrétta um XXXXXXXXX birt á vefsíðu 14. júlí 2020.
   11.9. Tölvupóstur frá sölumanni vegna rækjumarkaðar dags. 6. júlí 2020.
   11.10. Umfjöllun Guardian um atvinnuleysishorfur í Bretlandi 16. júlí 2020.
   11.11. Tilboð í 2 til 3 gáma og hráefnishlutfall 16. júlí 2020, upplýsingar frá Nesfiski ehf.
12.Greinargerð fulltrúa sjómanna dags. 17. júlí 2020.
13.Tölvupóstur Verðlagsstofu skiptaverðs dags. 20. júlí 2020 varðandi uppsögn áhafnar XXXXXXXXX dags. 12. júlí 2020.
14.Tölvupóstsamskipti formanns úrskurðarnefndar og Verðlagsstofu skiptaverðs 20. júlí 2020 heildargögn málsins.
15.Tölvupóstur fulltrúa SFS dags. 20. júlí 2020 með athugasemdum við greinargerð fulltrúa sjómanna.
16.Tölvupóstsamskipti fulltrúa sjómanna dags. 20.-22. júlí 2020 vegna athugasemda við greinargerð fulltrúa SFS.
17.Útreikningur Félags skipstjórnarmanna vegna uppfærðra gagna frá Hagstofu Íslands varðandi útflutningsverðmæti rækju. Skjal sent með tölvupósti 13. ágúst 2020 og uppfært skjal sent 14. ágúst 2020.
18.Úrklippur úr Fiskeribladet 3. apríl, 31. júlí og 3. ágúst 2020 vegna rækjuverðs og úrklippa úr Fiskifréttum „Óvissuástand næstu sex til tólf mánuði“.

Atvik og sjónarmið aðila:

Í bréfi til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna, dags. 1. júlí 2020 var ákvörðun um fiskverð vísað til nefndarinnar á grundvelli laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna nr. 13/1998. Í kjölfar þeirrar vísunar var haldinn fundur hjá nefndarmönnum sem tilnefndir eru af fulltrúum hagsmunasamtaka um málið og skv. fundargerð vegna fundar þessa aðila 7. júlí 2020 var eftirfarandi bókað: „Umræður fóru fram um gildi verðsamnings um rækjuverð milli áhafnar Berglínar GK-300 og Nesfisks ehf., dags. 30. apríl 2019, og frávísun málsins. Þar sem ekki var samstaða á fundinum um formhlið málsins óskuðu fulltrúar sjómanna eftir því að oddamaður yrði kallaður til.

Óskaði formaður úrskurðarnefndar eftir frekari skýringum á ágreiningi um formhlið málsins og gerðu fulltrúar sjómanna annars vegar og útgerðar hins vegar grein fyrir sínum sjónarmiðum varðandi það hvort málið væri tækt til umfjöllunar hjá úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna í tölvupósti á tímabilinu 10.-14. júlí 2020.

Þær upplýsingar leiddu í ljós þá afstöðu fulltrúa sjómanna að líta yrði svo á að í gildi hafi verið samningur um rækjuverð milli áhafnar og útgerðar síðan í lok apríl 2019, þegar haldið var til veiða á árinu 2020 og var krafa fulltrúa sjómanna sem vísuðu máli til nefndarinnar 1. júlí sl. sú að vísa ætti málinu frá úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna þess vegna þar sem gildur samningur væri um fiskverð.

Kröfur fulltrúa SFS fyrir hönd útgerðar voru hins vegar að slíkur samningur hafi ekki verið í gildi þegar veiðar hófust á árinu 2020 og ætti það að leiða til þeirrar niðurstöðu að farið hafi verið til veiða án samnings og þannig sé ágreiningur um verð afurða á árinu 2020 og verði málið þannig að fá efnismeðferð, skv. 13. gr. laga nr. 13/1998, hjá úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, í stað þess að vísa því frá.

Í afstöðu formanns nefndarinnar varðandi formhlið málsins kom fram að þegar skorið væri úr um það hvort samningur er í gildi á milli áhafnar og útgerðar frá árinu 2019 yfir á árið 2020 yrði m.a. að líta til þeirra skriflegu gagna sem liggja fyrir. Ljóst væri af gögnum málsins að það skriflega skjal, sem vísað væri til sem samningur milli áhafnar Berglínar og útgerðarinnar á árinu 2019, væri skjal sem inniheldur verðtöflu sem dagsett er 30. apríl 2019 og undirrituð af fulltrúa útgerðar og tveimur fulltrúum áhafnar. Ekki kæmi fram á skjalinu um hvaða skip sé að ræða eða hvort þar sem þar kemur fram hefði tiltekinn gildistíma en það er hins vegar merkt með heitinu „Rækjuverð 2019“. Ekki væri að sjá af afstöðu aðila að nokkur ágreiningur sé um það milli aðila að þetta er skjalið sem lagt er til grundvallar sem samningur sem tók gildi á árinu 2019. Einnig var bent á að þetta skjal væri sambærilegt nokkrum öðrum skjölum sem liggja fyrir í gögnum málsins og væru öll eins að forminu til, þ.e. heita Rækjuverð, eru merkt tilteknu almanaksári (frá árinu 2016-2019), innihéldu verðtöflu og undirrituð af fulltrúa útgerðar og áhafnar á hverju ári fyrir sig. Ekki lágu fyrir gögn um að slíkum samningum hafi árlega verið sagt sérstaklega upp áður en nýr samningur var gerður eða að þess háttar verklag hafi verið með samningsaðilum.

Hins vegar voru gerðar alvarlegar athugasemdir við að samningar fyrri ára milli útgerðar og áhafnar Berglínar GK-300 hafi ekki verið gerðir í samræmi við gr. 1.28.1 í kjarasamningi aðila þar sem kemur fram að samningur skuli vera í stöðluðu formi, þar sem fram komi m.a. verð einstakra fisktegunda, stærð, gæði, markaðs- og gengisviðmið og áætluð ráðstöfun, gildistími, uppsagnarákvæði o.s.frv.

Þetta leiddi til þeirrar niðurstöðu formanns úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna að orðalagið „Rækjuverð 2019“ yrði ekki túlkað með það víðtækum hætti að segja hafi þurft þeim samningi upp með sérstakri tilkynningu og verður sú niðurstaða ekki leidd af ákvæðum kjarasamnings að ekki sé hægt að gera tímabundna samninga um verð, bundna við hvert almanaksár fyrir sig.

Hvað varðar samskipti áhafnar og útgerðar um samning um rækjuverð á árinu 2020 var því litið svo á að ekki hafi náðst samningar um rækjuverð og ítrekaðar alvarlegar athugasemdir við það fyrirkomulag sem virðist hafa verið viðhaft síðustu ár, varðandi það að ekki hafi verið samið um verð við áhafnir áður en veiðar hefjast. Það fyrirkomulag hafi leitt til þess ágreinings um hvaða verð eigi að greiða fyrir bæði landaðan afla og þess sem á eftir að landa á þessu ári. Ítrekaðar voru einnig þær kröfur til útgerðarmanns sem hefur með höndum sölu afla fyrir hönd áhafnar að gera skýran samning við áhöfn um verð þannig að með gagnsæjum hætti og fyrirfram væri ljóst hverjar forsendur samnings væru, t.d. að það sé samið með skýrum hætti um að áhöfn sé tilbúin til að semja um mögulega óvissu um verð, eftir atvikum vegna markaðsaðstæðna eða annarra aðstæðna sem kunna að koma upp, en það væri ekki einhliða ákveðið af hálfu útgerðar.

Hinn 15. júlí lá því fyrst fyrir niðurstaða um að málið gæti hlotið efnismeðferð skv. 13. grein laga nr. 13/1998 auk afstöðu formanns um að málsmeðferð frestaðist í samræmi við að vísun málsins hefði ekki verið tæk fyrr en þann dag. Athugasemdir bárust frá fulltrúum tilnefningaraðila varðandi tímafresti en ekki var gerður ágreiningur um að úrskurður myndi gilda frá 1. júlí 2020, eða frá þeim degi sem fulltrúar sjómanna sendu málið til úrskurðarnefndar.

Fulltrúar tilnefningaraðila hittust á óformlegum fundi sínum 16. júlí 2020 og sendu sína afstöðu til ágreinings og athugasemdir á tímabilinu 17.-22. júlí 2020. Ekki fóru fram formlegir fundir hjá fullskipaðri úrskurðarnefnd vegna málsins, sem skapaðist annars vegar af afstöðu aðila til efnisatriða og hins vegar af fjarveru formanns. Samskipti formanns við fulltrúa SFS varðandi niðurstöðu meirihluta nefndarinnar fóru fram í gegnum skilaboð hinn 5. ágúst sl.

Sökum þess að frágangur endanlegs úrskurðar tafðist frá lokum júlí fram í ágúst var fulltrúum Félags skipstjórnarmanna gefið færi á að koma á framfæri skjali með uppfærðum tölum frá Hagstofu Íslands varðandi útflutningsverð rækju með tölvupósti hinn 13. ágúst 2020. Fundur var haldinn 14. ágúst 2020 þar sem nefndinni gafst færi á að fara yfir skjalið og viðbótarskjöl voru lögð fram á þeim fundi.

Nú verður gerð grein fyrir sjónarmiðum fulltrúa hagsmunasamtaka um efnisatriði málsins, þ.e. hvaða verð eigi að leggja til grundvallar milli áhafnar Berglínar GK-300 og útgerðarinnar Nesfisks ehf. Fyrst verður gerð grein fyrir afstöðu fulltrúa sjómanna sem vísuðu málinu til nefndarinnar og síðan fulltrúa útvegsmanna.

Afstaða fulltrúa sjómanna, sbr. bréf dags. 17. júlí sl. og síðari samskipti til 22. júlí sl., er sú að verð á rækjuafurðum til áhafnar Berglínar GK-300 eigi að miðast við það tilboð sem áhöfnin gerði útgerðinni í júní sl. og miðast við eftirfarandi töflu:

Fjöldi/kg Verð GBP/kg
Undir 150 2,60
151-200 2,40
201-250 2,10
251-300 1,95
301-350 1,40
351 og yfir 1,00

Fulltrúar sjómanna telja hæpið að miða við verðsamninga sem hafi verið gerðir nýlega milli áhafna rækjuskipa og útgerða þar sem að stærstum hluta sé þar um að ræða skylda aðila, þ.e. kaupendur rækjunnar eigi bæði vinnslu og útgerð. Einnig eru gerðar athugasemdir við að samningar séu ekki gerðir í samræmi við ákvæði kjarasamninga þar sem útgerð setji einhliða fram verðtöflur og ekki sé gegnsæi um verð afurðanna til kaupenda og þannig geti sjómenn ekki sannreynt þær upplýsingar sem verðtöflurnar byggja á.

Fulltrúar sjómanna byggja tillögu sína um verð afurða á gögnum sem fengin eru af vef Hagstofu Íslands um svokölluð fob verð á útfluttri rækju skv. tollskrárnúmerum til Bretlands og sé þar hægt að sjá þróun í verði frá og með janúar 2018 til og með maí 2020. Einnig er byggt á því að þegar fyrstu fimm mánuðir áranna 2019 og 2020 séu bornir saman þá sé ekki munur á verðútreikningum. Ekki sé því hægt að byggja á því að þróun afurðaverðs á Bretlandsmarkaði sé frábrugðin milli ára og þannig eigi að miða við svipuð verð á árinu 2020 og á árinu 2019. Einnig vitna fulltrúar sjómanna til samtala við ónafngreinda heimildamenn varðandi upplýsingar um að það sé mikil sala á frystum sjávarafurðum. Einnig benda fulltrúar sjómanna á að útgerðir frystiskipa hafi ákveðið að gera upp á 80% af áætluðu afurðaverði þar til mál skýrðust og endanlegt afurðaverð lægi fyrir og þannig væri hægt að fara að við ákvörðun rækjuverðs. Fulltrúar sjómanna telja einnig óásættanlegt að útgerðir séu í þeirri stöðu að geta ákveðið endanlegt verð til sjómanna á sama tíma og meginrök útgerðanna gangi út á að markaður sé gegnfrosinn fyrir afurðir.

Hinn 13. ágúst 2020 sendu fulltrúar sjómanna nýtt skjal með uppfærðum tölum frá Hagstofu Íslands þar sem júnímánuður 2020 hafði bæst við fyrri útreikninga. Vakin var athygli fundarmanna á gögnum að baki útreikningum og mögulegum innsláttarmistökum af hálfu Hagstofu vegna verðs á rækjuafurðum til Noregs sem var umtalsvert lægra en annað. Á fundi nefndarinnar var farið yfir tölurnar og afstöðu fulltrúa sjómanna um að þróun afurðaverðs hefði ekki verið þannig milli áranna 2019 og 2020 að það réttlætti að rækjuverð til áhafnar Berglínar GK-300 lækkaði umtalsvert milli ára. Einnig voru lögð fram gögn um rækjuverð í Noregi.

Afstaða SFS sem fulltrúa útgerðar birtist í greinargerð dags. 17. júlí 2020 og með frekari athugasemdum til 20. júlí sl., er aðallega sú að verð fyrir rækju til áhafnar Berglínar GK-300 eigi að taka mið af verðum skv. eftirfarandi töflu:

Fjöldi/kg Verð GBP/kg
Undir 150 1,66
151-200 1,55
201-250 1,44
251-300 1,29
301-350 1,17
351 og yfir 0,87

Í greinargerðinni er byggt á því að ofangreindar tölur endurspegli það verð sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla að stærð og gæðum í nærliggjandi byggðarlögum auk líklegrar þróunar afurðaverðs, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998. Það sé best gert með því að byggja á meðaltali verðs tveggja skipa, þ.e. XXXXXXXXX og XXXXXXXXX með þeim rökum að það séu einungis þau tvö skip sem séu að stunda rækjuveiðar á þeirri vertíð sem sé yfirstandandi og algengasta verðið verði því að taka mið af upplýsingum um verð hjá báðum skipum. Í greinargerðinni er einnig gerð grein fyrir því að önnur tvö skip hafi verið við rækjuveiðar, þ.e. XXXXXXXXX og XXXXXXXXX og hafi áhöfn XXXXXXXXX landað hjá Nesfiski ehf. á sömu verðum og XXXXXXXXX og áhöfn XXXXXXXXX á sömu verðum og áhöfn XXXXXXXXX.

Til vara byggja fulltrúar SFS á verðum skv. neðangreindri töflu en um er að ræða sömu verð og samið var um milli útgerðarinnar Nesfisks ehf. og áhafnar XXXXXXXXX í júní sl.:

Fjöldi/kg Verð GBP/kg
Undir 150 1,78
151-200 1,65
201-250 1,50
251-300 1,45
301-350 1,40
351 og yfir 1,00

Fulltrúar SFS gera grein fyrir sjónarmiðum sínum um líklega þróun afurðaverðs í greinargerð sinni og byggja á því að gögn frá Hagstofu Íslands um rækjuverð fram í mars 2020 sýni ekki líklega þróun m.t.t. heimsfaraldursins vegna Covid-19 og að þau gögn sýni ekki með skýrum hætti hvaða áhrif faraldurinn hafi á breskan markað, sem sé mikilvægasti markaður fyrir útflutning rækjuafurða frá Íslandi. Einnig vísa fulltrúar SFS m.a. til blaðagreina og tölvupósta sem fylgja greinargerð þeirra um erfiða stöðu á rækjumörkuðum, lokanir rækjuvinnslu og samskipti útgerðar við sölumann rækjuafurða, máli sínu til stuðnings. Einnig er vísað til þess að áhrif Covid-19 komi ekki fram í þeim tölum Hagstofunnar sem fulltrúar sjómanna miða við þar sem um 91% af heildarútflutningi fyrstu fimm mánuði ársins 2020 sé á tímabilinu janúar- mars, þegar áhrif faraldursins voru ekki komin fram og munur á verði í maímánuði sé umtalsverð lækkun. Þannig telja fulltrúar SFS að það séu engar forsendur til að miða rækjuverð á árinu 2020 við sömu verð og fengust fyrir rækju á árinu 2019 og telja að rök fulltrúa sjómanna fyrir því að leggja slíkt til grundvallar haldlaus. Einnig mótmæla fulltrúar SFS því að útgerð ákveði einhliða verð og vísar til viðræðna áhafnar XXXXXXXXX við Nesfisk ehf. sem endaði með samningi.

Á fundi nefndarinnar 14. ágúst 2020 mótmæltu fulltrúar útvegsmanna framlagningu nýrra gagna eftir að formaður nefndarinnar væri búinn að kynna efnislega niðurstöðu fyrir aðilum, auk þess sem ekki hefði gefist kostur á að kynna sér til hlítar efni skjalsins áður en til fundarins var boðað.

NIÐURSTAÐA

Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998 kemur fram að úrskurðarnefnd skuli við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa hefur safnað. Einnig skal úrskurðarnefnd taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla, sbr. 2. mgr. 11. gr. sömu laga. Í því sambandi skal tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum og taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs og heildarráðstöfunar á afla skips.

Nokkuð ber á milli sjónarmiða þeirra hagsmunaaðila sem tilnefna fulltrúa í úrskurðarnefndina bæði hvað varðar form- og efnishlið málsins. Úr formhlið málsins var skorið með afstöðu formanns hinn 15. júlí sl. hvað það varðar að ekki væri hægt að byggja á því að í gildi væri samningur milli áhafnar Berglínar GK-300 og útgerðarinnar Nesfisks ehf. vegna ársins 2020 og málið væri því þá fyrst tækt til meðferðar hjá nefndinni, en fulltrúar sjómanna höfðu farið fram á það að máli áhafnarinnar væri vísað frá nefndinni með tölvupósti sínum 10. júlí 2020.

Hvað varðar efnishlið málsins verður í fyrsta lagi að ítreka að í gr. 1.28.1 í gildandi kjarasamningi kemur fram að þegar útgerð selur afla til eigin vinnslu öðlist samningur gildi með staðfestingu áhafnar í leynilegri atkvæðagreiðslu og með undirritun fulltrúa áhafnar og útgerðar. Einnig kemur fram að samningurinn skuli vera í stöðluðu formi og þar skuli koma fram „m.a. verð einstakra fisktegunda, stærð, gæði, markaðs- og gengisviðmið og áætlun ráðstöfun, gildistími og uppsagnarákvæði o.s.frv.“

Eins og kemur fram í reifun hér að ofan eru gerðar alvarlegar athugasemdir við það að sá háttur hefur verið hafður á undanfarin ár að samningur sé ekki gerður í samræmi við ákvæði kjarasamnings, en ákvæði kjarasamningsins miðar við að skriflega sé gerð grein fyrir öllum þeim atriðum sem tiltekin eru.

Í öðru lagi verður þá að taka afstöðu til efnisatriða varðandi ákvörðun verðs og þar ber nokkuð á milli krafna fulltrúa hagsmunasamtakanna hvoru megin bæði varðandi hvaða gögn eigi að leggja til grundvallar við ákvörðun verðs og áreiðanleika þeirra gagna sem lögð hafa verið fram.

Eins og komið hefur fram í fyrri úrskurðum nefndarinnar þar sem formaður þarf einn að skera úr ágreiningi, er ákvörðun nefndarinnar er tekin á grundvelli heildarmats hverju sinni sem felur í sér að vega saman öll sjónarmið og allar þær upplýsingar sem liggja fyrir í einstaka máli. Sú ákvörðun formanns að leyfa framlagningu nýrra gagna eftir að ákvörðun hefur verið tilkynnt felur í sér sérstakt frávik frá því sem almennt tíðkast og má einungis rekja til þess að birting endanlegs úrskurðar frestaðist og felur ekki í sér fordæmi gagnvart öðrum málum. Umræddar upplýsingar eru birtar á vef Hagstofu Íslands og varða þróun afurðaverðs og þar sem aðalágreiningsefni innan nefndarinnar hefur verið hvernig þróun afurðaverðs hefur áhrif á verðákvörðun útgerðar til áhafnar taldi formaður nefndarinnar rétt að uppfærðar upplýsingar kæmust að sem þannig að allir nefndarmenn gætu einnig tjáð sig um þau skjöl.

Í gögnum frá Verðlagsstofu skiptaverðs um rækjuverð annarra skipa en Berglínar GK-300 kemur fram að hinn 12. júlí sl. hafi áhöfn XXXXXXXXX sagt upp samningi við útgerð. Sá samningur hafði verið gerður 14. maí 2020 þar sem verð voru frá XXXXXXXXX pundum niður í XXXXXXXXX eftir fjölda pr. kg. Önnur gögn um gildandi verðsamninga liggja fyrir í gögnum málsins, en stofnunin tiltekur sex skip á kaldsjávarveiðum hjá útgerðunum XXXXXXXXX, XXXXXXXXX, XXXXXXXXX og Nesfiski ehf. Í þeim verðsamningum sem Verðlagsstofa skiptaverðs sendi til formanns úrskurðarnefndar má sjá tvo samninga, annan frá mars 2020 og hinn frá maí 2020 milli áhafnar XXXXXXXXX og XXXXXXXXX. Einnig liggja fyrir upplýsingar um samninga áhafnar XXXXXXXXX frá því í janúar 2020 við útgerðina XXXXXXXXX, en í þeim samningi er vísað beint til verðskrár XXXXXXXXX sem fylgir með. Þar kemur fram að verð eru frá XXXXXXXXX pundum niður í XXXXXXXXX eftir fjölda pr. kg. Einnig kemur fram í gögnum frá Verðlagsstofu að stofnunin hafi ekki nýrri opinber gögn um verð en gögn Hagstofunnar sem sýni útflutningsverð rækju frá árinu 2018-2020, en hagsmunaaðilar hafa gert grein fyrir sínum sjónarmiðum um þau gögn í afstöðu sinni og á fundi nefndarinnar 14. ágúst 2020.

Þegar öll gögn málsins eru metin saman er ljóst að það liggja mjög fáir gildir samningar fyrir um verð á rækju milli áhafna og útgerða. Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998 kemur skýrt fram að nefndin skuli við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla og skuli í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin einnig taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs samkvæmt skýru orðalagi lagaákvæðisins. Nefndinni er því við verðákvörðun skylt að líta bæði til gildandi samninga og gagna um þróun afurðaverðs.

Þegar litið er til þeirra þriggja verðsamninga sem í gildi voru þegar málinu var vísað til nefndarinnar eru tölur í verðsamningi útgerðarinnar Nesfisks ehf. við áhöfn XXXXXXXXX nokkurn veginn á milli samninga XXXXXXXXX við áhöfn XXXXXXXXX og samninga XXXXXXXXX við áhöfn XXXXXXXXX, sbr. þær tölur sem koma fram hér að ofan og gerð er nánari grein fyrir í gögnum málsins merktum nr. 14. Þó ljóst sé af gögnum málsins áhöfn XXXXXXXXX hefur sagt upp samningi síðan við XXXXXXXXX, eða frá 12. júlí sl., útilokar það ekki að litið sé þess samnings að einhverju leyti við verðákvörðun nefndarinnar á meðan hann var í gildi. Af þeim samningum verður því ályktað að sömu verð og samið var um til áhafnar XXXXXXXXX séu í samræmi við verð sem algengust eru þegar litið er til þeirra samninga sem þá voru í gildi.

Eins og áður segir er einnig skylt að líta til þróunar afurðaverðs við ákvörðun nefndarinnar og gögn um stöðu þeirrar útgerðar sem um ræðir í þessu máli kemur að einhverju leyti fram í gögnum málsins , t.d. þar sem gerð er grein fyrir tilboði í gáma, sbr. skjal í skjalaskrá merkt nr. 11.11. Hvað varðar aðrar útgerðir má einnig sjá í tölvupósti sem merktur er í skjalaskrá nr. 11.3, að fulltrúi þeirrar útgerðar gerir Verðlagsstofu skiptaverðs grein fyrir slæmri stöðu í sölumálum og má einnig sjá að þróun verðs í samningum þeirrar útgerðar við áhöfn XXXXXXXXX var þannig áður en samningi var sagt upp að verð fóru lækkandi. Gögn um þróun afurðaverðs verða hins vegar ekki byggð á yfirlýsingum útgerða einum og sér heldur verður einnig að líta til annarra tiltækra gagna.

Fulltrúar sjómanna hafa lagt fram útreikninga sem tölum frá Hagstofu Íslands þá er um að ræða gögn sem sýna útflutningsverðmæti afurða í hverjum mánuði frá byrjun árs 2018 og nýjustu tölur nú eru þær sem birtast í uppfærðum gögnum eru vegna júnímánaðar 2020. Af þeim tölum verður ekki með skýrum hætti séð útflutningsverðmæti í hverjum mánuði endurspegli verðmæti þess afla sem landað er í sama mánuði. Gögnin geta hins vegar eftir lengri tíma sýnt ákveðna þróun en áhrif umrædds ekki er óvarlegt að álykta að áhrif heimsfaraldurs covid-19 séu að koma fram í sölutölum fram eftir þessu ári og ekki hægt að staðfesta að þau séu endanlega komin fram í gögnum Hagstofu Íslands um útflutningsverðmæti.

Þau sjónarmið fulltrúa sjómanna um að markaðir séu óbreyttir þrátt fyrir heimsfaraldur covid-19, eru því ekki þannig studd nægilega staðfestum upplýsingum eða skriflegum gögnum til þess að hægt sé að leggja til grundvallar að staða markaða sé með svipuðum hætti og hún var á árinu 2019. Þegar litið er til annarra gagna um þróun afurðaverðs verður ekki litið framhjá því að lögð hafa verið fram skrifleg gögn um erfiða stöðu markaða vegna covid-19 heimsfaraldursins og líklega þróun verðs vegna þess. Einnig er gerð grein fyrir stöðu rækjuvinnslu í landinu með bæði blaðagreinum og tölvupóstum og er fallist á að slíkar upplýsingar hafi sérstaklega áhrif hvað varðar ályktanir um þróun afurðaverðs. Þær upplýsingar benda eindregið til þess að sölustaða sé slæm.

Þó ekki sé fallist á að leggja til grundvallar þau verð sem fulltrúar sjómanna hafa gert kröfu um er tekið undir sjónarmið þeirra um að ekki hafi verið staðið nægilega vel að samningum milli útgerðar og áhafnar síðastliðin ár, bæði hvað varðar form þeirra og upplýsinga sem áhöfn er gert kleift að skoða til að meta forsendur samninga. Þar þarf að bæta vinnubrögð af hálfu útgerðar. Þar er einnig bent á að útgerðum ber skv. nokkrum ákvæðum kjarasamninga að sýna trúnaðarmönnum áhafna sölunótur afurða, ef þeir óska eftir því. Þau ákvæði kjarasamninga bera að virða og því er beint til áhafna að nýta sér þann rétt, sem og til útgerða að virða þann kjarasamningsbundna rétt trúnaðarmanna.

Með vísan til ofangreindra röksemda er niðurstaða meirihluta nefndarinnar því sú að það verð sem algengast er í skilningi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998 er það verð sem samið var um milli útgerðarinnar Nesfisks ehf. og áhafnar XXXXXXXXX og felst í því að fallist er á varakröfu fulltrúa útvegsmanna í málinu.

Úrskurðarorð

Rækjuverð skal vera með eftirfarandi hætti frá útgerðinni Nesfiski ehf. til áhafnar Berglínar GK-300.

Fjöldi/kg Verð GBP/kg
Undir 150 1,78
151-200 1,65
201-250 1,50
251-300 1,45
301-350 1,40
351 og yfir 1,00

 

Verð skal gilda frá og með 1. júlí 2020 til og með 31. ágúst 2020 og er sett fram í breskum pundum miðað við kg og fjöldatölur.

Þóra Hallgrímsdóttir
Heiðrún Lind Marteinsdóttir
Jón Kr. Sverrisson
Sveinn Hjörtur Hjartarson