Fara í efni

Úrskurður nr. 1/1999

Ár 1999, þriðjudaginn 2. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna að Hafnarhvoli við Tryggvagötu, Reykjavík.

Mættir eru: Guðjón A. Kristjánsson, Helgi Laxdal, Hólmgeir Jónsson, Sveinn Hjörtur Hjartarson, Sturlaugur Sturlaugsson auk oddamanns Valtýs Sigurðssonar.

Fyrir er tekið málið nr. U1/1999,

heildarsamtök sjómanna f.h áhafnar

Árbaks EA- 308

gegn

Útgerðarfélagi Akureyringa hf.

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I.

Með bréfi dags. 12. janúar sl., vísaði sjómannasamband Íslands f.h. skipverja á Árbaki EA- 308, til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna ágreiningi um fiskverð við Útgerðarfélag Akureyringa hf. Í bréfinu kemur fram að samningur um fiskverð milli aðila hafi runnið út þann 31. desember 1996. Frá því í maí sl. hafi aðilar átt í samningaviðræðum um endurnýjun samningsins en án árangurs.

Erindið var tekið fyrir á fundi nefndarinnar þann 19. janúar sl. og síðan þann 25. janúar sl. Þann dag var ákveðið að kalla til oddamann þar sem ekki náðist samkomulag með fulltrúum hagsmunaaðila í nefndinni.

Í samráði við oddamann var ákveðið utan fundar að heildarsamtök sjómanna fh. áhafnarinnar yrðu sóknaraðilar málsins. Aðilar hafa skilað greinargerðum dagsettum 29. janúar sl. Þá hefur sóknaraðili skilað greinargerð dags. 2. febrúar vegna gagnkröfu varnaraðila. Verðlagsstofa skiptaverðs hefur aflað gagna fyrir nefndina.

Á fundi nefndarinnar 2. febrúar sl. voru gögn málsins lögð fram, aðilar tjáðu sig um fram komnar kröfur og rök fyrir þeim og málið síðan lagt í úrskurð.

Áður en til úrskurðar kom vék Hólmgeir Jónsson af fundi.

II.

Kröfur sóknaraðila og helstu sjónarmið.

Krafa sóknaraðila er sem hér segir:

1. Verð á eftirtöldum fisktegundum skal tengt markaðsverði, þannig að 77% af magni hverrar tegundar skal reiknað á grunnverði, en 23% magnsins skal reiknað á markaðsverði m.v. verð á Faxamarkaði, Fiskmarkaði Hafnarfjarðar og Fiskmarkaði Suðurnesja eins og verið hefur. Grunnverð skal vera sem hér segir:

Fisktegund    
Þorskur 80 kr/kg er 60 kr/kg
Þorskur, undirmál 60 kr/kg er 50 kr/kg
Ufsi 58 kr/kg er 35 kr/kg
Karfi 350-500g 20 kr/kg er 18 kr/kg
Karfi 501-700g 31 kr/kg er 28 kr/kg
Karfi 701-1000g 43 kr/kg er 40 kr/kg
Karfi yfir 1000g 52 kr/kg er 44 kr/kg
Ýsa 80 kr/kg er 75 kr/kg

2. Aðrar fisktegundir en að ofan greinir skulu seldar á fiskmarkaði.

3. Gildistími fiskverðsins skal vera frá 13. janúar 1999 til 13. apríl 1999.

Af hálfu sóknaraðila er upplýst að síðast gildandi samningur milli Útgerðarfélags Akureyringa hf og skipverja á Árbaki EA- 308 hafi verið undirritaður þann 11. apríl 1995. Samið var um fast grunnverð á helstu fisktegundunum sem höfðu ákveðið vægi í verðinu, en að öðru leyti tók verðið mið af vikulegu meðalverði viðkomandi fisktegunda á þremur fiskmörkuðum á suðvesturhorni landsins. Hlutfall markaðstengingarinnar hækkaði í áföngum á samningstímanum og var komið í 23% þann 1. júlí 1996. Samningurinn gerði einnig ráð fyrir því að aðilar könnuðu möguleika á að tengja fiskverðið við afurðaverð þannig að varanleg lausn fengist í verðlagningarmálin. Sú könnun hafi ekki farið fram.

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að ekki sé gerð krafa um breytingu á grundvelli síðast gildandi fiskverðssamnings aðila, sem þýði að 77% af magni hverrar tegundar reiknist áfram á grunnverði en 23% magnsins á vegnu markaðsverði þriggja ofangreindra fiskmarkaða. Hins vegar sé ljóst að hækka þurfi grunnverðið, m.a. í ljósi hækkunar á afurðaverði undanfarna mánuði.

Í kjarasamningi milli sjómanna og útvegsmanna, grein 1.26 í kjarasamningi milli SSÍ og LÍÚ, segi að útgerðarmaður skuli tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn. Jafnframt segi í sömu grein að útgerðarmanni sé ekki heimilt að draga frá heildarverðmæti afla kostnað vegna kaupa á veiðiheimildum.

Í samningaviðræðum útgerðar og áhafnar um nýtt fiskverð hafi útgerðin boðið óbreytt fiskverð. Þegar málinu hafði verið skotið til úrskurðarnefndar hafi útgerðin gert kröfu um lækkun á síðast gildandi fiskverði. Rök útgerðarinnar fyrir óbreyttu eða lækkuðu fiskverði virðast vera þau, að ekki sé hægt að hækka fiskverðið vegna mikilla fjárfestinga útgerðarinnar í veiðiheimildum að undanförnu (sjá greinargerð frá ÚA dags. 9/9 1998). Rök útgerðarinnar fyrir óbreyttu eða lækkuðu fiskverði stangist á við kjarasamning aðila. Samkvæmt kjarasamningum eigi fjárfesting útgerðarinnar í veiðiheimildum ekki að hafa áhrif á fiskverð til skipverja auk þess sem augljóst sé að útgerðin sé ekki að greiða skipverjum hæsta gangverð eins og kjarasamningur gerir ráð fyrir.

Fyrir liggi að í nærliggjandi byggðarlögum séu fiskviðskipti að stærstum hluta milli skyldra aðila. Jafnframt séu samningar þeirra aðila byggðir á samkomulagi varnaraðila við áhafnir skipa sinna enda gerðir um líkt leyti eða nokkru síðar. Ef nota eigi skylda aðila í nærliggjandi byggðarlögum sem viðmiðun í þessu máli sé sú aðferð lík því að bera gildandi fiskverð á Árbaki EA- 308 saman við gildandi fiskverðssamninga á öðrum skipum varnaraðila. Sami fiskverðssamningur gildi á öllum skipum varnaraðila. Frávik í verði geti því ekkert orðið. Því sé nærtækast að miða verðið við markaðsverð og/eða viðskipti milli óskyldra aðila á svæðinu auk þess sem hægt er að skoða verð hjá sambærilegum útgerðarfyrirtækjum eins og t.d. Granda hf. og Haraldi Böðvarssyni hf. Við skoðun á verði í viðskiptum skyldra aðila á svæðinu verði þó að gæta þess að í viðskiptin séu oft blandað kvótaviðskiptum eða öðrum hagsmunum sem hafa áhrif á peningagreiðslu fyrirtækisins fyrir fiskinn. Verð á fiskmörkuðum séu hins vegar nokkuð ábyggileg.

Eftirfarandi tafla sýni fiskverð, sem gildir hjá Granda hf. Hjá sjómönnum á skipum Haraldar Böðvarssonar hf. sé sambærilegt tilboð frá útgerðinni um fiskverð til afgreiðslu.

Tafla 1.

Fiskverð hjá Granda hf.   Grunnverð Gæðaálag Verð
      13%  
Þorskur 2,0 kg 71 9,23 80,23
  2,2 kg 73,73 9,58 83,31
  2,5 kg 77 10,01 87,01
  3,5 kg 83,86 10,9 94,76
  4,0 kg 86 11,18 97,18
  4,5 kg 87,67 11,4 99,06
  5,0 kg 89 11,57 100,57
         
Karfi 350- 500 gr. 25 0 25,00  
Karfi 501- 700 gr. 38 0 38,00  
Karfi 701-1000 gr. 45 0 45,00  
Karfi yfir 1000 gr. 55 0 55,00  
         
Ufsi yfir 4 kg 68 0 68,00  
Ufsi undir 4 kg 50 0 50,00  

 

Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að þróun afurðaverðs á landfrystum botnfiskafurðum hafi öll verið upp á við undanfarna mánuði. Eftirfarandi tafla sýni vísitölur afurðaverðs landfrystra botnfiskafurða mælt í SDR, skv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar. Árið 1986 =100:

Tafla 2.

  1995 1996 1997 1998
Janúar 114,6 113,0 114,7 121,7
Febrúar 114,1 111,7 115,3 121,8
Mars 112,5 111,3 115,1 122,5
Apríl 110,6 111,0 116,4 124,9
Maí 111,0 110,1 115,3 126,4
Júní 110,5 110,5 114,9 128,5
Júlí 111,0 110,7 115,9 131,5
Ágúst 112,9 108,5 116,5 133,9
Sept. 113,7 111,3 117,9 133,0
Okt. 114,0 111,7 118,6 133,4
Nóv. 114,4 112,6 120,5 135,0
Des. 113,3 113,9 121,5 137,4

 

Eins og fram komi í töflunni hafi afurðaverð hækkað verulega frá því fiskverðssamningurinn var gerður og einnig frá því hann átti að renna úr gildi. Hækkunin sé um 20%- 25%. Vísitölur afurðaverðs sýni ekki þróun afurðaverðs einstakra fisktegunda, en verð þeirra geti breyst misjafnlega innbyrðis. Ágætur mælikvarði á þróun afurðaverðs einstakra fisktegunda sé að skoða markaðsverð þeirra á landinu öllu. Eftirfarandi tafla sýni markaðsverð á þorski á innlendu fiskmörkuðum á árunum 1995 – nóvember 1998 samkvæmt upplýsingum sem Fiskifélag Íslands vinnur fyrir úrskurðarnefnd.

Tafla 3. Markaðsverð á þorski frá janúar 1995 - nóv. 1998

  1995 1996 1997 1998
Janúar 113,45 88,11 86,59 112,88
Febrúar 100,36 90,97 84,98 109,17
Mars 97,61 87,90 86,99 103,33
Apríl 92,55 92,93 86,66 96,93
Maí 83,08 86,71 90,05 113,69
Júní 90,38 88,81 94,03 112,98
Júlí 89,25 86,79 84,90 115,30
Ágúst 94,91 88,82 85,78 111,00
Sept. 105,05 99,18 103,65 124,73
Okt. 112,93 97,30 104,91 135,55
Nóv. 100,17 93,01 111,80 139,17
Des. 101,07 89,93 108,13 137,40
V.meðalt. 95,14 90,84 91,39 113,61

Meðaltal áranna sé reiknað með vegið meðaltal.

Eins og fram kom í gögnum frá Verðlagsstofu skiptaverðs, sem unnin hafi verið upp úr gögnum frá Fiskifélagi Íslands hafi varnaraðili keypt þorsk á fiskmörkuðum og af óskyldum aðilum á yfir 110 kr/kg miðað við slægðan fisk í september til nóvember 1998. Fram komi þó að fyrirtækið hafi verið að kaupa þorsk af Þorbirni hf og Vísi hf í Grindavík á 60 kr/kg, en þeir aðilar teljast óskyldir varnaraðila. Hafa beri í huga að inn í þau viðskipti blandist aðrir hagsmunir, þannig að peningagreiðslan fyrir fiskinn segi ekkert til um raunverulegt verð fyrir fiskinn.

Sóknaraðili heldur því fram að öll þau gögn sem að framan er vísað til sýni að taka beri kröfur þeirra í málinu til greina.

Ef vísitala afurðaverðsins á landfrystum botnfiskafurðum sé eingöngu skoðuð sjáist að frá apríl 1995 til desember 1998 hafi vísitalan hækkað um 24.2%. Ef skoðað sé meðaltal afurðaverðsvísitölunnar á gildistíma samningsins, þ.e. frá janúar 1995 til desember 1996, sé hækkunin 22.7% frá meðaltali þessara tveggja ára til desember 1998 ( 24 mánaða flatt meðaltal frá janúar 1995 til desember 1996 gefur 112,0 stig. Vísitalan í desember 1998 er 137,4 stig).

Ef hækkun afurðaverðs sé metin út frá meðalverði á þorski á innlendu fiskmörkuðunum á framangreindu tímabili verði hlutfallshækkunin enn meiri en vísitölur afurðaverðsins mæla.

Úrskurðarnefndin eigi einnig að taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs við ákvörðun sína um fiskverð. Ekkert bendi til annars en að afurðaverðið haldist næstu þrjá mánuði eins og það var í desember síðastliðnum. Því telur sóknaraðili að krafa þeirra um hækkun á grunnverði því sem 77% aflans reiknast á sé í fullu samræmi við þann ramma sem lögin um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna setja nefndinni. Afli skipa Útgerðarfélags Akureyringa hf, sem ekki tekur markaðstengingu hafi fram til þessa verið seldur á fiskmarkaði og ekki sé ástæða til að breyta því.

Kröfur varnaraðila og helstu sjónarmið.

Af hálfu varnaraðila er gerð sú krafa að hafnað verði kröfu sóknaraðila um hækkun fiskverðs og að gildandi samningur milli varnaraðila og annarra sjómanna á ísfiskskipum félagsins verði samþykktur óbreyttur, þ.e. samningurinn við áhafnir Kaldbaks EA 301 og Harðbaks EA 303. Afli þessara skipa er unninn með sambærilegum hætti og áfli Árbaks EA 308 og er seldur á sama markaði.

Til vara er gerð sú krafa að grunnverð frá umræddum samningi fyrir þorsk, ýsu, ufsa og karfa verði óbreytt. Í öðru lagi að markaðstenging verði lækkuð úr 23% í 10%. Þessi krafa er í samræmi við greinargerð varnaraðila til Verðlagsstofu skiptaverðs dags. 13. janúar 1999 þegar félagið vísaði deilunni til úrskurðarnefndar.

Eins og fram kemur í fundargerð 2. fundar 1999 hafi fulltrúar komið með tillögu um hækkun á grunnverði fiskverðs samfara lækkun markaðstengingar í tillögu að samkomulagi. Við það yrði miðað að það heildarverð pr./ kg., sem félagið greiðir nú fyrir umræddar tegundir hækki ekki. Jafnframt hafi verið reifuð tillaga um nýja leið í verðlagningu á þorski, sem byggðist á stærðarflokkun þannig að verð pr/kg. ef í 100 kg. séu 20 fiskar yrði 89,0 kr/kg. Verðið mundi breytast fyrir hvern fisk um 0,6 kr/kg. til hækkunar ef færri fiskar en 20 eru í 100 kg. en til lækkunar ef fleiri fiskar en 20 eru í 100 kg. Varnaraðilar séu enn tilbúnir að ræða frekar þessar tillögur, ef þær gætu leitt til niðurstöðu í þessu máli.

Af hálfu varnaraðila séu helstu rök fyrir óbreyttum samningi einkum eftirfarandi:

  1. Að þorskverð sem varnaraðili greiði nú fyrir slægðan fisk þ.e. 77,38 kr/kg. sé í góðu samræmi við það meðalverð fyrir sambærilega stærðarsamsetningu sem almennt sé greitt í beinum viðskiptum milli aðila. Meðalverð í beinum viðskiptum fyrir landið hafi verið 77,73 kr/kg. í nóvember.
  2. Að meðalverð fyrir karfa hjá félaginu sé hærra en almennt sé í beinum viðskiptum nú um 43,98 kr/kg. en hafi verið að meðaltali fyrir landið 39,93 kr/kg. í nóvember og hærra en hjá Granda hf. eftir síðasta úrskurð úrskurðarnefndar.
  3. Að greitt meðalverð fyrir ýsu hjá varnaraðila sé einnig hærra en almennt gerist í beinum viðskiptum. Varnaraðili greiði 87,25 kr/kg. Markaðsverð að meðaltali fyrir landið hafi verið 81,94 kr/kg. í nóvember.
  4. Að hlutfall markaðsviðmiðunar í greiddu heildarverði einstakra tegunda pr/ kg. hjá varnaraðila sé það hæsta sem þekkist í fiskverðssamningum milli aðila í beinum viðskiptum eða alls 23%.
  5. Að sjómenn á Árbaki EA 301, hafi þegar fengið hækkun á fiskverði vegna hæsta viðmiðunarhlutfalls við ísfiskmarkaði hér innanlands í sambærilegum fiskverðssamningum. Þessi hækkun vegi á móti nokkurri hækkun á landfrystum afurðum. Innlendir ísfiskmarkaðir séu yfirspenntir vegna takmarkaðs framboðs og mjög mikillar eftirspurnar eftir stórum þorski í salt og ferskum flökum í flug til verslana og veitingastaða erlendis. Nefna megi að á sama tíma hafi hefðbundnar landfrystar afurðir aðeins hækkað um 13% frá desember 1997 til desember 1998, en saltfiskafurðir hafa hækkað um 27%.
  6. Að varnaraðili hafi tekið þá ákvörðun að treysta til framtíðar rekstur landvinnslu sinnar, en þessi starfsemi hafi átt mjög í vök að verjast undanfarin ár. Það hafi verið gert m.a. á þeirri forsendu að sátt yrði áfram um þann fiskverðssamning, sem er og hafi verið í gildi milli félagsins og áhafna á skipum þess. Þessi samningur sé almennt í takt við það sem gerist við sambærilega ráðstöfun aflans. Minnt sé á að eftir að umræddur fiskverðssamningur var gerður árið 1995 hafi landvinnslan gengið í gegnum þriggja ára tímabil afurðaverðslækkunar. Sjómenn á Árbaki EA 301 hafi ekki tekið á sig sérstaka lækkun vegna þessa, þar sem samsvarandi fiskverðslækkun hafi ekki orðið á ísfiskmörkuðum.

Í gildi sé samningur við áhafnir tveggja af þremur ísfiskskipum í eigu útgerðarinnar. Sá samningur sé hinn sami sem varnaraðili bjóði sóknaraðila. Vísað sé til niðurstöðu úrskurðarnefndar í sambærilegum málum þegar ágreiningur hafi verið uppi um fiskverð við eina af fleiri áhöfnum í starfi hjá útgerðarfélagi. Því sé eindregið lagt til að tilboð varnaraðila um óbreyttan fiskverðssamning verði samþykkt í nefndinni.

III.

Forsendur og niðurstaða.

Í 10. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna nr. 13/1998 segir: "Úrskurðarnefnd skal ákvarða fiskverð til uppgjörs á aflahlut sjómanna í þeim tilvikum sem til hennar er skotið skv. 9. gr. Gildir ákvörðunin eingöngu um fiskverð gagnvart áhöfn þess skips sem málstotið varðar en ekki gagnvart áhöfnum annarra skipa sömu útgerðar." Af þessu lagaákvæði leiðir að áhöfn er óbundin af samningum, sem útgerð hefur gert við áhafnir annarra skipa sinna. Ber því að fjalla sjálfstætt um hvert einstakt tilvik fyrir sig.

Í 11. gr. laganna segir: "Úrskurðarnefnd skal við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa skiptaverðs hefur safnað.

Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Varði ákvörðun nefndarinnar fiskverð í skiptum óskyldra aðila skal og taka tillit til heildarráðstöfunar á afla skips."

Í máli því sem hér liggur fyrir hefur sóknaraðili lagt fram upplýsingar um þróun afurðaverðs og að það hafi hækkað á tímabilinu frá maí 1995 til desember 1998. Þykir rétt að taka tillit til þessarar hækkunar þegar meta skal grunnverð þess 77% afla sem ekki er markaðstengdur í samningi aðila. Hins vegar ber einnig að hafa hliðsjón af þeim fiskverðssamningum sem liggja fyrir nefndinni og teljast viðmiðunarhæfir í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið skal fiskverð til sóknaraðila hækka þannig að þorskur verði 70 kr/kg. og þorskur undirmál 55 kr/kg. Að öðru leyti skal samningur aðila vera óbreyttur. Skal fiskverð þetta gilda frá 13. janúar til 13. apríl 1999.

Að úrskurði þessum standa auk oddamanns nendarinnar, Sturlaugur Sturlaugsson og Sveinn Hjörtur Hjartarson.

Á móti eru Helgi Laxdal og Guðjón A. Kristjánsson.

Úrskurðarorð:

Verð á eftirtöldum fisktegundum skal tengt markaðsverði, þannig að 77% af magni hverrar tegundar skal reiknað á grunnverði, en 23% magnsins skal reiknað á markaðsverði m.v. verð á Faxamarkaði, Fiskmarkaði Hafnarfjarðar og Fiskmarkaði Suðurnesja fyrir hverja viku. Grunnverð skal vera sem hér segir:

Þorskur 70 kr/kg
Þorskur undirmál 55 kr/kg
Ufsi 35 kr/kg
Karfi 350- 500 gr. 18 kr/kg
Karfi 501-700 gr. 28 kr/kg
Karfi 701- 1000 gr 40 kr/kg
Karfi yfir 1000 gr. 44 kr/kg
Ýsa 75 kr/kg

Að öðru leyti skal samningur aðila vera óbreyttur.

Gildistími fiskverðsins skal vera frá 13. janúar til 13. apríl 1999.

 

Að úrskurði stóðu:

Valtýr Sigurðsson
Sveinn Hjörtur Hjartarson
Sturlaugur Sturlaugsson