Fara í efni

Úrskurður nr. 1/1998

Árið 1998, miðvikudaginn 19. ágúst er fundur haldinn í Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Mættir eru: Guðjón A. Kristjánsson, Sævar Gunnarsson, Jóhanna Eyjólfsdóttir , Kristján Ragnarsson, Sturlaugur Sturlaugsson og Skúli J. Pálmason, formaður nefndarinnar.

 

Fyrir er tekið mál nr.1/1998

Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands fh. Áhafnar Ásbjörns RE-50

gegn

Granda hf.

og kveðinn upp svohljóðandi

Úrskurður:

Sjómannasamband Íslands og Farmanna - og fiskimannasamband Íslands vísuðu málinu til Úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna með bréfi dags. 23. júlí 1998, sem hljóðar svo:

"Undirritaðir óska hér með eftir að úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna komi saman og taki til umfjöllunar endurnýjun samnings um fiskverð milli áhfnarinnar á Ásbirni RE-50 og Granda hf. Til upplýsingar skal þess getið að áhöfnin á tilgreindum togarar hefur falið fulltrúum Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands að semja fyrir sína hönd við Granda hf. um nýtt fiskverð. Í þessu sambandi hefur áhöfn skipsins afhent umræddum samtökum sjómanna skriflegt umboð til að semja um fiskverð og vísa málinu til úrskurðarnefndar ef þörf krefði. Í tvígang hefur verið leitað til Granda hf. til að hefja viðræður um endurnýjun samninga um fiskverð. Í bæði skiptin hefur félagið hafnað ósk samtaka sjómanna. Með hliðsjón af svörum branda hf. sjá undirritaðir, að svo stöddu, ekki önnur úrræði en að leita til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna til að fá niðurstöðu um nýtt fiskverð fyrir áhöfnina á Ásbirni RE-50."

Bréfið er undirritað af Sævari Gunnarssyni fh. Sjómannasambands Íslands og Guðjóni A. Kristjánssyni fh. Farmann- og fiskimannasambands Íslands.

Forsaga málsins er sú, að Sjómannasamband Íslands og Farmanna og fiskimannasamband Íslands rituðu Granda hf. bréf dags. 15. júlí sl. sem bar yfirskriftina "Endurnýjun samnings um fiskverð". Þar kemur fram, að áhöfnin á Ásbirni RE-50 hafi falið fulltrúum þessara samtaka að leita eftir endurnýjun samnings um fiskverð við Granda hf. og vakin athygli á því, að verð á þorski, karfa og ufsa hafi verið óbreytt í 29 mánuði eða allt frá því, að úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð um verð þessara fisktegunda til áhafnarinnar í febrúar 1996 með þriggja mánaða gildistíma. Óskað var eftir viðræðum við fulltrúa Granda hf. Þessum tilmælum var hafnað af hálfu Granda hf. með símbréfi dags. 15. júlí sl. með vísan til þartilgreindra ákvæða gildandi kjarasamninga. Í niðurlagi bréfsins er því viðhorfi lýst, að félagið eigi rétt og skyldu til að semja beint og milliliðalaust við áhafnir skipa sinna og sé reiðubúið til samninga við þær. Hagsmunasamtök sjómanna mótmæltu þessari afstöðu í símbréfi dags. 16. sama mánaðar m.a. með þeim rökum, að ákvæði þau, sem vísað var til í fyrrnefndu bréfi Granda hf., skilgreini hverjir séu samningsaðila, en hvergi sé að finna nein ákvæði, sem takmarki heimild þeirra til að veita þriðja aðila umboð til samningsgerðar um fiskverð. Í símbréfi Granda hf. sem einnig er dagsett 16. júlí sl. var fyrri afstaða félagsins. Í lokaorðum bréfsins segir svo: "Ef að þessi afstaða fyrirtækisins telst ekki fullnægjandi svar að ykkar hálfu vísar Grandi málinu til hagsmunasamtaka sinna, þ.e. V.S.Í. og L.Í. Ú. þar sem það telur að málið snerti ágreining um grundvallaratriði kjarasamninga.

Fyrir liggur umboð áhafnar Ásbjörns Re-50 til framangreindra hagsmunasamtaka um samningagerð fyrir þeirra hönd, dags. 14. júlí sl. svo og umboð til að vísa málinu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna dags. 20. sama mánaðar.

Málið var tekið fyrir á fundi í úrskurðarnefnd 4. ágúst sl. þar sem mættir voru fulltrúar sjómannasamtakanna og útvegsmanna. Þar náist ekki samkomulag og var því ákveðið að kalla til formann nefndarinnar til úrskurðar um álitaefnið. Ráðgert var að halda þann fund að viku liðinni, en vegna forfalla ýmissa fulltrúa var ekki unnt að koma því við, fyrr en 14. ágúst sl.

Þar kom fram sú krafa af hálfu fulltrúa útgerðarmanna í úrskurðarnefnd, að málinu yrði vísað frá nefndinni, þar sem það væri ekki í hennar verkahring að annast samningagerð fyrir áhafnir skipa og útgerðarmanna.

Fulltrúar sjómannasamtakanna mótmæltu þessari afstöðu fulltrúa útgerðarmanna og kröfðust þess, að fallist yrði, á að fyrirliggjandi umboð áhafnar Ásbjörns RE- 50 til Sjómannasambandi Íslands og Farmanna og fiskimannasambandi Íslands til samninga um fiskverð fyrir þeirra hönd væri metið gilt og útskurðarnefnd taki málið til úrskurðar um verð á afla togarans Ásbjarnar RE-50, sem gerður sé út af Granda hf.

Fulltrúar útgerðarmanna, sem eftirleiðis verður vísað til sem sóknaraðila í þessum þætti málsins, studdu frávísunarkröfu sína með eftirfarandi rökum:

Fram til ársins 1991 hafi Verðlagsnefnd sjávarútvegsins ákvarðað fiskverð fyrir landið allt. Fulltrúar frá hagsmunasamtökum sjómanna, útvegsmanna og fiskkaupenda hafi skipað Verðlagsráð.

Með lögum nr. 84/1991 hafi lögum nr. 43/1985 um Verðlagsráð verið breytt í þá veru, að miðstýrðri verðlagningu á fiski hafi verið hætt og ákvörðunarvaldið tekið úr höndum hagsmunasamtakanna og fiskverð gefið frjálst, þannig að hver og einn samdi fyrir sig. Í kjarasamningum árið 1995 milli samtaka sjómanna og útvegsmanna hafi m.a. verið fjallað um kröfugerð sjómannasamtakanna um leikreglur í sambandi við sölu afla utan fiskmarkaða. Upphafleg krafa sjómannasamtakanna hafi verið sú í þessu sambandi, að gildi samninga um fiskverð milli áhafnar og útgerðar væri háð samþykki þeirra. Þessu hafi verið alfarið hafnað af hálfu L.Í.Ú, enda hafi tilgangurinn með afnámi fiskverðsákvarðana Verðlagsráðs verið sá, að færa ákvörðunarvaldið úr höndum þeirra hagsmunasamtaka, sem að ráðinu stóðu, í hendur aðilanna sjálfra. Komið hafi fram af þessu tilefni af hálfu fulltrúa sjómanna, að ójafnræðis kynni að gæta í beinum samningum milli áhafnar og útgerðar sjómönnum í óhag. Við þessu hafi verið brugðist á þann hátt, að komið var á fót úrskurðarnefnd, sbr. lög nr. 84/1995, sem áhöfn skips gæti leitað til, ef samningar tækjust ekki milli útgerðar og áhafnar. Þar skyldu fulltrúar hagsmunaaðila beggja, útgerðar og sjómanna, fyrst koma til sögunnar og leita leiða til að ná samningum. Tækist það ekki yrði stjórnskipaður oddamaður tilkvaddur til lausnar viðkomandi deilu.

Almennar umboðsreglur eigi ekki við í tilvikum þeim, sem hér sé til úrlausnar. Hagsmunaaðilar hafi í kjarasamningum komið sér saman um ákveðna skipan, sem feli það í sér, að viðkomandi útgerð og áhöfn reyni fyrst að semja um fiskverð sín í milli, en ekki hagsmunasamtökin fyrir þeirra hönd. L.Í.Ú hafi á sínum tíma ekki fallist á þá kröfu sjómannasamtakanna, að samkomulag áhafnar og útgerðar um fiskverð væri háð samþykki þeirra. Því síður myndi hafa verið fallist á það, að hagsmunasamtök sjómanna ættu beina aðild að slíkum samningum. Slíkt fyrirkomulag myndi leiða til þess, að hagsmunasamtök sjómanna og útvegsmanna tækju yfir alla samningsgerð um fiskverð, sem væri andstætt þeim tilgangi, sem að var stefnt, þegar Verðlagsráð var fellt niður. Ef þannig skipan yrði tekin upp, myndi það hafa í för með sér, að sömu aðilar reyndu að ná samningum um fiskverð fyrir hönd útgerðar og áhafnar og vísuðu málinu síðan til sjálfra sín í úrskurðarnefnd og héldu þar karpinu áfram.

Fulltrúar útgerðarmanna í úrskurðarnefnd byggja frávísunarkröfu sína á því, að hvorki útgerð né áhöfn sé heimilt að fela hagsmunasamtökum sínum að fara með samninga um ákvörðun fiskverðs, með vísan til þeirrar forsögu, sem að framan sé lýst. Hagsmunasamtökum beggja aðila, sé fyrst heimilt að koma að málinu eftir að því hefur verið vísað til úrskurðarnefndar og þá með aðild sinni að nefndinni, sbr. 3. gr. og 7. gr. laga um úrskurðarnefndina og gildandi kjarasamninga. Algjör forsenda þess, að úrskurðarnefndin taki mál til meðferðar, sé sú, að útgerð og áhöfn skips hafi áður reynt að ná samkomulagi um fiskverð, en það hafi ekki verið gert í máli því sem deilan fjalli um. Þar sem þetta hafi farist fyrir beri úrskurðarnefndinni að vísa málinu til löglegrar og samningbundinnar meðferðar að núju, áður en hún tekið málið til efnislegrar afgreiðsluk enda hafi þá ekki áður saminst með útgerð og áhöfn.

Fulltrúar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Sjómannasambands Íslands (hér eftir nefndir varnaraðilar) í úrskurðarnefnd styðja kröfur sínar eftirfarandi rökum:

Í júlí sl. hafi fulltrúar úr áhöfn Ásbjarnar Re-50 leitað til samtakanna og óskað eftir því, að fulltrúar þeirra semdu fyrir þeirra hönd um endurnýjun samnings um fiskverð við Granda hf. Fulltrúar áhafnarinnar hafi talið samningsstöðu sína veika gagnvart vinnuveitanda sínum og auk þess borið við reynsluleysi og skorti á viðeigandi upplýsingum um samningsgerðina. Fulltrúar samtaka sjómanna hafi samþykkt beiðnina að því tilskyldu, að áhöfnin veitti umboð til samningsgerðar. Þegar það lá fyrir hafi verið leitað eftir viðræðum við Granda hf. um endurnýjun samnings um fiskverð. Fulltrúar félagsins hafi hafnað þátttöku í viðræðunum, þrátt fyrir ítrekaða tilraun samtaka sjómanna að koma þeim á. Því hafi ekki verið um annað að ræða en vísa málinu til úrskurðarnefndar.

Varnaraðilar benda á það, að fiskverð til áhafnarinna á Ásbirni RE-30 hafi verið óbreytt um 30 mánaða skeið, eða allt frá þeim tíma, er úrskurðarnefnd með meirihluta formanns og fulltrúa útvegsmanna hafi ákveðið fiskverð í febrúar 1996. Á umliðnu ári hafi verð botnfiskafurða farið hækkandi á útflutningsmörkuðum, sem gefi tilefni til hækkunar á fiskverði. þrátt fyrir þessa staðreynd hafi áhöfnin á Ásbirni RE-50 ekki treyst sér til að leita eftir endurnýjun samnings um fiskverð við Granda hf. Fyrirtækið hafi heldur ekki boðið áhöfninni upp á endurnýjun fiskverðssamnings fyrr en leitað hafi verið eftir viðræðum af hálfu fulltrúa samtaka sjómanna í júlí sl.

Varnaraðili byggir á því, að áhöfnin á Ásbirni RE-50 hafi verið í fullum rétti til að veita umrætt umboð og gildi einu hverjum það sé veitt, hvort heldur það séu varnaraðili eða einhver annar. Umboðið sé í fullu samræmi við lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá sé hvergi að finna í lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna nr. 13/1998 né í kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna ákvæði sem takmarki á nokkurn hátt heimild áhafnar eða útgerðar til að veita þriðja aðila umboð til að semja fyrir sína hönd um fiskverð. Samningur um fiskverð, sem umboðsaðili kynni að ná fram fh. áhafnar yrði eftir sem áður háður samþykki áhafnar í samræmi við ákvæði kjarasamninga þar að lútandi.

Þau gögn, sem sóknaraðili hafi lagt fram í þessu máli og varði undirbúning kjarasamninga málsaðila á árinu 1995, breyti engu hvað varði gildandi lög og kjarasamninga, sem beri að fara eftir við úrlausn þessa máls.

Samkvæmt framansögðu sé það álit varnaraðila, að umboð það, sem áhöfn Ásbjörns RE-50 veitti þeim til samninga við Granda hf. um fiskverð, sé í fullu samræmi við lög og gildandi kjarasamninga og gildi einu hvort umboðið sé veitt samtökum sjómanna eða einhverjum öðrum aðila.

Þar sem Grandi hf. hafi neitað að eiga aðild að ganga til samninga um fiskverð sé það sjálfsagt og eðlilegt úrræði að vísa málinu til úrskurðarnefndar, enda sé krafa varnaraðila þar um byggð á sanngjörnum og hlutlægum rökum.

Í greinargerð Vélstjórafélags Íslands er það álit látið í ljósi, að lög og kjarasamningar virðist gera ráð fyrir því, að útgerð og áhöfn reyni til þrautar, að komast að samkomulagi um fiskverð, áður en til íhlutunar komi af hálfu úrskurðarnefndar. Við gerð kjarasamninga 1995 hafi það verið skilningur Vélstjórafélagsins eftir viðræður við forsvarsmenn LÍÚ, að slík samningsgerð skyldi vera á forræði útgerðar og áhafnar. Hins vegar séu engin takmörk sett fyrir því, að áhöfn framselji umboð sitt til slíkrar samningsgerðar, sbr. 3. mgr. greinar 1.03 í kjarasamningi milli Vélstjórafélags Íslands og LÍÚ. Þar segi: "Útgerðarmaður skal hafa samráð við fulltrúa, sem kjörinn er af áhöfn í einfaldri kosningu". Í ákvæðinu sé ekki áskilið, að fulltrúinn sé einn af skipverjum. í 4. mgr. sömu greinar sé heldur enga takmörkun að finna að þessu leyti en einungis áskilið að samningurinn sé staðfestur í leynilegri atkvæðagreiðslu áhafnar og að því loknu undirritaður af fulltrúum áhafnar og útgerðar. Í 5. mgr. sömu greinar segi, að leita skuli úrskurðar nefndar, sem samtök sjómanna og útvegmanna komi sér samanum, telji meirihluti áhafnar sig ekki eiga kost á samningi um sanngjarnt fiskverð.

Vélstjórafélag Íslands leggur áherslu á það í þessu sambandi að ákvæði laga nýsettra laga um Verðlaglagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd nr. 13/1998, svo og kjarasamningar sjómanna og útvegsmanna taki enga afstöðu til þess, hvort áhöfn skips sé heimilt að veita þriðja aðila umboð til samninga um fiskverð við viðkomandi útgerð. Þar sem þetta sé ekki gert hljóti sú meginregla íslensks réttar um samningafrelsi einstaklinga að gilda í þessu máli. Áhöfn Ásbjarnar RE-50 hafi því haft fulla heimild til að fela þriðja aðila, fulltrúa sjómanna eða einhverjum öðrum aðila utan áhafnar umboð til að semja fyrir sína hönd um fiskverð við Granda hf. Slíkt hafi ekkert áð gera með hlutverk sjómannasamtakanna í úrskurðarnefnd enda komi ekki til afskipta hennar fyrr en á síðari stigum málsins. Þá verði ekki séð að mati Vélstjórafélags Íslands að sú ráðstöfun stríði á nokkurn hátt gegn tilgangi laga eða kjarasamninga enda ætti það að vera allra hagur að fagmenn sjí um slíka samningsgerð til að sem eðlilegust niðurstaða fáist. Ekki liggi fyrir, hvort Vélstjórafélag Íslands telji sér skylt að taka að sér slíkt umboð fyrir hönd áhafna fiskiskipa en á það hafi enn ekki reynt Vélstjórafélagið muni í því tilviki e.t.v. líta til annarra þátta en að ofan greini, en þeir séu þessu máli óviðkomandi.

Álit formanns úrskurðarnefndar.

Deila þessi snýst um það álitaefni, hvort áhöfn og útgerð sé heimilt að fela hagsmunasamtökum sínum eða öðrum utanaðkomandi aðila samninga um fiskverð, en í kjarasamningi varnaraðila við sóknaraðila ákvæði 1.03 4. mgr. í kafla I er mælt svo fyrir að "útgerðarmaður og áhöfn skulu gera sín í milli samning um fiskverð, þegar útgerð selur afla til eigin vinnslu, þ.e.a. í viðskiptum milli skyldra aðila."

Varnaraðili vísar til meginreglna laga nr. 7/1936 um samninga, umboð o.fl. til stuðnings sjónarmiðum sínum svo og til þess, að í gildandi kjarasamningi milli sjómanna og útvegsmanna sé ekki að finna neina takmörkun á því, að öðrum sé falin samningagerð um fiskverð. Áhöfn Ásbjörns RE-50 hafi leitað til hagsmunasamtaka sinna um liðsinni og veitt þeim ótakmarkað umboð til samningagerðar fyrir sína hönd við útgerð Granda hf. um fiskverð. Áhöfnin hafi fullt forræði í þessu máli og hljóti því að hafa fulla lagalega heimild til að veita hverjum sem hún kýs umboð til samninga við viðsemjanda sinn án nokkurrar takmörkunar. Afstaða Granda hf. fari því í bága við almennar umboðsreglur, sé einstrengingsleg og ómálefnaleg.

Þrátt fyrir þá meginreglu, að hverjum lögráða einstaklingi og lögpersónu, sem ekki er undir gjaldþrotaskipum, sé heimilt að fela öðrum samningsgerð fyrir sína hönd kunna aðstæður að vera með þeim hætti, að nauðsynlegt sé að víkja þar frá, einkum vegna sérstakra aðstæðna viðsemjanda eða eðli þess samkomulags, sem gera skal.

Við mat á því, hvort svo hátti til í máli því, sem hér er til úrlausnar verður að líta til þess, hvernig fiskverð til sjómanna hefur verið ákveðið og hvernig þau mál hafi þróast á undanförnum árum.

Upphaflega var málum þessum skipað með þeim hætti, að Verðlagsráð sjávarútvegsins tók ákvörðun um fiskverð til sjómanna á landsvísu, eins og áður er lýst. Um var að ræða miðstýrða verðstjórnun, sem ekki tók mið af sérhagsmunum og sérstöðu einstakra útgerðar og áhafna eða landhluta. Verðlagsráð var skipuð fulltrúum hagsmunasamtaka sjómanna, útvegsmanna og fiskkaupenda. Þetta fyrirkomulag þótti ekki samræmast nútíða viðhorfum um frjálsa verðmyndun, jafnframt því sem það kynni að leiða til þess, að sjómenn nytu ekki hlutdeilar í hagnaði velrekinna útgerða, sem ynnu eigin afla.

Þetta fyrirkomulag var því aflagt og útgerðum og áhöfnum skipa þeirra var gert að semja beint sín í milli. Samningagerðin var þannig tekin úr höndum hagsmunasamtaka útvegsmanna og sjómanna og færð til aðilanna sjálfra.

Í kjarasamningunum sjómanna og útvegsmanna frá júní 1995 var samningsstaða áhafnar betur skilgreind og styrkt. Samhljóða ákvæði, hvað þetta málefni varðar, eru í samningum Sjómannasambands Íslands við LÍU og Farmanna og fiskimannasambands Íslands við sömu heildarsamtök.

Í I. kafla í grein 1.03. í samningnum við Sjómannasambandsins og LÍU segir svo í 3. mgr. "Útgerðarmaður skal hafa samráð við fulltrúa, sem kjörinn er af áhöfn í einfaldri kosningu, um áformaða sölu aflans fyrir a.m.k. mánuði í senn, og gera honum grein fyrir fyrirliggjandi upplýsingum um sölu og fiskverð". Í 4.mgr. segir: "Útgerðarmaður og áhöfn skulu gera sín í milli samning um fiskverð, þegar útgerð selur afla til eigin vinnslu, þ.e.a.s. í viðskiptum milli skyldra aðila. Til að slíkur samningur öðlist gildi, skal hann staðfestur í leynilegri atkvæðagreiðslu áhafna og að því loknu undirritaður af fulltrúum áhafna og útgerðar. Samningurinn skal vera í stöðluðu formi, þar sem fram komi m.a. verð einstakra fisktegunda, gildistími, uppsagnarákvæði o.s.frv.". 5. mgr. er þannig orðuð: "Telji meirihluti áhafnar sig ekki eiga kost á samningi um sanngjarnt fiskverð samkvæmt framanskráðu, skal leita úrskurðar nefndar, sem samtök sjómanna og útvegsmanna koma sér saman um að skipuð verði........"

Í II. kafla sömu greinar er fjallað um úrskurðarnefnd, hvernig hún skuli skipuð, hvert sé verksvið hennar og hvernig hún skuli starfa í meginatriðum. Þar er ákveðið, að í úrskurðarnefnd sitji þrír fulltrúar frá hvorum aðila, þ.e. frá sjómönnum annars vegar og útgerðarmönnum hins vegar, en oddamaður tilnefndur af ráðherra, sem kvaddur yrði til, ef fulltrúar hagsmunaaðila næðu ekki samkomulagi um mál, sem bærust nefndinni.

Að frumkvæði samningsaðila voru lög um úrskurðarnefnd nr. 84/1995 sett á Alþingi í júní 1995. Þar er verksvið nefndarinnar nánar skilgreint og starfshættir hennar nánar ákveðnir.

Tilgangurinn með skipan úrskurðarnefndar var sá, að styrkja það fyrirkomulag, sem fólst í beinum samningum áhafna við viðkomandi útgerð, þar sem talið var að nokkuð hallaði á sjómenn með sérstöku tilliti til tengsla þeirra við viðkomandi útgerð í vinnuréttarlegu tilliti, reynslu við samningagerð og möguleikum til upplýsingaöflunar o.fl.

Í kjarasamningum sjómannasamtakanna og útgerðarmanna, sem áttu sér stað fyrr á þessu ári, var staða sjómanna enn bætt í því skyni að jafna samningsstöðu þeirra í tengslum við samninga áhafnar og útgerðar um fiskverð. Með lögum nr. 13 1998 var komið á fót sérstakri stofnun Verðlagsstofu skiptaverðs, sem hefur því hlutverki að gegna að fylgjast með samningum áhafna og útgerðarmanna og grípa til aðgerða séu hagsmunir sjómanna fyrir borð bornir að mati stofnunarinnar, sbr. 7. gr. laganna. Stofnunin getur sjálfstætt vísað máli til úrskurðarnefndar skv. 9. gr. laganna. Lög þessi breyttu í engu starfsviði úrskurðarnefndar samkvæmt fyrri lögum nr. 84/1995.

Þegar litið er til þess, sem að framan er rakið, þykir ljóst, að hagsmunasamtök sjómanna og útgerðarmanna hafa stefnt að því, að áhafnir semdu beint við vinnuveitendur sínar. Öll viðleitni þessara heildarsamtaka hefur beinst að því að efla og styrkja samningsstöðu sjómanna og tryggja hagsmuni þeirra sem best í samningum þeirra við viðkomandi útgerðir. Orðalagið "sín í milli" í 4.mgr. 1.03 virðist undirstrika þetta viðhorf samningsaðila svo og fleiri tilvitnuð samningsákvæði, svo og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 13 frá 1998.

Því væri það afturhvarf til fyrra horfs, ef heildarsamtökin færu nú að hafa bein afskipti af samningum áhafna við útgerða og eiga beina aðild að samningum útgerða og sjómanna um fiskverð.

Yrði fallist á kröfur varnaraðila um beina aðild þeirra, að fiskverðssamningum fh. áhafnar Ásbjörns RE-50 við Granda hf., myndi það kalla á þau viðbrögð Granda hf., eins og þegar hefur verið boðað af þeirra hálfu, að hagsmunasamtök útgerðarmanna L.Í.Ú og Vinnuveitendasamband Íslands yrðu tilkvödd til samninga fyrir fyrirtækisins hönd. Færi svo, myndu einstakir samningar um fiskverð viðkomandi áhafnar og útgerðar heyra sögunni til og þróast yfir í miðstýrt fiskverð, sem heildarsamtökin myndu móta, en því fyrirkomulagi hefur löngu verið kastað fyrir róða.

Þá er einnig til þess að líta, að úrskurðarnefndin er skipuð fulltrúum frá hagsmunasamtökum sjómanna og útvegsmanna, þremur frá hvorum, eins og áður segir.

Fjölmörg mál hafa verið til lykta leidd í úrskurðarnefnd án atbeina formanns hennar.

Fulltrúar hagsmunaaðila í úrskurðarnefnd eru fyrirsvarsmenn samtaka sinna og aðalsamningamenn þeirra. Þeir myndu því trúlega einnig koma að samningum um fiskverð milli áhafna og útgerða og síðan fjalla um málið í úrskurðarnefnd, væri málinu vísað þangað. Hlutverk úrskurðarnefndar yrði því næsta lítið, ef svo færi. Væri þá nær, að oddamaður yrði tilkvaddur beint til úrskurðar um samninga milli útgerða og áhafna, í stað þess að tefja málið með því að vísa því til úrskurðarnefndar.

Sé litið til ákvæða í gildandi kjarasamningum, sem varða samninga áhafna og útgerðar, en þau eru samhljóða þeim, sem að framan er lýst, svo og til ákvæða laga nr. 13 frá 1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna, verða þau vart skilinn á annan veg en þann, að útgerð og áhöfn sé skylt að reyna að ná samkomulagi sín í milli um fiskverð, án beinna afskipta hagsmunasamtaka sjómanna og útvegsmanna, áður en komi til kasta úrskurðarnefndar. Í því samningsferli felist það að setja fram kröfur, sem annað hvort eru samþykktar eða þeim hafnað.

Eins og hér stendur á og að framan er lýst, þykir rétt að víkja frá þeim almennum reglum um umboð, sem varnaraðili vísar til og byggir á, með hliðsjón af þeim sérstöku hagsmunum útgerðar og sjómanna að eiga kost á að semja beint og milliliðalaust sín á milli.

Því er fallist á frávísunarkröfu sóknaraðila fulltrúa útgerðarmanna í úrskurðarnefnd.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefnd.

 

Að úrskurði stóðu:

Skúli J. Pálmason
Kristján Ragnarsson
Pétur H Pálsson
Sturlaugur Sturlaugsson