Fara í efni

Úrskurður Nr. 2/2020

Úrskurður nr. 2/2020

Mánudaginn 30. nóvember 2020 er kveðinn upp úrskurður í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna skv. lögum nr. 13/1998.

Fyrir er tekið mál nr. Ú2/2020:

 

Sjómannasamband Íslands vegna áhafnar Múlabergs SI-22

gegn

Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi vegna útgerðarinnar Ramma hf. vegna Múlabergs SI-22.

 

Gögn málsins:

1.Uppsögn áhafnar Múlabergs SI á samningi við útgerð um rækjuverð, dags. 12. júlí 2020.

2.Greinargerð SFS í máli Ú1/2020, dags. 17. júlí 2020.

3.Tölvupóstur Verðlagsstofu til fyrirsvarsmanns Ramma hf., dags. 19. ágúst 2020.

4.Skýrsla Gemba seafood consulting, dags. 28. ágúst 2020.

5.Tölvupóstssamskipti fyrirsvarsmanns Ramma hf. og áhafnar Múlabergs SI, dags. 23. september 2020.

6.Tölvupóstur vegna vísunar til úrskurðarnefndar, dags. 29. september 2020.

7.Fundargerð fundar í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, dags. 8. október 2020.

8.Tölvupóstur XXXXXXXXX til úrskurðarnefndar, dags. 23. október 2020, ásamt tilboði fulltrúa sjómanna.

9.Tilboð fulltrúa sjómanna, dags. 23. október 2020.

10.Tölvupóstur Verðlagsstofu til fyrirsvarsmanns Ramma hf., dags. 26. október 2020.

11.Tölvupóstur XXXXXXXXX, dags. 27. október 2020, þar sem upplýst er um þörf á aðkomu oddamanns í úrskurðarnefnd.

12.Tölvupóstssamskipti Ramma hf. og XXXXXXXXX, dags. í nóvember 2020, um sölu á rækju. Samskiptin eru áframsend til XXXXXXXXX þann 20. nóvember 2020.

13.Fundargerð fundar fullskipaðrar úrskurðarnefndar, dags. 23. nóvember 2020.

14.Greinargerð fulltrúa sjómanna, dags. 24. nóvember 2020.

15.Greinargerð SFS, dags. 24. nóvember 2020.

16.Upplýsingar frá Hagstofu Íslands um útflutningsverðmæti á soðinni, pillaðri kaldsjávarrækju, teknar saman í excel skjali.

17.Upplýsingar úr tollaskrám um útflutning Ramma hf. á rækju, sölureikningar Ramma hf. o.fl., teknar saman í excel skjal.

18.Athugasemdir fulltrúa sjómanna, dags. 26. nóvember 2020.

19.Tölvupóstur XXXXXXXXX, dags. 26. nóvember 2020.

20.Athugasemdir SFS með tölvupósti, dags. 26. nóvember 2020.

21.Tölvupóstur XXXXXXXXX, dags. 27. nóvember 2020.

22.Verð Hagstofu Íslands á útfluttri pillaðri rækju til og með október 2020.

23.Glærukynning um vísbendingar um þróun rækjuverðs 2018-2020.

24.Fylgiskjöl með máli Ú1/2020:

a.Verðsamningur XXXXXXXXX dags. í júní 2020.

b.Verðsamningur Múlabergs og XXXXXXXXX.

c.Svar Ramma hf. við fyrirspurn Verðlagsstofu.

d.Afstaða fulltrúa sjómanna til afurðaverðs.

e.Rækja 2019 og 2020.

f.Rammi hf. vegna stöðu rækjumarkaða 2020.

g.Fiskifréttir XXXXXXXXX, dags. í apríl 2020.

h.Fiskifréttir XXXXXXXXX, dags. 14. apríl 2020.

i.Póstur frá sölumanni vegna rækjumarkaðar, dags. 6. júlí 2020.

j.Guardian um atvinnuleysishorfur í Bretlandi, dags. 16. júlí 2020.

k.Tilboð í 2-3 gáma, dags. 16. júlí 2020, auk fylgiskjala.

 

Atvik og sjónarmið aðila:

Ágreiningur máls þessa snýr að því hvaða verð fyrir rækju skuli nota við uppgjör á aflahlut áhafnar Múlabergs SI. Í tilboði sjómanna á fylgiskjali 9 kemur fram að frá apríl 2019 hafi verið greitt til áhafnar Múlabergs SI skv. eftirfarandi töflu og hefur því ekki verið mótmælt:

 
Stærð – stk. í kg. Kg.verð í br. pundum
Að 150 2,80
151-200 2,61
201-290 2,18
Yfir 291 0,82

Þegar Múlaberg SI hóf rækjuveiðar aftur í mars 2020 eftir 6 mánuði við veiðar með botnvörpu þá lagði Rammi hf. eftirfarandi verðtöflu fram:

 
Stærð – stk. í kg. Kg.verð í br. pundum
Að 150 2,25
151-200 2,15
201-250 2,00
251-350 1,75
301-350 1,55
351-400 1,35
401-500 1,00
Yfir 501 0,73

Af samanburði við verðtöflu frá apríl 2019 má sjá að um þó nokkra lækkun er að ræða enda er seinni taflan dags. 22. mars 2020. Á þeim tímapunkti hafði heimsfaraldur Covid-19 breiðst hratt út og haft veruleg áhrif m.a. í Bretlandi sem er helsti útflutningsmarkaður íslenskrar rækju. Þá var verulegur vöxtur á útbreiðslu verunnar. Þann 20. mars 2020 var þeim tilmælum beint til einstaklinga í Bretlandi að forðast krár, veitingastaði og verslanir auk annarra persónumiðaðra sóttvarna. Vegna alvarlegs ástands tók svo útgöngubann gildi þann 23. mars 2020.

Þann 14. maí 2020 skrifuðu skipstjóri Múlabergs SI og fyrirsvarsmaður Ramma hf. undir rækjuverðssamkomulag milli Ramma hf. og Múlabergs SI-12. Þar var samið um eftirfarandi verð eftir stærð:

   
Stærð – stk. í kg. Kg.verð í br. pundum
Að 170 1,53
171-210 1,44
211-290 1,38
291-350 1,12
351-500 0,94
Yfir 501 0,73

Þann 12. júlí 2020 sagði áhöfn Múlabergs SI upp samningnum og hefur ekki verið samningur um rækjuverð í gildi síðan. Viðræður milli áhafnar og útgerðar leiddu ekki til samnings en tilboð gengu meðal annars milli aðila í tölvupóstum þann 23. september 2020, sbr. fylgiskjal 5.

Með tölvupósti, dags. 29. september 2020, var málinu vísað til úrskurðarnefndar. Fundur var haldinn í nefndinni þann 8. október 2020. Með tölvupósti XXXXXXXXX þann 23. október 2020 var sett fram tilboð f.h. sjómanna, sbr. fylgiskjal 8. Með tölvupósti XXXXXXXXX, dags. 27. október 2020, var upplýst að þörf væri á aðkomu oddamanns úrskurðarnefndar, sbr. fylgiskjal 11. Fyrri formaður úrskurðarnefndar lét af störfum í kjölfarið og var nýr formaður skipaður 11. nóvember 2020. Með tölvupósti, dags. 12. nóvember 2020, var boðaður fundur í fullskipaðri nefnd. Vegna forfalla stórs hluta nefndarmanna var óskað eftir nýjum fundartíma. Var því nýr fundur boðaður með tölvupósti 13. nóvember 2020 og var hann haldinn þann 23. nóvember 2020. Deiluaðilar skiluðu greinargerðum þann 24. nóvember 2020. Formaður úrskurðarnefndar fundaði með deiluaðilum hvorum fyrir sig á óformlegum fundum þann 25. nóvember og gafst aðilum þar færi á að skýra nánar sjónarmið sín. Athugasemdir aðilar bárust svo með tölvupóstum 26. nóvember 2020. Síðar sama dag sendi XXXXXXXXX formanni úrskurðarnefndar tölvupóst með tölum um rækjuverð frá Hagstofu Íslands sem náðu fram í október 2020. Með tölvupósti sama dag voru fulltrúar SFS upplýstir um tölvupóst XXXXXXXXX og fengu frest til að gera athugasemdir til 27. nóvember 2020. Tölvupóstur barst frá XXXXXXXXX, dags. 27. nóvember 2020.

 

Kröfur og málsástæður fulltrúa sjómanna:

Krafa fulltrúa sjómanna kemur fram í tilboði, dags. 23. október 2020, en þar kemur fram að fulltrúar sjómanna telja að það eigi að vera tenging milli verðs til sjómanna og afurðarverðs vegna launakerfis sjómanna. Fulltrúar sjómanna krefjast aðallega að ný verðtafla byggi á meðaltals lækkun afurðaverðs 8,4% sem samið hafði verið um í apríl 2019 og verði því samkvæmt neðangreindri töflu:

Múlaberg SI

 

 

Lækkun um 8,4% frá verði í apríl 2019.

Úrskurðarnefnd samkomulag frá 23.10.2020

Fjöldi pr/kg

Verð Pund pr/kg

Frá

Til

 

150

2,57

151

200

2,39

201

290

1,99

291+

 

0,75

Til vara gera fulltrúar sjómanna þá kröfu að ný verðtafla byggi á verðsamningi sem gerður var milli áhafnar Múlabergs SI og Ramma hf. þann 22. mars 2020:

Múlaberg SI

 

 

 

 

Verðsamningur frá 22. mars 2020

Fjöldi pr/kg

Verð Pund pr/kg

Frá

Til

 

150

2,25

151

200

2,15

201

250

2,00

251

350

1,75

301

350

1,55

351

400

1,35

401

500

1,00

501

 

0,60

Fulltrúar sjómanna byggja á því að sá verðsamningur sem áhöfn Múlabergs SI gerði við Ramma hf. í maí 2020 hafi verið 37-45% lægri en samningur sömu aðila frá apríl 2019. Bent er á að frá 13. júlí 2020 hafi verið greitt skv. úrskurði í máli úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna í málinu nr. 1/2020. Fulltrúar sjómanna taka fram í greinargerð sinni að tilboð þeirra byggi á upplýsingum úr tollskýrslum sem Hagstofa Íslands tekur saman frá öllum útflytjendum. Til viðbótar hafi verið fengin gögn sem Verðlagsstofa skiptaverðs hafi útvegað skv. tollskýrslum og reikningum frá Ramma hf. Tekið er fram að framangreind gögn sem og gögn frá Sea Data Center og Undercurrentnews sýni fram á að að lækkun á verði rækju hafi ekki verið jafnmikil og lækkun til sjómanna hafi numið.

Fulltrúar sjómanna benda á að vegið meðalverð fyrstu 9 mánuði ársins 2020 hafi lækkað um 3,8% frá vegnu meðaltali ársins 2019. Þá benda fulltrúar sjómanna á að útflutningsverð á rækju frá Íslandi til Bretlands hafi farið hækkandi undanfarið sbr. upplýsingar frá Undercurrentnews, dags. 29. október 2020.

Fulltrúar sjómanna ítreka þá skoðun að verð á rækju til sjómanna eigi að taka mið af afurðaverði sbr. 3. málsl. 2. gr. 11. gr. laga nr. 13/1998. Þá er bent á að þeir samningar sem gerðir hafi verið í sumar hafi verið undir því yfirskyni í fyrsta lagi að Bretlandsmarkaður hafi verið lokaður, þ.e. engin rækja flutt út, að verðhrun hafi orðið á öllum mörkuðum vegna heimsfaraldurs Covid-19, að samningar hafi verið milli skyldra aðila og að fákeppni ríki á þessum markaði sem og að áhafnir hafi ekki haft möguleika á að rengja upplýsingar útgerðanna.

Fulltrúar sjómanna benda á að þeir sjái engin rök fyrir viðlíka verðlækkunum og útgerðin Rammi hf. fari fram á. Fulltrúar sjómanna vísa til gagna frá Hagstofu Íslands, upplýsinga úr tollskýrslum, sölureikninga Ramma hf., skýrslu Data Center og Undercurrentnews.

Kröfur og málsástæður SFS:

Krafa fulltrúa SFS kemur fram í greinargerð SFS, dags. 24. nóvember 2020 en gerð er sú krafa í málinu að verð fyrir rækju til áhafnar Múlabergs SI-22 verði ákvarðað samkvæmt eftirfarandi hætti frá og með 29. september 2020:

 
Fjöldi/KG. Verð GBP/KG.
undir 150 1,74
151 - 200 1,69
201- 300 1,54
301 - 350 1,40
351- 500 1,10
yfir 500 0,8

Þá er gerð sú krafa að gildistími úrskurðarins verði til og með 1. desember 2020.

Fulltrúar SFS vísa til 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998 og byggja á því að af orðalagi ákvæðisins megi ráða að ákvörðun fiskverðs með tilliti til meðalverða hljóti að vera grundvöllur ákvörðunar fiskverðs og að ekki sé því unnt að ákvarða fiskverð nema meðalverð sé lagt til grundvallar áður en tekið sé tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Því er haldið fram að kröfugerð fulltrúa sjómanna í málinu sé ekki tæk til grundvallar á ákvörðun fiskverðs þar sem hún byggir á allt öðrum þáttum en þeim sem lögbundnir eru. Þá segir að það blasi við að með orðalaginu um „líklega þróun afurðaverðs“ er ljóst að horft skal til framtíðar. Bent er á að enn séu í gildi fiskverðssamningar milli áhafna einstakra skipa og útgerða en að auki landi XXXXXXXXX rækjuafla hjá Ramma hf. á sömu samningum og áhöfn Múlabergs SI.

Fulltrúar SFS mótmæla málatilbúnaði fulltrúa sjómanna varðandi töflu á bls. 1 í greinargerð fulltrúa sjómanna. Í fyrsta lagi þar sem gögn frá Hagstofu Íslands sundurliði ekki eftir stærðar eða gæðaflokkum- en að nánari sundurliðunar væri þörf svo styðjast mætti við gögnin við mat á því hvaða verð er „algengast við sambærilega ráðstöfun“. Þá er því haldið fram að megnið af rækju sem Íslendingar flytji út sé veidd af erlendum skipum og landað erlendis en flutt hingað til lands til áframvinnslu og svo seld á erlendum mörkuðum. Í öðru lagi byggja fulltrúar SFS á því að misvísandi sé að styðjast við meðaltöl með þeim hætti sem gert sé í málatilbúnaði fulltrúa sjómanna þar sem þar sé ekki tekið tillit til útbreiðslu Covid-19. Fulltrúar SFS byggja á því að umtalsverðar lækkanir á afurðarverði hafi einkennt tímabilið frá því útbreiðsla heimsfaraldurs Covid-19 hófst. Vísað er til gagna sem aflað hefur verið frá tollinum og eru teknar saman töflur og gröf sem sýna lækkun afurðarverðs. Þá segir að í september 2020 hafi vegið meðalverð sem fyrirtækið fékk fyrir rækjuafurðir verið 16% lægra en það hafði verið í mars 2020 (við upphaf faraldurs) og 26% lægra en það hafði verið í september árið áður. Vegið meðalverð þriðja ársfjórðungs 2020 var þá um 22,5% lægra en það hafði verið á þriðja ársfjórðungi 2019. Þá er bent á að óseldar birgðir Ramma hf. séu þó nokkrar í samanburði við birgðastöðu í desember í fyrra. Byggt er á því að öll gögn leggjast á eitt um lækkanir á afurðaverði, hvort sem það eru opinber gögn Hagstofu Íslands, útflutningsgögn tollstjóra, skýrslur frá óháðum ráðgjafarfyrirtækjum eða verðathuganir hjá einkafyrirtækjum á borð við Undercurrent News.

Þá byggja fulltrúar SFS á því að tilboð Ramma hf. til áhafnar Múlabergs SI geri ráð fyrir um 67% hráefnishlutfalli og að hlutfall umfram það hlutfall myndi þýða taprekstur hjá rækjuútgerð og vinnslu Ramma hf.

Niðurstaða:

Nokkuð ber á milli sjónarmiða þeirra hagsmunaaðila sem tilnefna fulltrúa í úrskurðarnefndina, bæði hvað varðar fjárhæðir í kröfum aðila sem og aðferðir við útreikning krafna aðila.

Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998 kemur fram að úrskurðarnefnd skuli við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa hefur safnað. Í 2. mgr. 11. segir:

Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Varði ákvörðun nefndarinnar fiskverð í skiptum óskyldra aðila skal og taka tillit til heildarráðstöfunar á afla skips.

Í greinargerð fulltrúa SFS er byggt á því að af orðalagi 11. gr. megi ráða að líta skuli til afurðaverðs að fenginni niðurstöðu um meðalverð, þ.e. að ekki sé unnt að ákvarða fiskverð nema meðalverð sé lagt til grundvallar áður en tekið sé tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Þessi lögskýring fulltrúa SFS á sér ekki stoð í greinargerð með lögum nr. 13/1998 né greinargerð með forvera þeirra, þ.e. laga um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna nr. 84/1995. Þá verður ekki séð að þessi túlkun eigi sér stoð í fyrri úrlausnum úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna.

Líta verður svo á að við ákvörðun sína skuli úrskurðarnefnd taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla og taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs.

Í greinargerð fulltrúa SFS kemur fram að Verðlagsstofa skiptaverðs hafi komist að þeirri niðurstöðu að uppgjör Ramma hf. til áhafnar Múlabergs SI hafi verið í takt við sannanlegt söluverðmæti afurða og samkvæmt gildandi samningum og er í því samhengi vísað til fylgiskjala 3 og 10. Seinna skjalið er tölvupóstur Verðlagsstofu til fyrirsvarsmanns Ramma hf. Þar er vísað til þess að stofnunin hafi óskað eftir upplýsingum með tölvupósti, dags. 19. ágúst 2020. Fram kemur að umbeðin gögn hafi borist stofnuninni með tölvupósti 4. september 2020. Þá segir að Verðlagsstofa hafi skoðað gögn málsins og borið saman við eigin útreikninga og telur þau sýna fram á að útgerðin hafi á umræddu tímabili gert upp við skipverja í samræmi við samning áhafnar og útgerðar um fiskverð. Þá segir að athugun sé lokið. Ekki verður annað ráðið af tölvupósti Verðlagsstofu á fylgiskjali 10 en að athugunin eða a.m.k. málslokin hafi einungis beinst að því hvort Rammi hf. greiddi áhöfn skv. samningi áhafnar og útgerðar um fiskverð. Ekki er hægt að fallast á það með fulltrúum SFS að Verðlagsstofa skiptaverðs hafi þar með fallist á að uppgjör Ramma hf. til áhafnar Múlabergs SI hafi verið í takt við sannanlegt söluverðmæti afurða og samkvæmt gildandi samningum enda verður það ekki ráðið af tölvupóstinum.

Eins og komið hefur fram í fyrri úrskurðum nefndarinnar þar sem formaður þarf að skera úr ágreiningi, er ákvörðun nefndarinnar tekin á grundvelli heildarmats hverju sinni sem felur í sér að vega saman öll sjónarmið og allar þær upplýsingar sem liggja fyrir í einstaka máli.

Svo sem fram kom í úrskurði nefndarinnar í máli Ú1/2020 er ljóst að það liggja mjög fáir gildir samningar fyrir um verð á rækju milli áhafna og útgerða.

Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998 kemur fram að nefndin skuli við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla og skuli í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin einnig taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs samkvæmt skýru orðalagi lagaákvæðisins. Nefndinni er því við verðákvörðun skylt að líta bæði til gildandi samninga og gagna um þróun afurðaverðs, sbr. meðal annars forsendur úrskurðarnefndar í málinu nr. Ú1/2020.

Ákvörðun úrskurðarnefndar í málinu nr. 1/2020 byggði á þeim samningum sem í gildi voru sumarið 2020, en engir nýir verðsamningar um rækju milli áhafna og útgerða hafa verið gerðir síðan þá. Verður því að byggja á því hvað varðar 2. málsl. 2. mgr. 11. gr. að rækjuverð til áhafna séu frá 1,78 pundum niður í 1 pund fyrir kg. eftir fjölda stykkja í kg., sbr. niðurstöðu nefndarinnar í máli Ú1/2020. En eins og kom fram í fyrrnefndum úrskurði þá er um mjög fáa samninga að ræða.

Verður því að líta til líklegrar þróunar afurðaverðs, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 11. gr., og verður það ekki gert án þess að líta til þess hvernig þróun afurðarverðs hefur verið. Fulltrúar sjómanna hafa í þessu máli lagt fram ítarleg gögn um þróun afurðaverðs frá 2018 til október 2020. Í fyrsta lagi hafa verið lögð fram gögn frá Hagstofu Íslands sem sýna útflutning rækju og meðalverð. Fulltrúar SFS hafa borið því við að erfitt sé að líta til þessara gagna þar sem ekki sé í þeim greint á milli upprunalands rækjunnar né stærðarflokka. Við þessu hefur verið brugðist þar sem Verðlagsstofa skiptaverðs hefur aflað tollskýrslna sem sýna útflutning á rækju eftir stærð og upprunalandi. Þá hefur Verðlagsstofa skiptaverðs aflað allra sölureikninga Ramma hf. á tilteknu tímabili. Þessar upplýsingar hafa verið teknar saman í excel skjal sem lagt var fyrir nefndina, sbr. fylgiskjal 18.

Fulltrúar sjómanna viðurkenna að lækkun hefur orðið á afurðaverði rækju frá árinu 2019 en fallast ekki á að lækkunin hafi verið jafnmikil og birtist í greiðslum til áhafnar Múlabergs SI frá maí 2020. Málatilbúnaður þeirra gengur út á að ef hlutur sjómanna á að fara eftir afurðaverði þá þurfi að skoða þróun afurðaverðs og að sjómenn taki á sig sömu hlutfallslegu lækkun eða hækkun sem verður á afurðaverði. Málatilbúnaðurinn gengur þannig út á að vissulega hafi verð á rækjuafurðum lækkað en að lækkunin nemi ekki eins háu hlutfalli og fulltrúar SFS byggja á.

Þegar horft er til þróunar afurðaverðs þá má sjá að afurðaverð hefur lækkað um 15% frá upphafi ársins 2020. Í greinargerð fulltrúa SFS er byggt á því að vegið meðalverð hafi lækkað um 16% frá upphafi árs 2020 til september 2020. Svipaða lækkun má sjá eftir því hvort horft er í þau verð sem Ramminn hf. fékk fyrir rækjuafurðir í janúar og febrúar 2020 annars vegar en hins vegar í júlí, ágúst og september, þ.e. fyrir og eftir að heimsfaraldur covid-19 skall á. Þá má sjá að verð Ramma hf. í upphafi ársins 2020 svipaði til meðaltals sölureikninga fyrir árið 2019. Samskonar lækkun má sjá ef gögn frá Hagstofu Íslands eru skoðuð en þau ná fram í október 2020. Þar má sjá lækkun frá meðaltali fyrstu tveggja mánaða ársins 2020 og fram til október 2020 sem nemur um 13%. Það er því ljóst að ef þróun afurðaverðs er skoðuð það sem af er árinu 2020 þá má sjá þó nokkra lækkun. Fulltrúar SFS hafa bent á að skoða verði þróun afurðaverðs frá upphafi heimsfaraldurs Covid-19 en ekki þróun afurðaverðs frá 2018. Það má taka undir það. Sú lækkun hefur verið í kringum 15%, eftir því hvaða gögn málsins eru skoðuð.

Þau gögn sem nú liggja fyrir styðja því að lækkun hefur orðið á afurðaverði en þó ekki eins mikil og fulltrúar SFS byggja á. Gögn frá Undercurrentnews sýna lækkun frá upphafi árs fram í ágúst 2020 en að svo fari verð á rækjuafurðum örlítið hækkandi. Sjá má skv. gögnum Hagstofu Íslands að verðin eru svipuð í september og október. Það eru því ekki vísbendingar í göngum málsins um frekari lækkun á verði rækjuafurða en þegar hefur orðið. Þegar tekið er tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs verður því að gera ráð fyrir að lækkun hafi verið frá fyrstu tveimur mánuðum ársins fram á haustið en að ekki séu gögn sem styðji frekari lækkun afurðaverðs.

Krafa fulltrúa SFS í málinu gerir ráð fyrir 29-37% lækkun eftir stærðarflokkum frá verðtöflu sem greitt var eftir til áhafnar Múlabergs SI frá apríl 2019. Krafan er byggð á útreikningum í tölvupósti á fylgiskjali 5. Þar kemur fram að hráefnishlutfall umfram 67% þýði tap á framleiðslunni og er því stuðst við það hlutfall við útreikning á tilboði Ramma hf. sem er grundvöllur kröfu þessa mál:

undir 150 6,84*067/2,63 = 1,74

151 - 200 1,69 *067/2,63 = 1,69

201- 300 1,54 *067/2,63 = 1,54

Ljóst er að aðilar eru sammála um að nýtingin sé um 38%, þ.e. að það þurfi 2,63 kg. af hráefni til að búa til 1 kg. af pillaðri rækju. Það virðist óumdeilt. Hins vegar fallast fulltrúar sjómanna ekki á 67% hráefnishlutfall en í andsvörum fulltrúa sjómanna er því haldið fram að tillögur SFS leiði til lægra skilaverðshlutfalls til sjómanna en á árinu 2019.

Í tölvupósti formanns úrskurðarnefndar til fulltrúa SFS var spurt nánar um tölvupóst á fylgiskjali 5 og hvort það væri óumdeilt að tap verði ef hráefnishlutfall fer umfram 67%. Í svari XXXXXXXXX kemur fram að 38% nýting sé almennt viðmiðið í þessum efnum og 67% hráefnishlutfallið sé skurðpunkturinn. Engin rök hafa verið færð fyrir því að tap verði hjá Ramma hf. ef hráefnishlutfall fer umfram 67% né liggja fyrir gögn því til stuðnings. Niðurstaðan verður því ekki byggð á slíkum útreikningi þar sem hráefnishlutfallið er umdeilt.

Í aðalkröfu fulltrúa sjómanna felst 8,4% lækkun frá verðtöflu sem greitt var eftir til áhafnar Múlabergs SI á árinu 2019. Eins og farið hefur verið yfir þá hefur þróun afurðarverðs verið sú að lækkunin nemur mun hærri prósentutölu og verður því ekki byggt á aðalkröfu sjómanna.

Varakrafa fulltrúa sjómanna byggir á verðtöflu sem áhöfn Múlabergs SI fékk greitt eftir og var gerð 22. mars 2020. Í þeirri verðtöflu hafði þegar orðið 8-20% lækkun eftir verðflokkum frá verðtöflu frá apríl 2019. Í stærstu tveimur flokkunum hafði lækkunin orðið 19,6% og 17,6%.

Verður því að fallast á með sjómönnum að líkleg þróun afurðaverðs sé í samræmi við varakröfu sjómanna. Verðtaflan var enda gerð þann 23. mars 2020 þegar heimsfaraldur Covid-19 hafði þegar skollið á. Eins og fram hefur komið hafði þá þegar verið tilmæli til íbúa á Bretlandi að fara ekki á krár, veitingastaði o.fl. Tilkynnt var um útgöngubann í Bretlandi sem tók gildi 23. mars 2020. Í málatilbúnaði SFS hefur falist og á það sér stoð í gögnum málsins að íslensk rækja sé að mestu flutt út til Bretlands og því hafi markaðir lokast þar í kjölfar heimsfaraldursins. Það er því ljóst að við gerð verðtöflu Ramma hf. 22. mars 2020 hefur Rammi hf. haft í huga áhrif faraldursins á þróun rækjuverðs. Ljóst er af gögnum málsins að Rammi hf. flutti ekki út rækju í apríl, maí og júní en svo tók breski markaðurinn aftur við sér. Það var ekki fyllilega ljóst þegar fyrri úrskurður var kveðinn upp enda lágu þá ekki eins ítarleg gögn fyrir.

Með vísan til ofangreindra röksemda er niðurstaða meirihluta nefndarinnar að horfa þurfi til 3. málsl. 2. mgr. 11. gr. og verður að telja að líkleg þróun afurðaverðs í skilningi 2. mgr. 11. gr. sé það verð sem útgerðin Rammi hf. og áhöfnin á Múlabergi SI sömdu um þann 22. mars 2020 og felst í því að fallist er á varakröfu fulltrúa sjómanna í málinu.

Fulltrúar SFS gera þá kröfu að úrskurðurinn gildi til 1. desember 2020. Því hafa fulltrúar sjómanna ekki mótmælt. Úrskurðurinn gildir því frá vísun, þ.e. frá 29. september 2020 til 1. desember 2020.

Úrskurðarorð

Rækjuverð skal vera með eftirfarandi hætti frá útgerðinni Ramma ehf. til áhafnar Múlabergs SI-22:

 

Fjöldi/kg Verð GBP/kg
Undir 150 2,25
151-200 2,15
201-250 2,00
251-300 1,75
301-350 1,55
351-400 1,35
401-500 1,00
501 og yfir 0,60

 

Verð skal gilda frá og með 29. september 2020 til og með 1. desember 2020 og er sett fram í breskum pundum miðað við kg. og fjöldatölur.

 

Hildur Ýr Viðarsdóttr
Á
rni Bjarnason
Valmundur Valmundsson
Guðmundur Helgi Þórarinsson
Árni Sverrisson